Ég var farin að halda að draugar væri með kímnigáfu. Ekkert sérstaklega góða, en það var eitthvað hlægilegt við þetta allt saman. Tveir dagar höfðu liðið síðan ég sá stúlkuna sem hékk neðan úr loftinu og hún var enn hér á sveimi. Ég held að hún hafi verið að elta mig. Ég var reyndar farin að venjast henni og…köfnunartilfinningunni ásamt öðrum litlum óþægindum sem fylgdu henni. Ég sá hana sjaldan, ég fann meira fyrir henni. Ég var næstum farin að venjast henni. En alltaf í skólanum, aldrei annarstaðar. Hún sagði aldrei neitt og ef ég sá hana þá hékk hún bara þarna með lokuð augun, bráðfyndið get ég sagt þér. Eða kannski var ég bara orðin ein taugahrúga og var farin að missa vitið. En þar sem ég vildi ekki hafa hana hangandi hér þar sem eftir var varð ég að finna út hvað hún vildi.
Draugar sóttust vanalega eftir einhverju, friði, hefn eða áttu eftir að gera eitthvað hér á jörð. Eins og Alice, hún vildi einfaldlega finnast og vera grafin í helgri grund.
Ég byrjaði á því að opna Google í fartölvunni minni ( í tíma meira að segja, landafræði var ekki mitt uppáhalds fag). Ég þurfti að komast af því hvort það hafði einhvern tíman verið framið morð eða sjálfsmorð hér á skólalóðinni. Mál sem var a.m.k. 5 ára gamalt miðað við skólabúninginn sem stúlkan hafði verið í.
Ég fór í gegnum fullt af bulli um sjálfsmorð og bloggsíður. Eftir nokkra stund fann ég gamla færslu á bloggsíðu þar einhver hafði framið sjálfsmorð í þessum skóla. Það var fyrir 6 árum þannig það var mögulegt að þetta væri daman mín. Það var engin mynd með færslunni en nafnið á stúlkunni var Maríanna Eggertsdóttir. Þetta var nú meira vesenið, það var ekkert víst að þetta væri draugurinn minn. En þar sem ég var ekki alveg tilbúin að taka af mér menið og láta reyna á betra samband við hana varð ég að sætta mig við þetta. Ég leitaði í gegnum gömul dagblöð á netinu en fann ekkert, enda voru sjálfsmorð sjaldan tilkynnt í dagblöðum.
Eftir landafræði fór ég upp á skólabókasafnið og inn í eitt af myrkari hornum safnsins. Þarna voru geymdir pappírar um skólann, mest bekkjarlistar og skýrslur um nemendur. Þetta var aðallega ætlað fyrir kennarana. Þar sem Maríanna var eina hugsanlega tengingin sem ég hafði ákvað ég að leita að skránni hennar. Ég tók upp stílabókina mína svo að ég gæti skrifað niður upplýsingar þegar ég staldraði við á einni blaðsíðunni. Á spássíunni hafði ég teiknað stelpu sem hékk í lykkju. Ég hafði verið búin að gleyma þessu og þá mundi ég einnig eftir ósjálfráði skrifunum sem kom þessu öllu saman á stað aftur. Hafði það verið hengda stelpan líka, var hún búin að vera að fylgjast með mér og reyna að ná sambandi allan þennan tíma?
Ég fletti upp nafninu hennar og skoðaði skránna hennar. Það var ekki mikið þar, einkunnir og skólaganga. Af fjórum árum hafði hún samt bara verið hérna fyrstu tvö og svo var ekkert meir. Stóð ekkert hvort hún hefði hætt, skipt um skóla…eða látist. Aftast tók ég samt eftir því að það var skólamynd af henni og ég sá að ég var á bandvitlausri leið, þetta var allt önnur stúlka og var ekkert lík draugnum mínum.
Ég gekk frá skránni í skúffuna aftur og andvarpaði. Þetta hafði þjónað engum tilgangi og ég var aftur komin á byrjunarreit. En þar sem ég gekk í burtu frá skúffunni flaug sama skúffan upp aftur og skráin um Maríönnu féll á gólfið. Mér brá einstaklega mikið þegar ég sá skuggann af hengdu stelpunni á gólfinu fyrir framan mig, hana sá ég samt ekki og þakkaði ég hálsmeninu í hljóði.
-Hvað viltu eiginlega núna? muldraði ég.
Skráin flaug yfir gólfið að fótum mér.
Mig langaði næstum að rífa af mér hálsmenið, aðallega til að öskra á hana og spyrja hana hvað í ósköpunum hún vildi.
Pirruð tók ég skýrsluna upp af gólfinu og öll tilfinning fyrir stelpunni hvarf. Ég horfði á skýrsluna, það hlaut eitthvað að tengjast þessari Maríönnu…eða að draugurinn minn var bara að reyna að vera virkilega fyndinn. Hvað sem það var þá skrifaði ég niður helstu upplýsingarnar um stelpuna og gekk svo frá skránni.
Ég gekk út af bókasafninu hálf döpur í bragði, mér fannst ég ekki hafa áunnið neitt með þessari leit. Ég rakst á Emelíu frammi á gangi.
-Hæ, þarna ertu! Ertu búin í skólanum?
-Já, þetta var seinasti tíminn minn, sagði ég.
-Frábært, sagði Emelía hæstánægð. –Þá getur þú kíkt með mér í búðir, ég virkilega verð að kaupa mér nýja skó!
Ég hló að henni. Emelía átti yfir 20 pör af skóm og var alltaf að bæta við sig.
Þannig ég eyddi næstu klukkutímum í búðarrápi með Emelíu, það hressti mig merkilega mikið. Það varð að segjast að ég hafði alltaf haft gaman af því að fara í búðir. Ég rakst meira að segja á skó sjálf sem ég varð að freistast til að kaupa mér.
Ég var ekki komin heim fyrr en um fimmleitið, það var enginn heima og ég fór beinustu leið í tölvuna. Ég reyndi að finna eitthvað meira um þessa Maríönnu en það var mjög lítið efni um hana, nokkrar ljósmyndir síðan hún var í grunnskóla en ekkert meira. Það kom hvergi fram heldur hvort hún væri lifandi eða látin.
Ég rak augun í nafnspjaldið sem Nathan hafði gefið mér. Hann var í lögreglunni ekki satt? Gæti hann hjálpað mér?
Áður en ég náði að tala sjálfan mig út úr því var ég búin að slá inn númerið og hélt á símtólinu, hann svaraði á þriðju hringingu.
-Nathan hérna, sagði röddin á hinum endanum.
-Nathan…hæ. Ég veit ekki hvort þú manst eftir mér, ég heiti Elísabet og var…
-Já, Beta ég man eftir þér. Hvað get ég gert fyrir þig?
Ég sagði honum að ég þyrfti upplýsingar um Maríönnu Eggertsdóttir, sérstaklega hvort hún væri lifandi og hvar hún ætti heima ef hún væri á lífi. Nathan var undarlega hjálpsamur…miðað við það að ég hafði bara hitt hann einu sinni.
-Ertu í einhverjum vandræðum? spurði hann loks.
-Nei nei, ég er bara forvitin um dálítið…
Hann hló á hinum endanum. –Alveg örugglega. Ég skal hringja í þig þegar ég finn eitthvað.
Ég þakkaði honum fyrir og lagði á. Virkilega skrítið, allt of auðvelt.
Ég reyndi einu sinni enn að finna eitthvað meira um hengdu stelpuna en fann ekki neitt, þannig ég ákvað að vera góður nemandi og gera heimavinnuna mína. Eftir dágóðan klukkutíma hringdi síminn minn. Símanúmerið var falið en það hlaut að vera Nathan, ég hafði rétt fyrir mér.
-Fannstu eitthvað?
-Maríanna Eggertsdóttir er lifandi og við góða heilsu, hún er 24 ára og býr ennþá hérna innan borgarmarka, sagði Nathan og gaf mér heimilisfangið. -Þrátt fyrir það er hún nú þekkt undir nafninu Ísabella María Eyþórsdóttir, hún lét breyta nafninu 6 árum áður.
-Hún breytti nafninu? Þess vegna fann ég ekkert um hana, hún er enn á lífi segirðu?
-Já, sagði hann. –Kemur það á óvart?
-Ég veit það ekki alveg, sagði ég.
-Þú hefur nú varla séð hana? spurði Nathan og var greinilega að fiska eftir því hvort ég hafði verið vör við andann hennar eða álíka. Hann virtist vita allt síðan ég hitti hann. Hann hlaut að vera eitthvað undarlegur eins og Theia eða eitthvað. En ég ákvað að svara honum ekki.
-Jæja takk fyrir að hjálpa mér, ég þarf að drífa mig.
Ég lagði á áður hann gat bætt nokkru öðru við. Ég var hálf hrædd við hann. Eða meira kannski sannleikann sem hann stóð fyrir.
Ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera núna. Ætti ég að finna þessa Maríönnu? Hún hlaut að vera tengd draugnum mínum eitthvað, hvers vegna í ósköpunum væri hún annars að reyna að fá mig til að finna Maríönnu. En vandamálið var að ég vissi ekki einu sinni hvað draugurinn minn hét. Ég gat ekki beint bankað upp á hjá Maríönnu og sagt, hey ekki þekkir þú stelpu sem hengdi sig fyrir nokkrum árum? Ekki að fara að gerast.
Ég komst að þeirri niðurstöðu að þótt ég hefði fundið út að Maríanna var lifandi hafði ég lítið sem ekkert að gera við þessar upplýsingar. Ég var í sjálfheldu og leyfði mér að ákveða að það var ekkert meira sem ég gat gert.
Já það voru ekki allir alveg jafn sammála mér daginn eftir í skólanum. Hengda stelpan var miklu meira í kringum mig en vanalega, eins og hún vissi að ég hafði fundið eitthvað út. Stjórnsömu draugar.
Í sögutíma stökk ég á klósettið og þar beið hún eftir mér. Ég sá hana greinilega eitt augnablik en svo var hún eins og skuggi eða truflun í loftinu í kringum mig. Skyldi hún muna hver hún var? Mér fannst hún dálítið undarleg þar sem ég mundi ekki eftir því að hafa rekist á draug áður sem var með svo mikla áráttu fyrir dauða sínum.
-Ég ætla ekki að finna hana, sagði ég þar sem ég þvoði hendurnar á mér.
Þögn.
-Ég meina það, þannig hættu að bögga mig. Finndu þér einhvern annan til að ásækja.
Greinilega ekki það sem hún vildi heyra þar sem herbergið varð ískalt og speglarnir byrjuðu að titra. Speglarnir og gluggarnir urðu móðukenndir og svo byrjaði ósýnilegur fingur að skrifa Maríanna aftur og aftur á speglana. Ég var samt ekki hrædd við hana, þótt hún væri með óttalegt vesen hafði ég aldrei fundið fyrir neinu illu frá þessum draugi þannig ég var ekki hrædd um að hún myndi skaða mig. Ég nuddaði á mér ennið og andvarpaði.
-Okei, okei, okei, sagði ég. –Hættu þessu væli, lætur þú mig í friði ef ég finn hana?
Ekkert svar auðvitað. Hún var farin, hún hafði komið skilaboðunum áleiðis.
Þannig að, ég hætti við að kíkja til Emelíu eftir skóla og hoppaði frekar um borð í strætó. Þetta átti eftir að taka nokkra stund, hún bjó í hinum enda bæjarins. Eftir tæpan klukkutíma í strætó fór ég út og gekk inn í heldur fínt hverfi með stórum raðhúsum. Ég fann húsið hennar fljótlega og stóð nokkra stund fyrir framan dyrnar. Hvað í ósköpunum var ég að gera hérna? Hugsaði ég um leið og ég ýtti á dyrabjölluna.
-Er að koma! sagði einhvern fyrir innan og ég heyrði fótatak niður stiga. Ég fann hvernig maginn á mér herptist af kvíða.
Dyrnar opnuðust og eldri útgáfa af skólamyndinni kom í ljós. Hún var hávaxin og grönn með liðað dökkt hár og fallegt andlit.
-Já? Hvernig get ég hjálpað þér? spurði hún.
Ég fraus nokkra stund en kom mér svo saman.
-Ísabella Eyþórsdóttir? spurði ég og hún kinkaði kolli til staðfestingar. –Sæl, ég heiti Elísabet og er að skrifa grein fyrir skólann um eldri nemendur…
Ég náði varla að klára setninguna þegar svipurinn hennar breyttist frá opinskáum til hálf reiðilegum og hún byrjaði að loka hurðinni. Ég stakk fætinum ósjálfrátt á milli þannig að hún gat ekki lokað hurðinni.
-Gerðu það, sagði ég. –Þú verður að hjálpa mér.
Hvort það var beiðnin í augum mínum eða eitthvað annað hleypti hún mér inn. Hún benti mér á að koma inn í stofu og sagði mér að tylla mér í sófann.
-Ég geri ráð fyrir að þú sért ekki í alvörunni að skrifa greint fyrir skólann, ef svo er þá ertu einstaklega uppáþrengjandi fyrir eina skólagrein, sagði hún og ég roðnaði.
Ég hristi hausinn. –Nei ég er ekki að skrifa skólagrein…
-Gott, ég hef lítinn áhuga á að rifja upp skólaárin, hvað viltu þá?
-…en það gæti tengst skólanum þínum samt sem áður, sagði ég.
Ég hinkraði og renndi fingrunum í gegnum hárið á mér.
-Ég er að leita að stelpu, sagði ég. –Ég veit ekki hvað hún heitir… ekki þekkir þú einhvern sem hengdi sig í skólanum þínum?
Ísabella/Maríanna kipptist við og leit reiðilega á mig. –Ertu að reyna að gera grín að mér? Ef þú ætlar að vera með svona vitleysu þá getur þú komið þér út!
Ég horfði undrandi á hana, skildi ekki hvers vegna hún var svona reið. Svo mundi ég eftir einni af gömlu bloggsíðunum sem hafði sagt að Maríanna hefði framið sjálfsmorð.
Tenging small í huga mér. –Fyrirgefðu ég ætlaði ekki að móðga þig og fyrirgefðu að ég spyrji, ekki reyndir þú að fremja sjálfsmorð?
-Var það ekki það sem þú varst að enda við að segja?!
-Nei fyrirgefðu, ég gerði mér ekki grein fyrir því að þú hefðir… nei þú ert ekki stelpan sem ég er að leita að.
Ísabella róaðist aðeins. –Ég hélt að þú værir að tala um mig. Af hverju heldur þú að ég hafi einhverja tengingu við þessa stúlku?
-Ég er með vísbendingar sem benda til þess en ég get ekki beint útskýrt það, sagði ég sauðslega.
Ísabellu stökk á bros. –Það mætti halda að þú værir skyggn eða eitthvað.
Nú var komið að mér að kippast við.
Hún leit á mig og hló. –Ekki segja mér að ég hafi rétt fyrir mér?
Ég leit niður og yppti bara öxlum og sagði ekki neitt sem fékk hana bara til að hlægja meira.
-Það verður að segjast, þú minnir svo sannarlega á hann.
-Hvern? spurði ég.
-Vinur minn er skyggn, það er eitthvað líkt með ykkur, sagði hún. –Hann á það líka til að tala í kringum hlutina.
Ég hikaði. –Það má segja það, ertu til í að svara spurningum mínum?
Ísabella leit beint í augun á mér, súkkulaðibrún augu hennar voru ákveðin og hún kinkaði kolli.
-Ég tók eftir því að þú breyttir nafninu þínu síðan í skóla og svo er það ástæðan fyrir að reyna sjálfsmorð, ef það er ekki of erfitt gætir þú sagt mér ástæður þessara hluta, það gæti skipt miklu máli, sagði ég.
Hún kinkaði hægt kolli. –Þetta er bara milli mín og þín, sagði hún. –Þegar ég var á öðru ári var kennari í skólanum, Einar Viðarsson sem varð heldur hrifinn af mér. Í fyrstu hélt ég bara að hann væri ánægður með mig sem nemanda en ég komst að því að það var eitthvað meira. Kjáninn ég tók þessu sem ást en það fór of langt og endaði með nauðgun.
Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja en hún hélt áfram.
-Ég var hrædd og þorði ekki að tilkynna þetta. Sérstaklega þar sem sögusagnir voru komnar á kreik að ég væri sofandi hjá hverjum sem er og væri að reyna að tæla kennara. Fólk í skólanum, sérstaklega stelpurnar fóru að vera einstaklega vondar við mig. Ég var komin svo langt niður á við að undir lokin reyndi ég að fremja sjálfsmorð. Sem betur fer tókst það ekki og að lokum hætti ég í skólanum, breytti nafninu mínu og byrjaði upp á nýtt. Skildi fortíðina eftir.
Eftir nokkra stund í viðbót fór ég og þakkaði henni innilega fyrir hjálpina. Þessi Einar var enn að kenna í skólanum mínum. Kannski hafði ég ekki haft rangt fyrir mér að Maríanna hefði verið ‚henda stelpan‘. Hvað ef hún hafði bara verin ein af mörgum? Hvað ef Einar hafði haldið við fleiri ungar stúlkur en bara Maríönnu?
Njótið vel þið sem nennið að lesa :)
Látið mig endilega vita ef þið sjáið villur og/eða þið hafið eitthvað annað um þetta að segja :)
kveðja Ameza