Tré þjóta hjá á ógnarhraða. Akrar og vínekrur líða framhjá. Einhver potar í öxlina á mér.
“Hei, Tanni.” Ég sný mér frá glugganum og svara Guðna.
“Hm, hvað?”
“Við ætlum í matarvagninn, ert þú til í að bíða hérna með farangurinn?”
“Já já, en hei, nenniði að kaupa eina samloku fyrir mig?”
“Auðvitað, sjáumst eftir korter.” segir Guðni og gengur út á eftir Ásgeiri og Kristóferi.
Ég kveiki á iPodinum, sting heyrnatólunum í eyrun, læt lögin stokkast og horfi út um gluggann. Allt í einu hættir tónlistin. Andskotinn. Rafhlaðan í iPodinum er tóm. Pirraður ríf ég heyrnartólin úr eyrunum. Ég lít í kringum mig. Gamli maðurinn sem var í klefanum áður en við komum inn er sofandi og hefur verið það seinustu klukkustundina.
Skrítinn þessi karl. Gamall, gráhærður og skeggjaður, hávaxinn og grannur. Eftir að hafa leitað í tuttugu mínútur að klefa sem var ekki fullur fundum við þennan. Karlinn bauð okkur inn og eftir að hafa spjallað við hann stutta stund kynnti hann sig sem Þanatos og upplýsti okkur um að hann væri að fara að heimsækja bróður sinn.
Mig rámar eitthvað í nafnið, en hef ekki hugmynd um hvar ég hafði heyrt það áður. Ég lít örsuttt ofan í bakpokann minn til að finna hleðslutæki fyrir iPodinn, en þegar ég sest aftur upp er karlinn glaðvakandi. “Veistu nokkuð hvað klukkan er?” spyr hann mig á frönsku.
“Það eru rúmlega tveir tímar þar til lestin kemur til Cannes.” svara ég honum.
“Ég held nú að lestin verði lengur en tvo tíma á leiðinni,” hnussar í karlinum, “en mér þætti mjög vænt um að fá að vita hvað klukkan er nákvæmlega.”
“Alveg sjálfsagt, hún er sextán mínútur yfir þrjú.”
“Nú, það er svona stutt í það.” muldrar hann og ygglir sig.
Í þessu koma Ásgeir, Kristófer og Guðni til baka. Ásgeir hendir til mín samloku í plastkassa.
Við rífum í okkur matinn á stuttum tíma, enda glorsoltnir. Eftir matinn fara Ásgeir og Kristófer að rifja upp gamlar minningar, sem eru einmitt ástæðan fyrir þessari síðustu ferð, að eignast fleiri minningar. Þessi hópur hefur verið síðan á annarri önn í Menntó. Ég Jónatan, Ásgeir, Guðni og Kristófer höfum gengið saman í gegnum súrt og sætt í fjögur ár, en nú skilja leiðir. Guðni ætlar í verkfræðinám í Danmörku, Ásgeir í eðlisfræði í Bandaríkjunum, Kristófer í lækninn heima, og ég hafði hugsað mér að leggja stund á bókmenntanám í Englandi. Við ákváðum síðasta haust að fara í lestaferð um Evrópu áður en við færum hver í sína áttina.
“Jæja drengir, skál fyrir okkur!” Segir Guðni og við skálum með kóki. Allt í einu finn ég hvernig lestin kippist til. Lestarstjórinn hefur snarhemlað og lestin hægir á sér en ekki nógu hratt, því að nokkrum sekúndubrotum síðar flýgur farangurinn af stað, kókglösin þeytast úr höndum okkar og ég hendist til og frá. Vagninn veltur og ég kastast upp í loft. Ég finn fyrir sársauka í smá stund en svo verður allt svart.


Dauðinn stóð upp og dustaði af sér rykið. Hann gekk yfir til Jónatans þar sem hann lá. Göngulag dauðans var mjög sérstakt. Þótt hlutir væru fyrir þá fóru fætur hans bara beint í gegnum þá, eins og efni og massi væru eitthvað fyrir neðan hans virðingu. Hann beygði sig niður, tók í hönd Jónatans og hjálpaði honum upp.
“Takk Þanatos,” sagði hann, “Vá, þetta var tæpt, hvað gerðist eiginlega?”
“Það var smápeningur á teinunum. Tvær fyllibyttur voru að rífast um hvort lest færi af sporinu ef smápeningur væri á teininum, svo þeir ákváðu að prófa.”
“Bíddu nú hægur, ertu að segja mér að ég hafi næstum dáið vegna þess að einhver var fullur og vildi vita hvort hann gæti sett lest af sporinu!?”
“Næstum?” spurði Dauðinn í forundran “Hm, þú ætti kannski að líta niður.”
Jónatan leit niður, og sá sér til mikillar skelfingar sjálfan sig. Hann var ekki í neitt frábæru ástandi. Höfuðið sneri öfugt og brjóstkassinn lá greinilega brotinn undir farangurstösku. Jónatan starði á líkama sinn í nokkrar mínútur og sneri sér svo að Þanatosi.
“E-Er ég dauður?” spurði hann dolfallinn.
“Já.” svaraði Þanatos einfaldlega.
“En, en, en hvað með þá?” spurði Jónatan og benti í kringum sig á vini sína.
“Ég er ekki hér til að ná í þá.”
“Ná í mig? Ert þú… Dauðinn?”
“Já”
“En Dauðinn er beinagrind sem gengur um í svartri skikkju með orf og ljá! Þú ert skeggjaður gamall maður sem heitir Þanatos.”
“Nöfn fyrir mér skipta engu, ég hef borið þau mörg í gegnum tíðina. Jú, Grikkir nefndu mig Þanatos og Rómverjar kölluðu mig Mors en óteljandi margir aðrir hafa gefið mér önnur heiti. Ég er persónugerving fyrirbærisins sem þið kallið dauða og verk mitt er að koma sálum fólks burt úr þessum heimi.”
“En þetta er ósanngjarnt! Að ég deyi vegna þess að einhver gaur er fullur!?”
“Ósanngjarnt? Sanngirni er hugtak sem þið mennirnir bjugguð til til að réttlæta gjörðir ykkar fyrir sjálfum ykkur. Nei, það er engin sanngirni í heiminum. Fólk lifir og fólk deyr. Ekkert flóknara.”
Jónatan kíkti á hægri hönd sína og sá að hún var að verða gegnsæ.
“En hvað geri ég nú?”
“Nú ferð þú úr þessum heimi.”
“Hvert?” spurði hann örvæntingarfullur um leið og útlínur hans hurfu.
“Ég veit það ekki,” svaraði Dauðinn. “Ég hef aldrei dáið.”
Veni, Vidi, Veni