Hún nam aðeins staðar fyrir utan dyrnar. Stoppaði, svona eins og til þess að gefa sér færi á að íhuga þetta einu sinni enn. Lífið er leikur, hugsaði hún. En það hafði ekkert breyst, hún kunni öll rökin utan að og vissi nákvæmlega að niðurstaðan myndi ekkert breytast þótt hún færi í gegnum þau aftur. Svo þrýsti hún ungri hendinni ákveðið á hurðina og gekk inn á kaffihúsið þvert á sína betri vitund. Til fjandans með mótrökin, hún myndi aldrei upplifa neitt ef hún tæki aldrei neina sénsa. Lífið er ekki leikur nema maður taki þátt.

Hún leit í kringum sig. Inni barst kliður frá gestum kaffihússins, unglingstúlkum með innkaupapoka og listamönnum með skissubækur og fartölvur. Þjónarnir skutust á milli borða með bakka af sjóðheitum kaffibollum, áfjáðir í að uppfylla óskir viðskiptavinanna.

Hún gekk innar á staðinn. Hann hafði sagt að hann myndi sitja í innsta horninu með gráa fartölvu, í svartri skyrtu og gráum jakkafötum. Hún renndi augunum yfir salinn, en rak þau ekki í neitt sem líktist því sem hún var að leita að. Hjartað í henni tók smá kipp. Hafði hann kannski bara verið að rugla í henni? Var honum kannski ekki alvara? Eða var hann seinn? Hún leit á klukkuna. Nei, hún hafði mætt korteri eftir að hann hafði sagst ætla að mæta, og hann hafði sagt að hann myndi bíða í hálftíma. Hann hafði örugglega bara ekki mætt.

Hún var í þann mund að snúa við þegar hún tók eftir því að dyrnar að klósettinu opnuðust, og þarna stóð hann, ljóslifandi fyrir framan hana í gráum jakkafötum og svartri skyrtu, efstu tvær tölurnar óhnepptar. Og þarna var andlitið sem hún þekkti úr vefmyndavélinni, fíngert og snyrtilegt en einhvern veginn á sama tíma gróft og karlmannlegt. Hann var um það bil einn-áttatíuogfimm á hæð, sterklega byggður en grannur, dökkhærður og svolítið sólbrúnn. Hún gat ekki neitað því að hann var mjög aðlaðandi, þótt hún hefði venjulega ekki smekk fyrir mönnum sem voru ríflega 10 árum eldri en hún.

Hann tók strax eftir henni. Augu þeirra mættust og hann brosti lymskulega. Nú var engin undankomuleið, hann hafði unnið, hún hafði mætt. Þau gengu nokkur skref til móts við hvort annað og námu svo staðar á miðju gólfinu. Hann rétti fram hendina.

- Hildur? Hann brosti aftur þessu örugga brosi sem gæti hæglega verið af andliti þjónustufulltrúa hjá banka.

- Já, það er ég. Hún tók í sterklega hendina á honum. Handartak hans var þétt og ákveðið en hún var ekki frá því að sín eigin hendi titraði aðeins. Hún vonaði að hann tæki ekki eftir því. Hann sleppti henni ekki alveg strax heldur mældi hana aðeins út með augunum á meðan þau stóðu þarna. Dökkt hárið sem liðaðist meðfram sakleysislegu andlitinu niður á grannan en vel mótaðan líkamann, slétt og hvít húðin í kringum ungleg augun.

Loks sleppti hann henni og benti í áttina a borðinu sínu.

- Má ekki bjóða þér sæti?

Þau settust sitt hvoru megin við borðið og þögðu í smá stund. Loks:

- Stressuð? Hann glotti. Hún hló smá.

- Haha, já.

- Þú veist að það þarf ekkert að gerast. Hugmyndin var auðvitað að við myndum bara hittast og sjá hvert það færi. Hann brosti góðlátlega til hennar. Ég veit að ég er svolítið gamall fyrir þig.

- Já. Hún leit rannsakandi á hann. Síðan:

- Mig langar til þess að leyfa þessu að fara lengra. Hún fann hvernig spennan magnaðist upp í líkamanum bara við að segja orðin.

- Allt í lagi, sagði hann. Hann virtist ánægður. Hann dró upp þúsundkall og lagði á borðið um leið og hann stóð upp.

- Eigum við? Hann vísaði veginn í áttina að hurðinni.

- Já.



Þegar hún vaknaði var hann farinn. Á koddanum við hliðina á henni lá rauður miði. Á honum stóð:

Velkomin til leiks.


– Lengd útgáfa fáanleg á sögukorkinum á /kynlif fyrir þá sem hafa aldur og áhuga til. –

Farið nú að senda eitthvað inn!