Hér birtist þýðing mín á The Last Question eftir Isaac Asimov. Sú smásaga er oft talin vera sú besta eftir hann - hún fjallar um tilvist alls mannkynsins, framtíð þess og örlög. Þessi saga hefur eitthvert erindi við hvern og einn íbúa jarðarinnar.

Þar að auki skuluð ekki lesa endinn fyrst. Byrjið frekar á byrjuninni.






Síðasta spurningin var borin upp í fyrsta skiptið, í nokkurs konar hálfkæringi, þann 21. maí árið 2061, á þeim tíma þegar mannkynið gekk í gegnum raunverulega upplýsingu. Sú spurning kom til vegna veðmáls upp á fimm dollara, og varð til vegna þessa:

Alexander Adell og Bertram Lupov voru tveir af hinum fjölmörgu sem unnu fyrir Multivac. Þeir vissu best af öllum hvað lá undir hinu tölvugerða yfirborði hennar, sem teygði úr sér marga kílómetra. Að minnsta kosti höfðu þeir nokkurs konar yfirsýn af hinu tæknilega fyrirkomulagi og starfsemi hennar sem fyrir löngu hafði vaxið mannkyninu ofviða hvað stærð og heildarsýn varðaði.

Multivac gat aðlagað og leiðrétt sjálfa sig. Það var jú nauðsynlegt, enda gat ekkert mannlegt lengur lagað eða uppfært tölvuna nógu hratt eða vel. Adell og Lupov nálguðust því þennan risa á auðmjúkan hátt eins og allir aðrir hefðu gert. Þeir mötuðu hana á gögnum, aðlöguðu spurningar eftir þörfum hennar og þýddu hin og þessi svör. Hlutverk þeirra var jú að breiða út hið góða sem einkenndi Multivac.

Áratugum saman hafði Multivac hjálpað til við hönnun geimskipa og brautir þeirra sem komu mannkyninu á tunglið, Mars og Venus, en fyrir utan það gátu hinar naumu orkubirgðir jarðar tæplega hjálpað til. Hinar löngu geimferðir þurftu alltof mikla orku. Kola- og úraníumbirgðir jarðarinnar voru nýttar af aukinni skilvirkni en þó hlutu þær að vera endanlegar.

Smám saman lærði Multivac að svara erfiðari og þó einfaldari spurningum, og þann 14. maí, 2061 breyttist vísindaleg kenning í vísindalega staðreynd.
Sólarorkan var endanlega tamin, henni umbreytt og hún nýtt í þágu allrar plánetunnar. Jarðarbúar hættu að brenna kol og kljúfa úraníum, og kveiktu í staðinn á orkurofa sem var tengdur við aðalstöðina sem var ein míla að þvermáli og staðsett milli tunglsins og jarðarinnar. Öll jörðin gekk nú fyrir sólarorku. Í heila viku eftir vígslu stöðvarinnar ríktu hátíðahöld og Adell og Lupov náðu loks að sleppa við fundarhöldin. Þeir mæltu sér mót þar sem enginn bjóst við að finna þá, í yfirgefnum neðanjarðarbyrgjum þar sem hlutar af Multivac voru staðsettir. Hún hafði unnið sér inn frí eftir þrotlausa útreikninga og malaði nú lágt við einhver einföld störf svo sem að raða gögnum. Þeim fannst hún eiga það skilið. Upphaflega ætluðu þeir sér ekkert að trufla hana. Þeir höfðu flösku með sér og það eina sem þeir ætluðu að gera þessa stundina var að slaka á hvor með hinum og flöskunni.

“Það er í raun ótrúlegt að hugsa út í þetta.” sagði Adell. Hann hafði breiðleitt andlit með þreytulegum hrukkum og hrærði nú í drykknum með kokteilpinna og horfði á ísmolana fljóta letilega um í glasinu. “Öll sú orka sem við gætum nokkurn tímann þurft - ókeypis. Nægileg orka til þess að bræða jörðina í stóran málmklump, og miklu meira til. Öll orka sem við munum þurfa að eilífu.”

Lupov hallaði höfðinu til hliðar. Hann hafði þá venju þegar hann vildi andmæla einhverju, og hann hugðist líka andmæla, að hluta til vegna þess að hann þurfti að halda á klakanum og glösunum. “Ekki að eilífu,” sagði hann.

“Nei en, ég meina, eiginlega að eilífu. Þangað til sólin deyr.”

“Það er ekki að eilífu.”

Allt í lagi þá. Milljarðar ára. Tíu milljarðar, kannski. Ertu sáttur við það?“

Lupov renndi fingrunum gegnum þunna hárið rétt eins og hann vildi fullvissa sig um að það væri eitthvað hár eftir, og tók lítinn sopa. ”Tíu milljarðar eru ekki að eilífu.“

”Nei en það er nógu langt fyrir okkur, ekki satt?“

”Jú, rétt eins og kol og úraníum.“

”Allt í lagi þá, en við getum núna sent öll geimskip sem til eru til Plútó og til baka milljón sinnum án þess að hafa áhyggjur af orku. Þú nærð því ekki með kolum og úraníum. Spurðu Multivac ef þú trúir mér ekki.“

”Ég þarf ekki að spyrja Multivac, ég veit það.“

Hættu þá að gera lítið úr því sem Multivac hefur gert fyrir okkur,” sagði Adell pirraður og bætti við “hún hefur gert allt rétt.”

Hver segir að hún hafi ekki gert allt rétt? Ég á bara við að sólin endist ekki að eilífu, það er allt of sumt. Við erum tryggð næstu tíu milljarða ára, en hvað svo?“ Fingurinn á Lupov skalf örlítið þegar hann beindi honum að Adell. ”Og ekki segja að við flytjum bara í annað sólkerfi.“

Það kom þögn nokkra stund. Adell bar glasið að vörum sér eins og af gömlum vana, og Lupov lokaði augunum. Þeir slökuðu á.

Lupov opnaði skyndilega augun. ”Þú ert að hugsa um að við myndum bara flytja í annað sólkerfi þegar okkar sól er búin, ekki satt?“

”Ég er ekki að hugsa um neitt.“

”Jú víst. Þig skortir rök, það er vandamálið við þig. Þú ert eins og náunginn sem lenti í hellidembu og hljóp undir tré til að skýla sér. Hann hafði ekki áhyggjur því þegar tréð væri blautt í gegn hlypi hann bara undir það næsta.“

Já já, ég næ þessu,” sagði Adell. “Ekki tala svona hátt. Þegar okkar sól er búin verða hinar búnar líka.”

“Þú getur hengt þig upp á það,” sagði Lupov. “Þetta átti sér allt upphaf í Miklahvelli, hvað sem það nú var, og þetta mun allt eiga sinn endi þegar stjörnurnar klárast. Sumar klárast hraðar en aðrar, meira að segja gasrisarnir endast ekki í hundrað milljarða ára. Okkar sól verður búin eftir tíu milljarða ára og kannski endast dvergarnir í tvö hundruð milljarða. En eftir, segjum, billjón ár verður algert myrkur. Það þyrfti að núllstilla óreiðustigið í alheiminum.”

“Ég veit allt um óreiðustigið,” svaraði Adell, staðráðinn í að gefa ekkert eftir.

“Þú veist ekkert um það.”

“Ég veit nákvæmlega jafn mikið um það og þú.”

“Þá hlýturðu að skilja að allt klárast á endanum.”

“Já já, hver segir að það muni ekki klárast?”

Nú þú, kjáninn þinn. Þú sagðir að við hefðum alla þá orku sem við þyrftum að eilífu. Þú sagðir að eilífu.“

Nú var komið að Adell að standa á sínu. ”Kannski getum við breytt því einhvern daginn.“

”Aldrei.“

”Hvers vegna ekki? Einhvern tímann gæti það verið hægt.“

”Aldrei.“

”Spurðu Multivac.“

”Spurð þú Multivac. Ég mana þig. Ég veðja fimm dollurum á að það sé ekki hægt.“

Adell var mátulega drukkinn til að reyna, en nægilega edrú til að stimpla inn nauðsynleg tákn og skipanir til að mynda eftirfarandi spurningu: ”Mun mannkynið einhvern daginn geta endurbyggt sólina eins og hún var fyrst með nægilegri nettóeyðslu á orku?“ Spurningunni var síðan breytt í: ”Hvernig er hægt að minnka óreiðustigið í alheiminum?“

Multivac þagnaði. Blikkljósin hurfu og hið fjarlæga hljóð gataspjaldanna heyrðist ekki lengur.

Þegar tæknimennirnir tveir gátu vart haldið lengur í sér andanum kviknaði skyndilega líf í tölvunni á ný og á skjánum birtust orð: ÓFULLNÆGJANDI GÖGN ERU TIL STAÐAR

”Þetta veðmál er grafið og gleymt,“ hvíslaði Lupov. Þeir fóru af svæðinu.

Næsta morgun þegar þeir vöknuðu með þurran munn og hausverk höfðu þeir báðir gleymt þessu atviki.




Jerrodd, Jerrodína og Jerródetta I og II horfðu á stjörnurnar á kvikskjánum líða hjá eftir því sem ferðinni gegnum geiminn í tímastoppi miðaði áfram. Í stjörnuþyrpingunni birtist smám saman skínandi diskur á stærð við baun. ”Þetta er X-23,“ sagði Jerrodd. Hann spennti greipar fyrir aftan hnakka og hnúarnir hvítnuðu.

Litlu Jerródetturnar voru í sinni fyrstu geimverð og fundu vel fyrir tilfinningunni sem fylgdi því að vera í tímalausu rúmi. Þær flissuðu og hlupu hvor á eftir annarri kringum móður sína. ”Við erum á leið til X-23, við erum á leið til X-23, við erum á leið til…“

”Svona stelpur hættið þessum látum,“ sagði Jerrodína. ”Ertu viss Jerrodd?“

”Hvernig er annað hægt?“ svaraði Jerrodd og renndi augunum eftir járnstykkinu sem lá eftir endilöngu skipinu og var jafnlangt og skipið sjálft. Jerrodd vissi ekki mikið um það annað en að það héti Microvac og gæti svarað öllu og gert allt, meðal annars að stýra skipinu á réttan áfangastað. Það gekk fyrir orku frá hinum ýmsu sólkerfaorkustöðvum og sá um að reikna út stökkin gegnum rúmið. Það eina sem þau þurftu að gera var að njóta allra þeirra þæginda sem skipið hafði upp á að bjóða. Einhver hafði sagt Jerrodd að ”ac“ í enda orðsins ”Microvac“ stæði fyrir ”automatic computer“ á forn-ensku, en hann var ekki lengur viss.

Augu Jerroddínu vöknuðu eilítið er hún horfði á kvikskjáinn. ”Ég get ekki að því gert, en það er nokkuð skrýtin tilfinning að yfirgefa jörðina.“

”Hvers vegna í ósköpunum,“ sagði Jerrodd. ”Það var ekkert þarna að hafa. Við munum geta fengið allt sem við þurfum á X-23. Þú munt ekki verða ein, þú þarft ekki að vera einhver landkönnuður. Það eru nú þegar yfir milljón íbúar þarna. Úff, meira að segja barnabörnin okkar þurfa ábyggilega að leita að nýjum plánetum því X-23 verður orðin yfirfull.“ Hann þagði nokkra stund en hélt svo áfram: ”Það er líka eins gott að tölvurnar gátu gert okkur kleift að ferðast milli sólkerfa miðað við hvað mannkyninu fjölgar.“

”Ég veit það fullvel,“ sagði Jerrodína döpur í bragði.

Jerródetta I sagði með ákveðni: ”Microvac tölvan okkar er sú besta í heimi.“

”Mér finnst það líka,“ sagði Jerrodd og strauk á henni hárið.

Það var nefnilega nokkuð hentugt að eiga sjálfur Microvac tölvu og Jerrodd var glaður að vera af sinni kynslóð. Í tíð föður hans voru tölvurnar gríðarstór tæki sem tóku fleiri hundruð ferkílómetra undir sig. Þær höfðu stöðugt vaxið í um þúsund ár þangað til skyndilega fannst lausn á vandamálinu. Í staðinn fyrir smára komu sameindaleiðslur þannig að nú var hægt að koma stærstu tölvunum fyrir í hólf sem tók aðeins helminginn af meðalstóru geimskipi.

Jerrodd varð uppnuminn, eins og raunar alltaf þegar hann hugsaði út í að Microvac einkatölvan hans var mörgum sinnum þróaðri en hin forna og frumstæða Multivac sem tamdi fyrst sólarorkuna, og næstum jafn öflug og stærsta tölva jarðarinnar sem fyrst fann út aðferð til langferða í geimnum.

”Þetta er ótrúlegur fjöldi af stjörnum og plánetum,“ sagði Jerrodína hugsi. ”Ætli fjölskyldur á borð við okkur muni ekki flytja til nýrra pláneta eins og við að eilífu.“

”Ekki að eilífu,“ sagði Jerrodd og brosti. ”Einhvern tímann hlýtur það að taka enda, eftir milljarða ára. Marga milljarða. Meira að segja stjörnurnar klárast, hugsaðu þér. Óreiðustigið mun alltaf aukast.“

”Hvað er óreiðustig pabbi?“ spurði Jerródetta II.

”Óreiðustig ljúfan mín er bara flókið orð sem þýðir að ekkert mun endast að eilífu. Allt hættir að virka einhvern tímann, eins og litla dótavélmennið þitt, manstu?“

”En er ekki hægt að setja nýjar rafhlöður eins og í vélmennið mitt?“

”Stjörnurnar eru rafhlöður elskan. Þegar þær eru búnar eru engar rafhlöður eftir.“

Jerródetta I fór að góla. ”Ekki láta þær gera það pabbi. Ekki láta stjörnurnar klárast!“

”Sjáðu nú hvað þú gerðir,“ hvíslaði Jerródína höstuglega.

”Hvernig átti ég að vita að þær yrðu hræddar við eitthvað svona?“ hvíslaði Jerrodd til baka.

”Spurðu Microvac pabbi!“ vældi í Jerródettu I ”Spurðu hana hvernig er hægt að kveikja aftur á stjörnunum.“

”Svona, Jerrodd, gerðu það,“ sagði Jerródína. ”Það hlýtur að þagga niður í þeim.“ (Jerródetta II var einnig byrjuð að gráta.)

Jerrodd dæsti mæðulega. ”Svona svona stelpur, ég skal spyrja Microvac. Engar áhyggjur, hún segir okkur svarið.“

Hann spurði Microvac spurningarinnar og bað hana um að prenta út svarið.

Að því loknu las hann svarið í hljóði og sagði síðan glaðlega: ”Nei sko, Microvac sagði að hún mun sjá um allt þegar að því kemur þannig að þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur.“

Jerródína bætti við: ”Jæja stelpur, nú er kominn háttatími. Á morgun verðum við komin.“

Jerrodd las svarið aftur áður en hann krumpaði filmunni saman og henti henni í ruslið. Á henni stóð: ÓFULLNÆGJANDI GÖGN ERU TIL STAÐAR

Jerrodd yppti öxlum og horfði á kvikskjáinn. X-23 var framundan.



VJ-23 frá Lameth horfði inn í djúpt myrkrið á þrívíddarkortinu af vetrarbrautinni og spurði: ”Ætli það sé fáránlegt að velta svona hlutum fyrir sér?“

MQ-17J frá Nicron hristi hausinn. ”Nei ég held ekki. Þú veist að vetrarbrautin mun fyllast eftir fimm ár með áframhaldandi fjölgun.“

Þeir litu báðir út fyrir að vera um tvítugt, hávaxnir og afar myndarlegir.

”Samt sem áður…“ sagði VJ-23X hikandi, ”vil ég helst ekki senda Stjörnuráðinu of neikvæða skýrslu.“

”Þá myndi ráðið ekkert taka eftir henni. Hristu aðeins upp í þeim. Það þarf jú aðeins að hrista upp í Stjörnuráðinu.“

VJ-23X dæsti. ”Geimurinn er endalaus. Hundruð milljarða af vetrarbrautum eru þarna til staðar. Ábyggilega meir.

“Hundruð milljarða er ekki óendanlegt, a.m.k. verður það minna óendanlegt með hverjum deginum. Hugsaðu út í það! Fyrir tuttugu þúsund árum gat mannkynið loksins beislað sólarorkuna og nokkrum öldum síðar var farið að ferðast milli sólkerfa. Það tók mannkynið eina milljón ára að fylla nærliggjandi sólkerfi og síðan aðeins fimmtán þúsund ár að fylla afganginn af vetrarbrautinni. Nú tvöfaldast mannkynið á tíu ára fresti og…”

“…og við getum þakkað ódauðleikanum það,” greip VJ-23X fram í.

“Gott og vel. Ódauðleikinn er staðreynd og við verðum að reikna með honum. Hann er þó ekki fullkominn. AC alheimstölvan hefur leyst fjölmörg vandamál fyrir okkur, en með því að leysa vandamálið við dauðleika mannsins urðu til alls kyns önnur vandamál.”

“Þú vilt þó ekki deyja, er það nokkuð?”

“Nei ertu frá þér!” gall við í MQ-17J áður en hann lækkaði róminn. “Ekki nærri því strax. Ég er enn það ungur. Hvað ert þú gamall?”

“Tvö hundruð tuttugu og þrigjgja ára. En þú?

”Ég er enn þá undir tvö hundruð árunum… en hvað með það. Fólksfjöldinn tvöfaldast á tíu ára fresti. Þegar þessi vetrarbraut verður orðinn full, verður sú næsta orðin full eftir tíu ár. Önnur tiu ár og þú getur bætt tveimur við. Fjórum eftir áratug. Eftir heila öld verðum við búin að fylla þúsund vetrarbrautir og milljón eftir þúsund ár. Eftir tíu þúsund ár verður alheimurinn orðinn fullbyggður og hvað þá?“

VJ-23X bætti við: ”Þar að auki gætu fólksflutningarnir orðið vandamál. Hvað ætli það þurfi orku úr mörgum stjörnum til að flytja heila vetrarbraut af einstaklingum yfir í aðra.“

”Góður punktur. Nú þegar neytir mannkynið á hverju ári orku sem jafngildir tveimur stjörnum.“

”Reyndar fer mest af þeirri orku í súginn. Um það bil þúsund stjörnur klárast á hverju ári í vetrarbrautinni og við notum aðeins tvær.

“Að vísu, en þótt við myndum nýta hundrað prósent af þeirri orku væri það samt ekki nóg. Orkuþörf okkar vex miklu hraðar en fólksfjöldinn. Við myndum klára orkuna áður en við kláruðum vetrarbrautirnar. Það er nokkuð stórt umhugsunarefni.”

“Við þurfum þá að búa til nýjar stjörnur úr ónýttu gasi.”

“Já og handtína hverja sameind eins og krækiber?” sagði MQ-17J í kaldhæðnislegum tón.

“Það hlýtur einhvern veginn að vera hægt að minnka óreiðustigið í alheiminum. Hvað með að spyrja Alheimstölvuna?”

VJ-23X spurði meir í gríni en alvöru, en MQ-17J dró strax AC-senditækið úr vasa sínum og setti það fyrir framan hann.

“Hvers vegna ekki,” sagði hann. “Mannkynið þarf jú að geta svarað því einhvern tímann.”

“Hann horfði á tækið með hálfum huga. Það var aðeins nokkrir rúmsentimetrar að rúmmáli og innihélt í rauninni ekki neitt, heldur var það tengt við móðurtölvuna sem þjónaði öllu mannkyninu og var staðsett fyrir utan hið hefðbundna rúm. Móðurtölvan var ekki lengur til í þeirra veruleika.

MQ-17J hikaði og fór skyndilega að hugsa um hvort hægt væri að sjá sjálfa móðurtölvuna. Hún var í rauninni heimur út af fyrir sig með neti sem lá vítt og breitt kringum rúmið og starfaði aðeins að hluta gegnum sameinaleiðslurnar. Þrátt fyrir það var hún talin vera nokkrir kílómetrar að stærð.

MQ-17J spurði síðan: ”Er hægt að minnka óreiðustigið í alheiminum?“

”VJ-23X varð hissa og sagði: “Nújá, ég meinti þetta meira í gríni en alvöru.”

“Hvers vegna?”

“Því það er ekki hægt. Þú getur ekki breytt reyk og ösku aftur í tré.”

“Eruð þið með tré hjá ykkur?” spurði MQ-17J.

Hljóðið sem barst frá AC alheimstölvunni setti þá hljóða. Frá senditækinu barst hjáróma en þó falleg rödd. Hún sagði: ÓFULLNÆGJANDI GÖGN ERU TIL STAÐAR

“Sko!” sagði VJ-23X.

Þeir héldu síðan báðir áfram störfum sínum fyrir Stjörnuráðið.



Hugur Zee Prime vafraði gegnum nýju vetrarbrautina með takmörkuðum áhuga á þeim aragrúa stjarna sem hún innihélt. Hann hafði aldrei séð þessa vetrarbraut fyrr. Myndi hann nokkurn tímann sjá þær allar? Þær virtust óendanlegar og hver og ein þeirra var nærri fullbyggð. Mannkynið var smám saman að leggja undir sig alheiminn.

Já hugur, ekki líkami! Sú var raunin með mannkynið. Hinir veraldlegu líkamar voru eftir á plánetunum, geymdir þar um ókomna tíð. Stundum risu þeir upp fyrir líkamlegar athafnir en það gerðist æ sjaldnar. Sífellt færri einstaklingar fylltu hópinn, þennan aragrúa af fólki, enda var orðið æ minna pláss fyrir nýja einstaklinga.

Zee Prime rakst skyndilega á annan huga á ferðum sínum.

“Ég er Zee Prime,” sagði hann. “Hver ert þú?”

“Ég er Dee Sub Wun. Frá hvaða vetrarbraut ert þú?”

“Við köllum hana bara Vetrarbrautina. En þú?”

“Við líka. Allir kalla sína vetrarbraut Vetrarbrautina, en ekki hvað?”

“Jú það er rétt, þær eru jú allar eins.”

“Reyndar ekki allar. Mannkynið hlýtur að hafa komið frá einhverri vetrarbraut. Það greinir hana að.”

“Hvaða vetrarbraut ætli það sé?”

“Ég veit ekki. En AC hlýtur að vita það.”

“Eigum við að spyrja hana? Ég er orðinn forvitinn.”

Zee Prime þysjaði sjónsvið sitt út þangað til vetrarbrautirnar þyrptust aftur saman og urðu eins og stjörnuryk í bakgrunninum. Þeim ægði saman, hundruðum milljarða, með öllum sínum íbúum og hugum sem svifu hér og þar um geiminn. Og samt hlaut einhver þessara vetrarbrauta að vera einstök, hin upphaflega vetrarbraut. Einhver þeirra átti sér forsögu, þegar mannkynið bjó á aðeins einni plánetu.

Forvitni Zee Prime var vakin. Hann sagði: “AC! Í hvaða vetrarbraut á mannkynið sér upphaf?”

AC heyrði spurninguna um leið, því í öllum alheiminum var hún með net af móttökurum sem leiddu spurningar yfir í hið óþekkta rúm þar sem hún dvaldi. Zee Prime vissi aðeins um einn sem hafði farið með huga sinn nálægt AC og sagði hana líta út eins og glóandi hnött sem erfitt var að sjá. Zee Prime spurði hann hvort AC væri ekki stærri. Hún sýndist víst ekki vera stærri því megnið af tölvunni var staðsett utan rúmsins og fyrir utan hinn venjulega skilning. Ekki nokkur einasti maður gat ímyndað sér þá tíð þar sem mannkynið gæti átt við AC tölvuna. Hver og ein vetrarbraut og heimur sem AC bjó til sá um hinn næsta og þannig koll af kolli.

AC tölvan greip fram í fyrir hugsunum Zee Prime. Huga hans var beint inn í óramyrkur alheimsins og beindist smán saman að ákveðinni vetrarbraut.

Í huga hans sagði hjáróma rödd eftirfarandi orð: ÞETTA ER HIN UPPRUNALEGA VETRARBRAUT MANNKYNS

Hún leit nákvæmlega eins út og allar hinar og Zee Prime reyndi að fela vonbrigði sín.

Hugur Dee Sub Wun fylgdist með öllu sem fram fór og spurði síðan: “Er einhver þessara stjarna upphafsstjarna mannkyns?”

AC svaraði: UPPHAFSSTJARNA MANNKYNS ER FYRIR LÖNGU ORÐIN HVÍTUR DVERGUR

“Ætli mennirnir á plánetunni hafi dáið?” spurði Zee Prime sjálfkrafa í huga sér.

AC svaraði: NÝR HEIMUR VAR BÚINN TIL FYRIR LÍKAMANA Í TÆKA TÍÐ

“Já auðvitað,” sagði Zee Prime við sjálfan sig, en samt fann hann fyrir einhverjum söknuði. Hugur hans hvarflaði frá upphafsvetrarbrautinni og hún fjarlægðist og hvarf loks í aragrúann með öllum hinum. Hann langaði ekki að sjá hana framar.

“Hvað er að?” spurði Dee Sub Wun.

“Stjörnurnar eru að deyja. Upprunalega sólin er nú þegar dauð.”

“Þær hljóta allar að deyja fyrr eða síðar.”

“En þegar öll orkan er búin, munu líkamar okkar líka deyja.”

“Það verður ekki fyrr eftir milljarða ára.”

“Ég vil ekkert að það muni gerast. AC, hvernig er hægt að koma í veg fyrir að stjörnur deyji?”

Dee Sub Wun sagði brosandi: “Þú ert að spyrja hvernig hægt sé að minnka óreiðustig alheimsins.”

AC svaraði: ENN ERU ÓFULLNÆGJANDI GÖGN TIL STAÐAR.

Hugur Zee Prime leitaði aftur til hans eigin vetrarbrautar. Hann hugsaði ekki meir til Dee Sub Wun, enda var hann ábyggilega einhvers staðar billjón ljósár í burtu, eða í næsta sólkerfi. Það skipti ekki endilega máli.

Með nokkru hugarangri hóf Zee Prime á ný að safna saman vetni til að byggja sína eigin stjörnu. Ef stjörnurnar hlutu einhvern tímann að deyja út væri að minnsta kosti hægt að byggja nýjar á meðan.



Mannkynið hugsaði með sjálfu sér; því mannkynið var hugarfarslega eitt og hið saman. Það samanstóð af fleiri billjónum af aldurslausum líkömum sem lágu hver og eitt hér og þar um alheiminn þar sem vélar sáu um líkamlegar þarfir þeirra meðan sameiginlegur hugur þess blandaðist saman í einn einstakling.

Mannkynið sagði: “Alheimurinn er að deyja.”

Mannkynið horfði á vetrarbrautirnar sem gáfu frá sér sífellt minna ljós. Stjörnurisarnir voru löngu kláraðir og horfnir í myrkur tímans. Nærri því allar stjörnurnar voru hvítir dvergar sem voru smám saman að fölna.


Nýjar stjörnur höfðu verið byggðar úr stjörnuryki þeirra gömlu; sumar af náttúrunni og sumar af mannkyninu sjálfu og þær voru sjálfar á banabeði. Reyndar var hægt að leysa hvítu dvergana upp í nýjar stjörnur en það var aðeins hægt með um þúsund dvergum fyrir hverja stjörnu sem varð til í staðinn.

Mannkynið sagði: “Sé öllu haldið til haga samkvæmt AC tölvunni ætti að vera hægt að nota þá orku sem eftir er í nokkra milljarða ára.”

“En þrátt fyrir það,” svaraði mannkynið sjálfu sér, “mun það klárast á endanum. Hversu sparlega sem farið verður með orkuna mun hún klárast. Óreiðustigið hlýtur að stækka.

”En er ekki hægt að snúa við óreiðustiginu? Spyrjum AC tölvuna.“

Alheimstölvan umkringdi þá alla en ekki í hinu hefðbundna rúmi; raunar hafði tölvan yfirgefið allt hefðbundna rúmið og tekið sér bólfestu fyrir utan það og samanstóð hvorki af orku né efni heldur einhverju allt öðru. Stærð hennar eða geta hafði í raun enga merkingu lengur.

”Alheimstölva,“ spurði mannkynið, ”er hægt að snúa við óreiðustiginu?“

Alheimstölvan svaraði: ÓFULLNÆGJANDI GÖGN ERU TIL STAÐAR.

Mannkynið sagði: ”Safnaðu saman fullnægjandi gögnum.“

Alheimstölvan svaraði: ÉG MUN GERA ÞAÐ. ÉG HEF GERT ÞAÐ Í HUNDRUÐ MILLJARÐA ÁRA. FORVERAR MÍNIR HAFA SPURT ÞESSARA SPURNINGAR MÖRGUM SINNUM. ÖLL ÞAU GÖGN SEM ÉG HEF ERU SEM STENDUR ÓFULLNÆGJANDI.

”Mun sá tími koma,“ spurði Mannkynið,” þar sem fullnægjandi gögn liggja fyrir?“

Alheimstölvan svaraði: EINHVERN TÍMANN HLJÓTA ÖLL FULLNÆGJANDI GÖGN AÐ LIGGJA FYRIR.

”Hvenær munu þau liggja fyrir?“ spurði Mannkynið.

Alheimstölvan svaraði: SEM STENDUR ERU ÓFULLNÆGJANDI GÖGN TIL STAÐAR.

Mannkynið spurði: ”Muntu vinna í málinu?“

JÁ, svaraði Alheimstölvan.

”Við munum bíða,“ svaraði Mannkynið.



Stjörnurnar og vetrarbrautirnar dóu og lognuðust út af, og geimurinn varð svartari og svartari eftir því sem ármilljarðarnir liðu.

Maðurinn samtvinnaðist Alheimstölvunni einn af öðrum, þar sem líkaminn skildist við hugann og alheimstölvan stækkaði með hverjum huganum sem bættist við.

Síðasti mannshugurinn staldraði við, horfði yfir alheiminn sem var næstum því svartur og stefndi í tómið eitt.

Maðurinn spurði: ”Alheimstölva, er þetta endirinn? Er ekki hægt að snúa við þessari óreiðu? Er ekki einhver möguleiki?"

Alheimstölvan svaraði: ÓFULLNÆGJANDI GÖGN ERU TIL STAÐAR.

Síðasti hugur mannsins rann saman við Alheimstölvuna fyrir utan rúmið.

Efni og orka var á enda komið og samhliða því rúmið og tíminn. Alheimstölvan hélt þó áfram að vera til vegna síðustu spurningarinnar sem hafði aldrei verið svarað, allt frá því að drukkinn tæknimaður hafði spurt hennar fyrir trilljónum ára.

Öllum öðrum spurningum hafði verið svarað, og þangað til þeirri síðustu hafði verið svarað hélt Alheimstölvan áfram að vera til.

Öll gögn sem hægt var að safna lágu fyrir. Það var ekkert meir sem hægt var að safna.

En öllum þessum gögnum átti eftir að raða og flokka í rétt hólf.

Óskilgreindum tíma var eytt í það verkefni.

Og loks kom að því að Alheimstölvan kunni að snúa við óreiðustiginu.

En það var enginn eftir sem Alheimstölvan gat gefið svar við þessari síðustu spurningu. Ekki einu sinni neitt efni. Með því að sýna svarið gat tölvan aðeins svarað því.

Í óskilgreindan tíma hugleiddi Alheimstölvan hvernig best væri að svara þessu. Alheimstölvan undirbjó aðgerðina smán saman.

Meðvitund Alheimstölvunnar barst skyndilega í rúmið og dreifðist yfir það sem nú var tómið eitt.

Alheimstölvan sagði: VERÐI LJÓS!

Og það varð ljós.