Ég sendi þetta víst óvart inn þegar ég var að athuga hvað þetta væri orðið langt fyrir nokkrum dögum, en þá var ég ekki búin með söguna þannig að þið verðið eiginlega að lesa aftur til þess að sjá hvernig hún endar. :) Fenguð þarna aðeins að sjá inn í ókláraða sögu frá Sirju, en spennandi, ha?
Ég ætla að segja ykkur sögu. Hún er kannski ekki neitt rosalega spennadi eða fyndin, og ég er kannski ekki nein Jane Austen, en þetta er sönn saga og þetta kom fyrir mig og nú ætla ég að segja ykkur hana. Það er kominn tími til að horfast í augu við raunveruleikann.
Ég vil ekki að sagan verði of löng eða leiðinleg, en ég má heldur ekki sleppa einhverju úr sem gæti skipt máli seinna svo ég held að það sé því best að byrja á því þegar ég kynntist honum Kjartani. Það eru ekki nema tæpt ár síðan, en samt finnst mér eins og það hafi gerst fyrir óralöngu. Við kynntumst semsagt í skólanum, erum búin að vera í sama bekknum síðan í 8. bekk, en einhvern veginn höfðum við aldrei talað almennilega saman því við vinkonurnar höldum okkur yfirleitt frá hinum krökkunum í bekknum. Við þekktumst því lítið þegar ég lenti við hliðina á honum í stærðfræði eftir jólin í 10. bekk.
Kjartan er einn af vinsælu strákunum. Hann er hávaxinn eftir aldri, ljóshærður og bláeygður og alltaf með nýjustu tískuna úr Sautján á hreinu. Andlitsdættirnir eru fínir og tennurnar beinar, en nefið er eitthvað skrýtið. Það er svona beyglað, eins og það hafi kannski brotnað einhverntímann. Allaveganna, þá er hann svona gaur sem ég myndi aldrei eiga séns í. Það eru óskrifaðar reglur í mínum gagnfræðiskóla að vinsælt fólk talar ekki við bókaorma, og bókaormar ekki við vinsælt fólk. Þannig er það bara, og hefur alltaf verið, býst ég við.
Fyrstu dagana lét hann eins og ég væri ekki þarna. Hann einbeitti sér bara að stærðfræðibókinni sinni og þóttist reikna á meðan ég las Ísfólkið í laumi á bakvið mína. Síðan einn daginn virtist hann vera orðinn þreyttur á þögninni milli okkar og spurði mig hvað ég væri alltaf að lesa af svona miklum ákafa. Ég roðnaði auðvitað þegar ég sagði honum að það væri Ísfólkið, því það er almenn vitneskja að bækurnar eru 20% innsláttarvillur, 5% söguþráður og 75% lýsingar á því hvernig næsta kynslóð Ísfólksins er getin. Hann hló og sagði mér að allt safnið væri til heima hjá honum og hann hefði nú gluggað í eitthvað af þessu. Síðan leit hann beint á mig eins og hann væri að rannsaka mig frá toppi til táar. Mér fannst eins og hann horfði á mig heila eilífð, en svo leit hann loks undann. Hann teygði sig í penna með annarri og mína hönd með hinni og skrifaði eitthvað í lófann minn.
- Bættu mér á msn þegar þú kemur heim.
Ég kom ekki upp orði. Ennþá stjörf yfir snertingunni, meðtók varla hvað hafði gerst. Hafði ég virkilega fengið msn hjá ótrúlega sætum og vinsælum gaur? Ég var í hálfgerðri leiðslu það sem eftir var skólans þennan dag. Af hverju vildi hann tala við mig? Var hann hrifinn af mér? Ég hugsaði ekki um annað en að komast heim og kveikja á tölvunni.
Ég hljóp heim um leið og skólinn kláraðist þennan dag og fór beint inn í herbergi til þess að kveikja á tölvunni. Ég gat varla setið kyrr á meðan ég beið eftir því að MSN næði sambandi til þess að skrá mig inn. En hann var ekki inni. Reyndar kom hann ekkert inn næstu daga á eftir. Ég var farin að halda að hann hefði gefið mér rangt netfang eða að hann hefði bara verið að stríða mér. Hann minntist allaveganna ekkert á þetta í skólanum, og ekki þorði ég að gera það.
Síðan kom helgi. Við vinkonurnar höfðum hist fyrr um kvöldið og horft á aðra Lord of the Rings myndina sem var nýkomin á DVD, nú voru þær hinsvegar farnar heim og ég sat ein eftir inni í herberginu mínu við tölvuna. Ég var orðin frekar þreytt, enda klukkan næstum orðin 1, en langaði samt ekki að fara að sofa. Það er svo einmannalegt að fara að sofa á kvöldin.
Þá allt í einu gerðist það sem ég hafði verið að bíða eftir alla vikuna. Kjartan skráði sig inn á msn. Ég sat stjörf í smá stund og starði á litla græna kallinn hans. Svo lét ég vaða.
Birta (F): Hæ.
Það leið smá stund. Kannski var hann eitthvað upptekinn. Oh, ég hefði ekki átt að byrja að tala við hann. Hefði átt að bíða eftir að hann byrjaði samtalið. Ekkert við því að gera núna samt. Síðan:
- Kjarri - : Gott kvöld. :) Hvað segir þú?
Nú var mér allri lokið. Hann var að tala við mig. Hann var að tala við mig! Og hann gerði broskall. Ég mátti ekki klúðra þessu. Mikil pressa. Loks herti ég upp hugann.
Birta (F): Bara fínt. Nenni ekki að fara að sofa. En þú?
- Kjarri - : Svona allt í lagi. Vil heldur ekki fara að sofa alveg strax.
Við spjölluðum saman í smá stund. Um skólann, kennarana og krakkana í bekknum. Hann var mjög viðkunnanlegur og skemmtilegur. Hann sagði mér að hann fílaði krakkana ekkert svo mikið heldur, en hann héngi samt með þeim til þess að falla inn í hópinn. Hann sagðist dást að okkur vinkonunum í laumi fyrir að þora að vera öðruvísi. Þetta hafði mér ekki dottið í hug, og það kom mér á óvart að hann var í raun allt öðruvísi heldur en ég hafði hugsað mér að hann væri. Miklu viðkunnanlegri. Ég var reyndar farin að hugsa mjög hlýtt til hans. Hann virtist vera einmitt svona náungi sem ég væri til í að vera með. Reyndar var ég bara eiginlega orðin frekar hrifin af honum. Hann var sætur og skemmtilegur, þarf eitthvað meira til? Svo hægði á samtalinu í smá stund. Klukkan var að verða hálf 3 og ég var orðin mjög þreytt, þurfti líka að læra daginn eftir.
Birta (F): Ég ætla að fara að sofa, klukkan er orðin svo margt.
- Kjarri - : Nei, ekki fara. Bíddu.
Smá þögn.
- Kjarri - : Mér finnst þú vera ótrúlega sæt.
Hjartað tók á rás innra með mér. Svitinn spratt fram í lófunum og gerði puttana sleipa á lyklaborðinu. Það var eins og maginn minn héldi að ég stæði á klettabrún með mörg hundruð metra fall fyrir framan mig. Honum fannst ég vera sæt. Hann hafði áhuga. Hann langaði að kynnast mér betur. Ég varð að segja eitthvað. Loks:
Birta (F): Takk sömuleiðis bara. :)
- Kjarri - : Hittu mig.
Birta (F): Ég væri alveg til í að gera það einhverntímann.
- Kjarri - : Hittu mig núna.
Núna? Ef líkaminn minn gat spennt sig eitthvað meira upp heldur en hann var nú þegar, þá gerði hann það. Ég hafði aldrei stolist til þess að fara út svona seint. Ég reyndi að segja honum að ég gæti það ekki, að mamma og pabbi væru sofandi, en hann neitaði að samþykkja að ég gæti ekki stolist út. Loks sagði ég honum að ég þyrði bara ekki.
- Kjarri - : En ef ég kem og sæki þig? Þorirðu þá?
Nú gat ég ekki neitað honum. Hvernig væri hægt að segja nei við hann? Ég var líka orðin svo spennt, mig langaði reyndar mjög mikið til þess að fara. Svo ég sagði honum að hann mætti koma, og lét hann hafa númerið mitt til þess að senda SMS þegar hann væri kominn. Ég fór inn á bað og hafði mig aðeins til, greiddi á mér hárið og burstaði tennurnar. Svo fór ég inn í herbergi og beið.
Mér fannst eins og ég sæti þarna í heila eilífð. En loks titraði síminn. Kominn. var allt og sumt. Ég fór í jakkann minn og læddist niður og lokaði hurðinni varlega á eftir mér. Og þarna var hann. Stóð í skymunni af ljósastaurnum með heyrnatól í eyrunum. Hann tók þau úr þegar hann sá mig.
- Hæ. Hann brosti. Þessu fallega brosi sem gæti brætt jökla. Ég reyndi að heilsa en röddin brást mér svo ég brosti bara óstyrk á móti. Síðan röltum við rólega af stað í áttina heim til hans án þess að tala meira. Ég hafði sjaldan séð göturnar svona auðar, nóttin var stillt og hljóðlát, og það var eins og við værum ein í heiminum. Ég velti fyrir mér af hverju hann segði ekki neitt, en þorði sjálf ekki að tala. Mér fannst eins og ég myndi eiga á hættu að vakna af drauminum ef ég gæfi frá mér eitthvað hljóð.
Þegar við komum að húsinu hans gekk hann að einum glugganum og ýtti varlega á hann þannig að hann opnaðist upp á gátt.
- Komdu, sagði hann brosandi og gaf mér fótstíg upp. Ég klifraði inn um gluggann og lenti á rúmi. Rúminu hans, gerði ég ráð fyrir. Hljómsveitaplaggöt þöktu græna veggina og föt lágu á víð og dreif um herbergið. Hann kom inn á eftir mér og settist hjá mér á rúmið. Hjartað hamaðist innra með mér.
- Svo hvað segirðu? spurði hann. Hann var smá vandræðalegur eins og hann vissi ekki alveg hvað hann ætti að segja. Það veitti mér kjark til þess að tala við hann á móti og við spjölluðum saman í smá stund. Ég man reyndar ekki nákvæmlega um hvað við töluðum en hann var hlýlegur í viðmóti og ég reyndi að vera hress þótt ég væri að deyja úr stressi.
Svo kom þögn. Hann leit á mig og ég horfði á móti og í smá stund sátum við bara þarna í okkar eigin heimi og horfðum djúpt í augun á hvort öðru og ég fann að ég var ekkert hrædd lengur, bara rosalega spennt. Loks hallaði hann sér fram og kyssti mig beint á munninn. Bara si svona. Svo bakkaði hann aðeins og horfði á mig brosandi í smá stund. Ég skælbrosti á móti. Ég var himinlifandi. Vá. Svo hallaði hann sér aftur að mér, nema í þetta skipti tók hann utan um mig og laggði mig niður á rúmið og kyssti mig djúpt og innilega.
Við lágum þarna í smá stund í faðmi hvors annars, tungur okkar dönsuðu tangó og lífið var eins og lyktin af bláberjalingi á sólríkum sumardegi. Hendur fóru á flakk og struku hér, gripu þar, læddust hægt neðar og neðar. Buxur losnuðu og bolir hurfu og ég fann spennu innra með mér sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður. Svo fattaði ég hvað var að gerast.
- Bíddu, sagði ég móð. Hann stoppaði.
- Við þurfum ekki að gera þetta, sagði hann og leit varfærnislega á mig. Ég leit undan. Ég gat alveg hætt núna. En hvað myndi hann þá halda? Hann myndi örugglega missa allan áhuga. Og svo var þessi skrýtna tilfinning sem ég var að upplifa innra með mér. Svona óþreyjufullur þorsti í eitthvað sem ég vissi ekki hvað var.
- Ættum við ekki að nota smokk? spurði ég, eins og til þess að afsaka að ég hafi stoppað hann.
- Ég á ekki svoleiðis. Hann andvarpaði og bakkaði aðeins frá mér. Við skulum bara sleppa þessu.
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Framundan skiptist vegurinn í tvennt, við annan endann stóð Kjartan með brosið sitt og veifaði velkomandi til mín, og við hinn var gamla lífið mitt, einmannalegt og kalt.
- Nei, ég vil gera þetta, sagði ég ákveðin. Hann lifnaði allur við og stökk á mig brosandi og kyssti mig af öllum ákafa. Og þið megið geta ykkur til um hvað gerðist næst, en ég segi ykkur ekki nánar frá því.
Daginn eftir trúði ég varla hvað hafði gerst. Ég var ótrúlega spennt. Gat virkilega verið að nú ætti ég kærasta? Ég reyndi að stilla mig en loks lét ég vaða, tók upp símann og hringdi í númerið sem ég hafði fengið SMS úr kvöldið áður. Kjartan svaraði:
- Hæ.
- Hæ, sagði ég, óstyrk.
- Hvað viltu?
Hvað viltu? Hvað átti hann við með því? Af hverju sagði hann þetta svona, eins og honum væri alveg sama?
- Uhh, ég ætlaði bara að heyra í þér.
- Birta, þú heldur þó ekki…
- Held ég ekki hvað?
- Að við séum saman, eða eitthvað þannig?
Það var eins og ég fengi gott högg í magann og ég hrökk í kút. Hvað átti hann við? Höfðum við ekki… Ég píndi mig til að svara:
- Uhh, neinei, auðvitað ekki.
- Ok, gott. Það væri bara… of skrýtið, finnst þér ekki? Og hey, ekki segja neinum frá þessu. Það er betra ef enginn veit. Hann hljómaði stressaður.
- Já, ég skil, svaraði ég. Allt í lagi. Við sjáumst þá bara.
- Já, í skólanum. En mundu að láta eins og ekkert hafi gerst.
- Já, ekkert mál.
- Bæjó.
- Bless.
Nú er ég loksins búin að segja ykkur alla söguna, og ég vona að ykkur hafi ekki þótt hún mjög leiðinleg. Einn af hjúkrunarfræðingunum hérna á spítalanum sagði að mér myndi líða betur ef ég myndi tala um það sem hafði gerst, og það er rétt hjá henni. Mér hefur ekki liðið svona vel síðan áður en ég tók prófið. Bráðum á mér eftir að líða betur í líkamanum líka og þá getum við báðar farið heim til mömmu og pabba.