Mig dreymir um fjarlægð lönd þar sem sólin aldrei sest. Mig dreymir um eilíft líf þar sem hver dagur er hamingjan ein.
Dagurinn er allur og nóttin hefur sett sinn svip á litlu eyjuna í norðri. Tunglið heilsar mér, ég heilsa ekki til baka. Stjörnurnar ekki sjáanlegar frekar en fyrri daginn. Ég heilsa þeim í von um að þær komi úr felum, ekkert gerist. Ég held þær bakatala mig, hvar sem þær eru. Þeim finnst ég vera feitur og ekkert sérlega fyndinn. Fjandinn hafi stjörnurnar. Vindurinn leikur við hár mitt og færir það úr stað en lognið leiðréttir mistök vindsins. Vindurinn hvíslar að mér að allt verði í lagi í nótt. Þetta sé nóttin sem ég sé búinn að bíða lengi eftir. Ég hristi höfuðið: ég hef ekki beðið eftir neinu, nema þá kannski dauðanum. Ég hlæ, óvart. Staddur á toppi tilverunnar og engin getur breytt því. Ekki einu sinni þú sem mig hefur alltaf dreymt um, þú sem lætur mig langa til þess að lifa en oftast til þess að deyja. Ég græt, óvart og sé að eitt tár fellur niður á svarta converse skóinn minn. Fellur inní raunveruleikan sem situr á skónum fastur sem óhreinindi. Ég flýg milli skýja og reyni að grípa nokkra regndropa í leiðinni. Svo að ferðin um himininn hafi nú ekki verið til einskins. Svo missi ég stjórnina og byrja að hrapa, neðar og neðar. Skell harkalega í jörðina en er samt bara ennþá gangandi, með tárið á converse skónum. Myrkvið segir mér að koma, ég segi nei. Komdu, komdu, komdu! Tunglið segir myrkvinu að þegja en myrkvið brosir bara framan í tunglið. Ég vildi að ég væri svona kjarkmikill. Ég spenni upphandleggsvöðvana, ekkert til að gleðjast yfir. Ég verð allavega að fá ferðleyfi fyrst, segi ég við myrkvið, það hlær og ég líka þrátt fyrir að hlátur sé mér ekki ofarlega í huga.
Þú hefur látið svo undarlega undanfarið, elskan.
Ég hef eignast vin. Engan venjulegan vin því þessi er sérstakur, einstakur. Hann fær mig til þess að líka vel við sjálfan mig. Hann gerir mig að heilsteyptum einstakling en ekki samkomustað hálfhugsaðra hugmynda. Og ef þér er sama ætla ég að fara að hitta hann núna, á meðan sólin er ekki farinn (fyrir fullt og allt).
Mér er sama elskan. Ekki gleyma lyfjunum þínum. Án þeirra ert þú ekki sá sami.
Ekki sagt en þó hugsað (það skiptir ekki síður máli): Það segirðu satt. Án þeirra er ég, ég. Og það vilt þú og þessi andstyggilegi heimur ekki.
Þú stendur andspænis mér og gerir allt sem ég geri. Ég reyni að leika á þig en þú sérð allt. Þú ert ótrúlegur. Þekkirðu mig? Dreymir þig mig? Elskarðu mig? Ég myndi drepa þig ef ég gæti, elska þig ef ég mætti. Þú ert ekkert merkilegri en hver annar þó þú haldir það. Þær ert ekki hærri en fjöllin, fallegri en sólsetrið eða hugrakkari en ég. Þú felur andlit þitt á bakvið hárið, felur heimskuna á bakvið þögnina og felur fegurðina á bakvið tárin. Slepptu mér eða taktu mig. Elskaðu mig eða leyfðu mér að fara.
Töflurnar fleiri en tuttugu saman komnar í köflóttum sokk. Faldar dýpst ofan í neðstu skúffu heimsins, þar sem engin leitar. Þar sem engin leitar, engin finnur. Það sem augun ekki sjá hjartað ekki særir. Þar eruð þið best geymdar, gleymdar. Eins og ég.
Hleyp út, kalla til þín. Trén æpa á mig. Myrkur, myrkur hvar ertu þegar ég þarfnast þín? Reyni að hlaupa undan birtunni, undan sólinni. Hleyp hraðar og hraðar. Klessi á þig, hver sem þú ert. Þú gerir mér bylt við, færir yfir mig líf. Komdu lengra, nær mér. Sjórinn komin upp fyrir bringu. Eins kaldur og hjarta, eins hlýr og lygi. Hér sést í sólina setjast og kveðja daginn, lífið. Hún speglast í sjónum svo að lífið virðist ágætt. Ég er hræddur, ekki lengur hugrakkur enda bara ungur drengur. Næ ekki lengur til botns, er ekki lengur hluti af jörðinni. Hjartað stöðvast í smá stund. Þetta er það sem þú vilt, það sem þig dreymir. Berst ekki gegn vonleysinu, bregst ekki draumunum. Tárin streyma í sjóinn en það er um seinan. Ég elska þig en það skiptir engu máli. Ég elska þig og það skiptir öllu máli.