Þessi kafli er töluvert lengri en hinn, vona að þið nennið að lesa í gegnum þetta! :)

3. kafli

Morguninn var bjartur og hlýr rétt eins og gærdagurinn hafði verið og það gladdi mig að vita að ég var að fara út úr bænum þar sem maður gæti eytt eitthvað af tíma sínum úti í þessu dásamlega veðri. Ég plataði Bjarka að skutla mér út í skólann þar sem ég var með ferðatöskuna. Hann meira að segja bauðst til þess, ég þurfti ekkert að væla í honum. Yndislegt hvað eldri bræður áttu það til að vera góðir.

Ég fann Emelíu fljótt þar sem hún var með, trúðu því eða ekki, ferðatösku á hjólum. Og hún var bleik, ég meina það, bleik! Ég hristi hausinn yfir henni þar sem ég nálgaðist hana.

-Virkilega Emelía, virkilega? sagði ég um leið og ég komst í talfæri.

-Hvað? sagði hún.

Ég leit á töskuna og svo aftur á Emelíu.

-Hvaað? Þetta er eina nógu góða taskan sem ég á, svo er hún á hjólum! sagði Emelía til að verja sig.

Ég hristi hausinn aftur yfir henni. –Emelía, minntu mig á að taka þig með í tjaldútilegu einhverntíman, það ætti að vera fróðlegt.

Emelía leit á mig, ekki alveg viss hvernig hún ætti að lesa úr háði mínu.

Stuttu seinna komu rúturnar og allir ruddust inn til að ná sætum meðan rútubílsstjórarnir hömuðust við að koma farangrinum inn ásamt einstaka hjálpsama nemanda. Ég og Emelía sátum saman en Anton sat með vinum sínum aftar í rútunni. Mér til mikillar gleði sátu vinkonur okkar Emelíu fyrir framan okkur sem gerði það að verkum að Emelía hafði einhvern til að tala við á meðan ferðinni stóð. Mér fannst alltaf mjög óþægilegt að tala við fólk í rútu vegna þess að ég verð mjög auðveldlega bílveik og þarf þess vegna helst að hlusta á tónlist allan tíman og éta mintu til þess að koma í veg fyrir það.

Eftir meira en fjörtíu mínútna akstur fór ég að dotta þar sem ég hlustaði á Beethoven og horfði á hraundranga og fjöll færast fjær.

Ég var stödd í djúpum skógi. Hann var dimmur og það mátti rétt svo sjá að sólin var þarna einhverstaðar fyrir ofan íburðamiklar trjágreinarna,r en hérna niðri við skógarbotninn var myrkur. Hann var einnig hljóður, skógar eru aldrei fulkomnlega hljóðir, það er alltaf tíst í fuglum, skrjáf í greinum, niður í lækjum, en hér var ekkert. Bara þrúgandi þögn. Ég gerði mér óljóst grein fyrir því að ég var að elta lítinn stíg, varla stíg samt, meira bara kindaslóð. Skyndilega fór ég að hlaupa og ég fylltist hræðslu, ég vissi ekki hvers vegna ég var að hlaupa, það var ekkert hér til að vekja ótta nema óttinn sjálfur. Skyndilega varð allt svart, ég hvarf í myrkrinu og féll lengra og lengra…

Ég hrökk upp og Beehoven fyllti vitund mína á ný. Ég var enn í rútunni og hafði ekki sofnað lengi. Annað landslag hafði hinsvegar tekið við, kræklótt birkitré og stærri tré höfðu tekið við og fylltu landslagið af grænni fegurð. Sólarljósið dansaði yfir trén og gaf þeim hálf sjálflýsandi útlit, það sást varla á trjánum að haustið væri ekki langt undan. Draumurinn var horfinn, ég vissi að ég hafði dreymt eitthvað en sama hvað ég reyndi gat ég ekki munað hvað það var. Draumurinn var eins snöggur að koma sér úr huga manns eins og blautur silungur úr greipum manns.

Ég tók heyrnartólin af mér og snéri mér að Emelíu. –Veistu hvað það er langt eftir?

-Nei en það ætti ekki að vera meira en 20 mínútur, húsið er einhverstaðar hér í þessum skógi.

Rétt eins og Emelía sagði þá stoppuðum við nokkru seinna á bílastæði fyrir framan stórt en gamaldags viðarhús. Órói byrjaði að byggjast upp í rútunni um leið og húsið sást og fólk var ekki lengi að koma sér út um leið og rútan stoppaði og opnaði hurðirnar. Þá hófst bardaginn um töskurnar, ég sat hin rólegust í rútunni og beið eftir því að mesta öngþveitið væri búið og fór þá og fann dótið mitt. Okkur var öllum stillt upp fyrir framan húsið og kennararnir lásu upp nöfnin á öllum aftur, þau höfðu gert það líka áður en lagt var af stað.

-Þið hafið hálftíma til að koma ykkur fyrir í herbergjunum, bara sama kyn saman, sagði kennarinn og fékk slatta af andvörpum yfir þessu seinasta. –Þið þurfið að vera komin og klædd til útiveru hingað út aftur eftir hálftíma og engar afsakanir!

Eftir þetta tókst kennurunum samt að eyða 10 mínútum í það að tala um öryggismál en hleyptu okkur loks inn í bygginguna. Byggingin fyllti vitund mína af viðarlykt og það brakaði í nánast öllum gólfplötunum þegar maður gekk áfram. Húsið var á tveim hæðum, á neðri hæðinni var rúmgott eldhús, búr, matsalur og annar salur með sófum og boðum. Á efri hæðinni var langur gangur af herbergjum, sex í hverju herbergi. Ég og Emelía fundum okkur herbergi með stelpum sem við þekktum og ég var ekki lengi að eigna mér eina af efri kojunum.

-Hvað haldið þið að við séum að fara að gera? spurði Emelía þar sem hún opnaði fínu bleiku töskuna sína og fór eitthvað að róta í henni.

-Við erum örugglega að fara í göngutúr eða eitthvað ef ég þekki þessa kennara rétt, sagði ég á meðan ég tók svefnpokann hans Bjarka úr pokanum til að leyfa honum að lofta um sig.

-Jú alveg pottþétt, sagði ein af stelpunum. –Ég heyrði kennarana vera að tala um gönguleiðir áðan.
Emelía andvarpaði. –Jæja það þýðir víst að ég neyðist til þess að fara úr hælunum.

Ég hló bara að því hve vongóð hún hafði verið að hún mætti í hælaskóm.

Stuttu seinna komum við okkur út á bílaplan aftur þar sem kennararnir stóðu tilbúnir eins og þeir hefðu aldrei farið inn. Flest allir voru komnir út og það var lesið upp aftur til þess að vera viss um að enginn væri eftir inni. Okkur til mikillar gremju fengum við þykkan bunka af verkefnum og blýanta áður en við lögðum af stað, auðvitað áttum við að rannsaka náttúruna á leiðinni. Aldrei var hægt að gera neitt jafn einfalt og að fara bara í göngutúr.

Göngutúrinn tók hátt í 3 tíma og var mestmegnis gengið í gegnum skóginn þótt að það kæmu engi og rjóður hér og þar. Skógurinn var svo yndislega fullur af lífi, fuglarnir sungu og við sáum nokkrar kanínur koma sér í skjól þegar þær komu auga á okkur. Við gegnum upp á hæð sem mátti varla kalla fjall þar sem við gátum séð yfir allan skóginn, og auðvitað greint bergtegundirnar á hæðinni og legu fjallana í fjarlægð. Það mátti sjá veggi og húsarústir hér og þar um skóginn, það hafði verið nokkuð góð byggð hér árum áður en hún hafði fallið í eyði smám saman, húsið sem við sváfum í var víst eina standandi húsið eftir, eða svo sögðu kennararnir. Meirihlutinn af tímanum fór í litlar pásur þar sem við reyndum að pára niður svörin við spurningunum sem tengdust umhverfinu. Loks var snúið aftur heim að skálanum þar sem ég Anton og Emelía settumst strax niður og gerðum okkar besta við að klára þykka verkefnaheftið. Illu er best aflokið.

Brátt voru margir farnir út á völlinn hérna við hliðina að spila fótbolta eða einfaldlega baða sig í sólinni. Ég ákvað að rölta aðeins lengra inn í skóginn sjálf, það höfðu bara verið of mikið af litlum slóðum sem ég sá í göngutúrnum áðan til þess að ég gæti sleppt að skoða þá. Ég gekk fyrst eftir stórum malbikuðum stíg en fór af honum um leið og það kom lítill og freistandi hliðarstígur. Spennt yfir því að vita ekki hvert hann leiddi hálf skokkaði ég áfram en róaðist svo niður og naut þess bara að finna fyrir hitanum af sólinni í andliti mínu. Ég hafði alltaf elskað sólina, hún fyllti mann ávalt af hlýju, gleði og öryggi. Hún var eins og verndari okkar hér á jörðu niðri, eins og guð sjálfur. Eftir að hafa skipt um slóða nokkrum sinnum gekk ég fram að rústum inn í skóginum. Ég steig af stígnum og gekk yfir mjúkt skógargólfið og sá að þetta var löngu yfirgefið hús, nei ekki hús, þetta hlaut að hafa verið kirkja eða kapella. Kirkjan var nánast öll hrunin nema einn veggur sem stóð enn og var ástæðan fyrir því að ég var viss um að þetta hefði verið kirkja, það var einn heillegur gluggi þarna og hluti af litaglerinu stóð enn í steinveggnum. Þetta var svo fallegt að ég bölvaði sjálfri mér að vera ekki með myndavélina mína, en þótt að ég hefði tekið hana með hefði ég aldrei alveg náð augnablikinu. Myndavélar gerðu það aldrei, það var alltaf eitthvað sem vantaði uppá, eitthvað í andrúmsloftinu og tilfinningin sem fylgdi staðnum. Ég gekk alla leið upp að vegnum og snerti hann varlega, eins og til að fá meiri tengingu við þennan löngu horfna stað. Það gerði mig dálítið sorgmædda.

Ég vissi að ég gæti náð góðu sambandi við þennan stað, hann var fylltur tilfinningum og minningum. Ég gæti náð sambandi með því að taka þetta smáa hálsmen af mér. En ég var ekki svo forvitin, löngunin var ekki svo sterk. Ég var of hrædd, ég vissi um skuggana sem leyndust í þessum heimi og þú opnaðir ekki slíka hurð án þess að bjóða hættunni heim. Ég vissi það af reynslu. Nei, þetta var nóg fyrir mig, rólegt augnablik á heilagri grund.

Það sem eftir var dagsins leið hratt og í gleði. Eftir að ég kom til baka tók ég þátt í einum drullugum fótboltaleik sem gerði það að verkum að flestir enduðu í sturtu og í heitum hverum eftir á. Hverirnir voru æði, alveg eins og lítið Bláa Lónið. Eftir það var grillað og allir voru í góðum fíling, ekkert vesen. Það var ekki fyrr en við vorum að fara að sofa að það kom eitthvað vesen.

Það var búið að reka okkur öll inn í herbergi og við stelpurnar vorum komnar í náttföt og höfðum það náðugt með bók eða slæmar slúðursögur.

-Jæja hvernig gengur þetta með þig og Anton? spurði eins af stelpunum Emelíu sem hét Anna.

Emelía roðnaði eins og tónmatur. –Hvað meinarðu hvernig gengur?

Þetta fékk herbergið til að fyllast af hlátri.

–Ég held að þið tvö séuð þau einu sem gera sér ekki grein fyrir því hvað er í gangi, sagði ég og tók undir hláturinn.

Þetta fékk Emelíu til að krossleggja á sér handleggina og setja upp fýlusvipinn sinn. –Þetta er ekkert skemmtilegt, getum við ekki gert eitthvað annað?

-Nú jæja, þegar slúðrið fer að snúast um þig viltu ekki lengur vera með? sagði Anna.

-Ég veit, sagði eins af stelpunum. –Hvað um að við förum í andaglas?

Þetta fékk stelpurnar til að verða spenntar og hoppa niður úr efri kojunum. Ég var ekki beint spennt fyrir þessu, nei mér fannst eins og köld hendi hefði tekið utan um hjartað í mér. Það var langt síðan ég hafði sagt skilið við svona lagað og hafði vonast til þess að halda því þannig.

Andaglas, rétt eins og flestir vissu, var leikur sem gekk út á það að kalla á ‚anda‘ eða ‚draug‘ og spyrja þá að hinum ýmsu spurningum. Í flestum tilvikum var þetta bara vitleysisgangur og glasið hreyfðist vegna þess að það voru svo margir sem voru að snerta það og svo framvegis. En öðru hverju, öðru hverju komst fólk í samband við eitthvað raunverulegt.

-Ég held að ég sitji hjá, sagði ég bara til að vera viss.

-Æ, láttu ekki svona, sagði Anna. –Við erum líka sex, það er fullkomin tala.

Eftir væl og vol í stúlkunum í nokkrar mínútur andvarpaði ég og gafst upp. Hverjar voru líkurnar á því að við myndum rekast á raunverulegan anda hvort eð var?

Við fimm settumst í hring í kringum pappaspjald sem Anna hafði fundið einhverstaðar og var búin að skrifa á alla stafina í stafrófinu ásamt ‚já‘ og ‚nei‘. Stelpan sem hafði stundið upp á þessu hafði laumast inn í eldhús og kom til baka með glas og settist með okkur fimm og gerði það okkur því sex. Hún lét alla blása í glasið og svo var það sett á hvolf á pappaspjaldið, eftir það lögðu allir einn fingur á glasið.

-Er andi í glasinu? spurði Anna og svo tóku hinar undir. –Er andi í glasinu? Er andi í glasinu?

Í þrjósku minni um að taka sem minnst þátt sagði ég ekki orð. Svo loksins fór glasið að hreyfast hægt og gætilega yfir spjaldið og stoppaði fyrir ofan ‚já‘. En hey þetta sannaði ekki neitt, það voru bara sex stelpur með fingurinn á glasinu, það var ekki við öðru að búast en að það myndi hreyfast.

Stelpurnar æptu í æsingi.

-Hvað heitirðu? spurði Anna.

Glasið fór að hreyfast aftur sem fékk alla til að standa á öndinni þar sem það færðist fyrir stafina: A-L-I-C-E.

-Hvað ertu gömul, Alice? spurði Emelía.

Glasið færðist á ný: 1-5–Á-R-A.

-Þetta er ótrúlegt, sagði ein af stelpunum. Ég var ekki enn farin að trúa á þetta.

–Hvar ertu? spurði loks Anna aftur.

Glasið fór að hreyfast hraðar í þetta skiptið, eins og andinn væri að verða betri í þessu. Ef það væri andi í glasinu, sem var auðvitað ekki. T-Ý-N-D–Þ-A-ЖE-R—
D-I-M-M-T–H-J-Á-L-P-I-ЖM-É-R!

Ég var farin að fá hroll núna og gæsahúð, þetta var ekki svar sem maður fékk vanalega í andaglasi. Venjulegu svörin við þessari spurningu var eitthvað heimskulegt eins og himnaríki eða helvíti. Þetta var eitthvað öðruvísi, eitthvað ekki alveg rétt.

Skyndilega fór glasið að hreyfast svo hratt að það var erfitt að halda fingrunum á glasinu sem fékk stelpurnar til að æpa töluvert.

M-A-Ð-U-R-I-N-N–M-E-ЖH-A-T-T-I-N-N–E-R–A-ЖK-O-M-A!
Um leið og glasið var búið að færast yfir þennan texta hentist það á hliðina og allt varð hljótt. Óhugnanlega hljótt. Hurðin opnaðist skyndilega sem fékk alla til að öskra, meira að segja mig, en það var bara einn af kennurunum að segja okkur að hætta þessari vitleysu og fara að sofa.

Við hlýddum og ég klifraði klaufalega upp í kojuna mína og fór beint ofan í poka. Ég skalf. Ekki útaf andaglasinu sem slíku heldur því sem hafði komið fram þar. Við höfðum náð sambandi við anda og seinasta setningin hafði verið skilaboð til mín. Ég vissi fullvel hver ‚maðurinn með hattinn‘ var. Hann var illur og brjálaður og hann var ástæðan fyrir að ég lét loka á mig.

Rétt áður en ég sofnaði lék ég höndum um hálsmenið mitt og fann fyrir nýrri og djúpri sprungu. Ég var hrædd.

Ég var berfætt. Þetta var sami litli slóðinn og áður. Í fyrstu gekk ég bara í gegnum þrúgandi skóginn, en svo heyrði ég eitthvað fyrir aftan mig. Ég byrjaði að hlaupa, það var eitthvað rétt á eftir mér, að elta mig. Það hræddi mig. Svo skyndilega var ekkert fyrir neðan mig, ekkert nema myrkur, eins og djúpt svarthol. Ég var alein. Hjálp.


Klapp fyrir þá sem nenntu að lesa, og ef þið höfðuð fyrir því endilega skiljið eftir athugasemdnir :)
kveðja Ameza