109 dagar þangað til ég kemst út. Tíminn er hættur að líða. Ég er að snappa hérna.
Ég veit að ef ég skrifa þessa smásögu þá fer ég ekki að sofa fyrr en eftir miðnætti. Það kemst enginn hjá því að vera vakinn kl. 8, þ.a. að ég á eftir að vera handónýtur allan daginn á morgun. Samt er ég að skrifa.
Platon skrifaði einhverntíman á papýrusrúllu heimspekilega samræðu sem hefur verið kölluð Gorgías í endurútgáfum. Ritið fjallar um rökræðu Sókratesar og er ritið nefnt eftir þeim sem rökrætt við, sófistann Gorgías. Jafnframt rökræðir hann við menn eins og Callicaes og Pólus. En ritið heitir ekki eftir þeim. Ég hef aldrei lesið það en ég hef lesið helling um það. Bókin er upp í hillu hjá mér. Einn daginn á ég ekki eftir að lesa hana.
En ef ég væri maðurinn sem myndi einn daginn lesa Gorgías eftir Platon? Tja, þá væri ég varla maðurinn sem sæti fastur hérna inni. Ég væri ábyggilega einhverstaðar í háskóla. Það væri skylda að lesa Gorgías, og ég læsi hana af skyldu, en skil ekki að ég myndi lesa hana hvort sem er, því það er einmitt maðurinn sem ég er. En á sama tíma hefði aldrei verið möguleiki á því að ég væri ekki að lesa hana af skyldu. Gildir einu.
Kannski væri ég í framhaldsnámi í Frakklandi. Að lesa Derrida, Baudelaire og Foucoult. Á frönsku, því ég kynni frönsku ef ég kynni að hafa nenning fyrir heimspeki.
Einu sinni sá ég álfastelpu. Það var þegar ég var að vinna við að bóna bíla upp í flugstöð. Þá kom einu sinni hópur af frönskum unglingum. Ríkir krakkar. Frekar barnaleg. Tveir strákar skiluðu lyklunum af bílnum og fyrir utan stóðu tvær stelpur að reykja. Og álfastelpan… hún var út í bíl. Held ég. Ég sá hana í svona eina sekúndu og ég geri bara ráð fyrir því að hún hafi verið með þeim.
Einhvern veginn sást langar leiðir að ef hún þekkt mig út í Frakklandi að læra frönsku þá væri hún einmitt týpan til þess að falla fyrir mér. Ég lái henni það ekki. Ég er líka ferlega skotin í henni. Við elskumst á ströndinni í Cote D'Azur. Það hljómar kannski vel, en þetta var í Toulon, subbulegustu hafnarborg í Frakklandi og við hittumst við Kebablúgu. Hún mælti með því að ég bætti við frönskum á kebabinn. I was in love!
En það er ekki alltaf dans á rósum. Stundum er lífið ljúft en miklu oftar er það nú bara frekar hversdagslegt, hættulega hversdagslegt. Einn daginn, já kannski daginn sem ég ákveð að lesa Gorgías (aftur), tilkynnir álfastelpan mér að hún sé ólétt. Ég verð vondur við hana. Hún rýkur upp og til fjölskyldunnar sinnar. Ég kemst að því að hún var aldrei ólétt.
Ég er kominn heim til Íslands aftur þegar mér snýst hugur og flýg aftur til að hitta hana. Í nokkrar vikur erum við mjög hamingjusöm, en samt eitthvað svo sorgmædd.
Þegar bankahrunið varð þá rýrna námslánin mín gífulega mjög hratt. Hún segir mér í kjölfarið að hún skuldi frekar mikin pening. Hún segir mér ekki af hverju en ég veit af hverju. Pabbi hennar er hætt að gefa henni pening.
Eitt kvöld seint í nóvember er okkur gert tilboð á frekar skítugum McDonalds stað í úthverfi Toulon. Það er kannski frekar klisjulegt, en þetta var tilboð sem við gátum ekki hafnað. Ég gleypti ekki fíkniefnin. Ég límdi þau ekki inn á mig. Mér var einfaldlega rétt taska og án þess að opna hana tók ég hana með mér í handfarangur.
Ég vil að það sé á hreinu að þetta var frekar skothelt plan. Langflestir sem gera svona komast upp með það. Sérstaklega þegar þeir eru hvergi skráðir á sakaskrá og eru einfaldlega saklausir námsmenn í Frakklandi. En stundum er heppnin með manni og stundum ekki og þennan dag var hundur í tollinum. Hann er eiginlega aldrei, en hann var í þetta skiptið.
Það hefði nefnilega held ég ekki skipt neinu máli þótt ég hefði verið heimspekiunnandi, eða sjómaður eða eitthvað allt annað. Ég hefði alltaf endað hérna. Þetta er nefnilega ekki spurning um örlög eða eitthvað slíkt. Þetta er bara spuring um hver ég er.
Klukkan er orðin miklu meira en miðnætti.
108 dagar eftir.