Það glampar á fagurrauðan bílinn þegar hann keyrir seinustu vegalengdina að hvítmáluðu geðveikrahælinu. Það brakar notalega í blautu malbikinu þegar hann rennir mjúklega í mjótt stæðið nálægt innganginum, drepur svo á sér.
Erlín er treg til að fara út úr bílnum. Hún samt ákveður að vera ekki leiðinleg við mömmu sína og opnar hurðina áður en foreldrar hennar sjá hikið, það þýddi samt ekki að hún væri sátt með að fá geðsjúkling á heimilið. Ættingi eða ekki.
Þau ganga inn um hvíta stálhurð með litlum kringlóttum glugga á. Marglituð rúðan í glugganum á dyrunum varpar undarlegum regnboga á vegginn á móti þegar hurðin skellur aftur fyrir aftan fjölskylduna. Mamma þeirra gengur að afgreiðsluborðinu.
,,Ég kem til að sækja Hildi, mömmu mína‘‘ segir hún varfærnislega og afgreiðslukonan lítur á hana, svo á hávaxinn manninn við hlið hennar.
,,Hún er í fjölskylduherberginu, það er hér til hægri‘‘ segir hún skjálfrödduð og kroppar með vel nöguðum nöglunum í kaffislettu á borðinu.
,,Takk‘‘ segir Erlín yfir öxlina á sér til að fjölskyldan komi ekki illa fyrir. Foreldrar hennar höfðu aldrei kunnað að þakka fyrir sig. Svo tekur hún stór skref til að ná hinum sem standa í dyragættinni og horfa inn í lítinn, kósý sal með stórum borðum á víð og dreif. Við flest þeirra situr fólk af hælinu að tala við eitthverja ættingja sína – stundum sjálft sig.
Mamma hennar kemur strax auga á mömmu sína, þar sem hún situr í eina sófanum í salnum og starir á dóttur sína. Þær horfast í augu í smástund en svo ýtir pabbi þeirra henni í áttina að konunni í sófanum.
,,Valbrá‘‘ brakar í rödd ömmu tvíburanna. Hún virðist bara vera rétt yfir fertugu. Hvernig gat hún verið amma þeirra?
,,Langt síðan síðast‘‘ segir Valbrá bitur.
,,Já‘‘
Þögn.
,,Fyrirgefðu. Ef ég gæti bara spólað til baka og byrjað allt upp á nýtt…‘‘
,,Ekkert drama, komum okkur bara‘‘ grípur Valbrá fram í, örlítið léttari.

Óskar leggur töskuna frá sér við dyrnar á hótelherberginu, það er byrjað að kvölda og svalt loftið sem kemur inn um gluggann lætur herbergið virðast rakt.
,,Hvers vegna keyrðum við ekki bara beint heim?‘‘ muldrar hann að pabba sínum.
,,Mamma þín vill aðeins spjalla við mömmu sína áður en við förum með hana heim. Erlíni langaði líka svo að kíkja í búðir og jafnvel skreppa á tónleika með uppáhalds söngvaranum sína…þarna hvað sem hann heitir, herbergið hennar er allt út í plakötum af þessum gaur‘‘
Mamma þeirra gargar á pabba þeirra úr dyragættinni þar sem amma tvíburanna hefur einfaldlega sest á gólfið og neitar að standa upp.
,,Krummi!‘‘ gargar hún aftur á hann og tekur undir axlirnar á mömmu sinni ,,stattu upp kona!‘‘
,,Ég er komin með hundleið á litlum og þröngum herbergjum, getum við ekki bara sofið úti?‘‘ spyr amma þeirra hvasst.
Erlín birtist í dyragættinni og hjálpar til við að koma grannri konunni inn í hótelherbergið. Hún tekur herbergið í sátt þegar hún er komin inn og sofnar brosandi í mjúkum svefnsófa.
,,Mamma?‘‘ Erlín tekur glas úr skáp og fær sér vatn.
,,Já‘‘
,,Fyrst við erum í bænum, getum við farið á tónleikana sem er búið að vera auglýstir svo mikið? Þeir eru á morgun, ég get hlaupið núna og keypt miða! Gerðu það, mig hefur langað allt of lengi á tónleika með honum!‘‘ biður hún og reynir að fá biðjandi hvolpasvip úr pírðum augunum.
,,Hvað á ég að gera við mömmu á meðan?‘‘ spyr Valbrá og hlammar sér niður í sófa við hlið Krumma sem tekur utan um hana eins og þau séu grunnskólapar.
,,Ég get alveg passað hana með Óskari, fínt að kynnast ömmu gömlu aðeins áður en maður fær hana alveg á heimilið, hvað verðið þið lengi?‘‘ Krummi glottir framan í Óskar sem mótmælir lágt.
,,Tvo tíma sennilega‘‘ svarar Erlín.
,,Þetta verður allt í lagi, við hringjum bara á lögguna ef hún gerir eitthvað af sér, krúttið‘‘ hann lítur á ömmuna sem sefur með galopinn munninn og lokar honum af og til eins og hún sé að borða eitthvað.
,,Má ég fá pening til að kaupa miða?‘‘ spyr Erlín æst.
Mamma hennar dæsir brosandi og réttir henni veskið sitt.

Hún stingur stolt miðunum í vasann og spenningurinn hríslast upp bakið. Hana hlakkar ótrúlega mikið til morgundagsins. Hún vefur úlpunni þéttar að sér og byrjar að ganga eins rösklega og þröngar gallabuxurnar leyfa, getur varla beðið eftir að komast inn í hlýjuna.
,,Hey þú!‘‘ bíll flautar á hana og hún stansar og lítur við.
,,Hvað?‘‘ hún gengur að tveggja sæta sportbílnum þar sem tveir strákar sitja með tónlistina í botni.
,,Vantar þig far?‘‘ spyr annar strákanna. Hún brosir, ánægð.
,,Já takk!‘‘
Og sest hjá undrandi strákunum. Hún segir þeim heimilisfang hótelsins og þeir hlæja eins og vitleysingar um leið og bíllinn skransar af stað.
,,Hvað ertu að gera ein svona seint um kvöld?‘‘ spyr strákurinn sem situr í sama sæti og hún.
,,Næla mér í miða á tónleika‘‘ segir hún og greiðir hárið á bak við eyrað.
Aftur hlæja þeir og hún lítur hneyksluð á þá.
,,Þið eruð hláturmildir gaurar‘‘ segir hún.
,,Hm, takk?‘‘ strákurinn sem situr með hana í fanginu tekur utan um öxlina á henni og þrýstir henni að sér og hún lætur sem ekkert sé þar til þeir keyra fram hjá hótelinu hennar.
,,Hey, þið keyrðuð framhjá‘‘ segir hún og lítur aftur fyrir sig og horfir á hótelið hverfa í beygju.
Hún ranghvolfir augunum þegar önnur hláturromsan brýst út.
,,Þið eruð svo sorglegir‘‘ segir hún þegar strákurinn kyssir hana á eyrað ,,það er engin stelpa með ykkur nema þið rænið henni‘‘
,,Þetta var ansi langt frá sannleikanum‘‘ segir bílstjórinn.
,,Já, við eigum alveg nokkrar kærustur. Hvað heitir þú annars, ljúfan?‘‘
,,Þið þurfið ekki að vita það, stoppið bílinn!‘‘ urrar hún og stendur upp sem er mjög auðvelt þar sem ekkert þak er á bílnum, það reynist samt erfiðara að vera standandi því vindurinn reynir að neyða hana niður í sætið sitt aftur. Hendur stráksins um mittið á henni eru samt fyrri til að toga hana niður í mjúkt leðursætið.
,,Viltu ekki leika við okkur aðeins?‘‘ spyr hann með uppgerðar barnarödd og hlær.
,,Ég held að ég sé aðeins yngri en þið haldið‘‘ hún lítur aftur fyrir sig, horfir örvæntingarfull á turn hótelsins hverfa.
,,Ég giska að þú sért fjórtán‘‘ hikstar bílstjórinn og kastar tyggjói út á götuna.
,,Nei, ég er greinilega eldri en þið haldið‘‘ hún sígur niður í sætið og er úrræðalaus.
,,Fimmtán?‘‘ skýtur strákurinn sem heldur utan um hana eins og hann haldi að hún stökkvi burt.
,,Nei‘‘ hún snýr andlitinu viljandi hratt til hægri þannig að ennið á henni skellur á höku hans svo brakar í. Hann losar takið örlítið og nuddar auma hökuna en segir ekkert.
,,Þá ertu sextán‘‘ segir bílstjórinn undrandi og flissar yfir félaga sínum sem skoðar vandlega marblettinn á hökunni í afturspeglinum.
,,Já, og stansið bílinn! Ég segi þetta í síðasta sinn‘‘ urrar hún.
,,Fínt, þá þurfum við ekki að hlusta á vælið í þér þegar við komum á staðinn‘‘
,,Ég meina að ef þið stansið ekki bílinn fer ég að gera eitthvað annað en væla bara‘‘
,,Vond stelpa‘‘ hlær bílstjórinn. Hún þarf virkilega að taka á til að brjóta ekki hálsinn á honum.
Hún rífur sig úr fangi stráksins og stendur upp og stígur varlega upp á sætisbakið.
,,Bless!‘‘ gargar hún í gegnum vindinn um leið og hún stekkur af bílnum.
Bílstjórar í kringum hana stíga fast á bremsuna og það ískrar í dekkjum allt í kring þegar þau nuddast harkalega við blautt malbikið.
Fljótlega stendur hún fyrir framan hóp af bílum, allir höfðu stansað bílinn og sumir hrópa á hana út um opinn glugga, ýmist spurningar um hvort hún hefði meitt sig eða skammir.
,,Það er allt í lagi með mig!‘‘ kallar hún þegar eitthver dregur upp síma.
Hana langaði hvorki í lögregluna né sjúkrabíl hingað með pirrandi, óþarfa spurningar. Svo hún tók bara á sprett og reyndi að renna upp úlpunni á leiðinni. Hún vonaði að lappirnar færu með hana í áttina að hótelinu en pældi ekki mikið í því hvert hún hljóp, umhverfið þaut of hratt hjá til að hún gæti tekið eftir hvar hún væri.
Loks ákveður hún að stoppa. Hárið er að losna úr háu taglinu og rauður hliðartoppurinn er úfinn og allur í rugli. Hún sér turn hótelsins frekar stutt frá sér og gengur rólega þangað. Eins og venjulega eftir svona spretti er þægileg tilfinning í fótunum svo hún finnur varla fyrir jörðinni undir fótum sér.
Mamma hennar er ekki ánægð og skammirnar taka á móti henni þegar hún opnaði hurðina.
,,Fyrirgefðu mamma, mér var bara rænt og það tók smá tíma að redda sér og telja í sig kjark til að hoppa úr bílnum, svo urðu bílarnir alveg klikk og skrönsuðu eins og brjálæðingar og ætluðu að hringja í lögguna og rosa vesen en ég hljóp bara af stað og vona að enginn hafi náð mynd eða eitthvað svoleiðis rugl. Hérna er veskið þitt, þeir höfðu ekki mikinn áhuga á því‘‘ segir hún og reynir að hljóma eins og unglingur, réttir mömmu sinni veskið sem tekur við því án þess að segja nokkuð.
,,Þú og vandræði eru sálufélagar‘‘ segir bróðir hennar sem situr við eldhúsborðið og horfir á ömmu sína spila við sjálfa sig.
,,Bestu vinir að eilífu‘‘ segir hún kaldhæðnislega.
,,Meiddu þeir þig?‘‘ spyr pabbi þeirra.
,,Hvað heldurðu? Ég er bara búin að ráða auðveldlega við tuttugu eða fleiri gaura sem eru sterkari en þeir. Þetta voru bara einmanna unglingar sem eru of ljótir til að stelpa líti við þeim‘‘ hún hlær prakkaralega og yppir öxlum.
,,Æfirðu karate?‘‘ spyr amma þeirra upp úr þurru. Hún er í óða önn við að byggja hús úr spilunum.
,,Hver hleypti henni í límband?‘‘ Valbrá gengur að mömmu sinni og tekur af henni límbandið.
,,Ég er ekki alveg eins og fimm ára barn þó að ég hafi verið á eitthverju leiðinda hæli fullu af kolklikkuðu fólki‘‘ amma þeirra brosir, brosið stingur í stúf við það sem hún hafði fullyrt fyrir örfáum sekúndum.
,,Fékkstu miða á tónleikana?‘‘ spyr mamma Erlínar eftir stutta þögn.
Umræðuefnin voru fljót að breytast.
,,Já, dálítið krumpaðir en þó eru þeir á staðnum‘‘ hún tekur miðana úr vasanum um leið og hún klæðir sig úr jakkanum og hendir honum út í horn. Þögnin tekur aftur völdin í herberginu.
Erlín gengur að spegli sem er við dyr lítils hótelherbergisins. Hún sér ekki spegilmynd sína, eins og venjulega og dæsir. Stundum vildi hún bara óska að hún væri venjuleg manneskja.