Athugið!
Við viljum benda á að eftirfarandi saga inniheldur efni sem gæti farið illa í börn og/eða viðkvæma.




Mamma Hilmars stóð stirðlega upp og þurrkaði tárin úr augunum. “Hilmar minn,” sagði hún blíðri röddu og strauk honum um hárið. Hann opnaði augun og leit á mömmu sína með bólgnum og rauðum augunum. “Ég þarf aðeins að fara inn og gera smá. Ég verð ekki lengi, bíddu bara hér.” Hann kinkaði kolli og sat eftir.

Nokkrir lögregluþjónar voru inni í eldhúsi þegar hún kom þangað. “Út með ykkur,” hvæsti hún að þeim. “En, frú, við verðum að vinna okkar vinnu hér og rannsaka líkið,” sagði einn mannanna við hana. Hann var lítill og bar alltof stór gleraugu á nefinu. Svitinn perlaðist á enninu hans og hann saug upp í nefið – líklega af ávana þar sem ekkert var horið. “Er það ekki nokkuð augljóst hvað gerðist hér?” hreytti hún út úr sér. Litli maðurinn gekk að öðrum stærri og sagði eitthvað við hann sem hún heyrði ekki. Sá stóri leit upp úr einhverjum skjölum sem hann hélt á og sneri sér að mömmu Hilmars. “Frú…”
“Erna,” var hún ekki lengi að svara og krosslagði hendurnar. “Já, Erna. Við þurfum virkilega að rannsaka þetta mál. Vildirðu vera svo væn og stíga út fyrir?” spurði hann, enn rólegur. “Ég fer ekkert andskotans út fyrir. Þetta er mitt hús, fjandinn hafi það,” öskraði hún. “Út með ykkur. Núna!” Munnvatn frussaðist út úr henni og litli lögregluþjónninn þurfti að hafa sig allan við að víkja frá kaffibolla sem Erna kastaði. “Út með ykkur öll. Núna!”
“Frú…” Erna reif í öxl lögregluþjónsins sem átti ekkert í reiða konu og hún gat auðveldlega ýtt honum út. Hann var vonsvikinn og skammaðist sín fyrir að hafa látið konu ráða svo auðveldlega við sig. Hann strauk hendinni í gegnum fitugt hárið, fór út í blíðuna og settist inn í lögreglubílinn.

Stóllinn lá á bakinu fyrir neðan hann og fæturnir héngu kyrrir í lausu loftinu. Blóðdropar féllu enn úr auganu þar sem skrúfjárnið stóð langt inn í höfuðið og úr hálsinum þar sem gítarstrengurinn var við það að kljúfa höfuðið af honum. “Geir…” Erla strauk honum um fæturna. “Af hverju…?” Hún faðmaði á honum fæturna. Hún lagði smá þyngd á þá og hékk örlítið í þeim sem olli því að gítarstrengurinn skarst enn lengra inn í hálsinn. Blóðið frussaðist yfir hana og ljósa hárið varð fljótt alrautt sem og skyrtan. Tárin byrjuðu að streyma og hún lét sig detta – enn haldandi í fæturna. Gítarstrengurinn fór alveg í gegn. Höfuðið datt af og hún lá á gólfinu, alblóðug og hélt um líkama látins eiginmanns síns. Hún settist upp og reisti Geir við – höfuðlausan. Hún sat með hann í fanginu og grét söltum tárum þar sem höfuð Geirs hafði verið fyrir nokkrum mínútum.

“Mamma.” Rödd Hilmars var svo ljúf og góð - gersneydd allri illsku. Hann var kominn inn. Mamma hans reis upp. “Ekki koma…” Það var of seint, skaðinn var skeður. Háu öskri Hilmars fylgdu margir lögregluþjónar. Rétt áður en lögregluþjónarnir komu inn sá Hilmar höfuð pabba síns. Hann gekk varfærnislega nær því. Hann var ekki langt frá höfðinu þegar ælan gaus upp og lenti öll á höfði pabba hans. Hilmar hljóp nær til þess að þrífa æluna úr andliti pabba síns en lögregluþjónninn var fyrri til og greip í hann. “Svona, svona, kall. Komum okkur bara út,” sagði hann rólega. Hilmar barðist um. “Ég verð að þrífa hann,” orgaði hann. Lögregluþjónninn var mun sterkari og hélt á honum út. Það byrjaði að fossa úr augum Hilmars og svo varð allt að móðu.