Það var ljúfur fimmtudagur í miðjum ágúst. Móðir Hilmars kom rjúkandi inn í herbergið hans með þeim afleiðingum að Hilmari krossbrá og krotaði út fyrir blaðið á viðarborðið með tússlitnum. Hann andvarpaði og leit upp á móður sína. “Hvað,” sagði hann pirraður. Hún átti erfitt með að koma sér að orðinu. “Jaa…heyrðu, Hilmar minn…þú verður…þú verður að koma út með mér – núna,” kom hún svo loks út úr sér. “Ha, hvað er að?” spurði Hilmar og stóð rólega upp úr stólnum. Enn átti móðir hans erfitt með að tala. “Eeekk…ne…sko…komdu bara út. Það verður tekið á móti okkur þar.” Hilmar rak augun í stóran blóðblett á öxl móður sinnar. Blóðbletturinn var í laginu eins og munnur sem brosti breitt. Honum leið illa, fannst eins og bletturinn væri að hæðast að sér. “Hvað er þetta?” spurði hann ásakandi og benti á blettinn. Móðir hans leit á blettinn eins og hún vissi ekki af honum. “Þetta…æjhh…förum út núna. Þetta skiptir ekki máli.”
“En, mamma…” hann náði ekki að klára það sem hann ætlaði að segja því móðir hans greip um axlirnar hans og stýrði honum ákveðið út úr herberginu. Hún greip fyrir augun á honum svo hann sá ekkert og byrjaði að stýra honum út úr húsinu. Þau staðnæmdust þegar Hilmar steig ofan í eitthvað blautt og volgt. “Hvað er þetta, mamma?” spurði hann með titrandi röddu. “Hal…haltu bara áfram, Hilmar minn.” Hilmar heyrði mömmu sína sjúga upp í nefið og því fylgdi smávægilegt snökt. “Mamma, hvað er að gerast?” spurði hann móður sína sem enn hélt um augun hans. Hilmar var að verða hræddur og nokkur tár mynduðust í augum Hilmars og runnu lipurlega niður eftir sléttri húðinni. Móðir hans heyrði ekkasog frá honum og reyndi að róa hann með mjúkum strokum eftir andlitinu.

Stór, dökkhærður lögregluþjónn stóð fyrir utan þegar mæðginin komu út. Hann tók niður stór sólgleraugu og horfði með djúpum, bláum augunum í augu Hilmars. “Sæll, meistari,” sagði hann glaðlega. “Hvernig hefurðu það?” Hilmar starði bara tómlega í augu þjónsins sem virtust geta gleypt Hilmar. “Ég…hvað er eiginlega í gangi?” spurði hann og vildi fá svar. Þjónninn leit á móður Hilmars. “Sá hann ekkert?” Hilmar og þjónninn horfðu nú báðir á hana. Hún hristi höfuðið. “Hann komst hjá því,” sagði hún svo. “Gott, gott,” sagði lögregluþjónninn og honum var létt.

“Hilmar minn. Komdu aðeins með mömmu hérna bak fyrir,” sagði hún og rétti syni sínum hendina. Hann tók við hendinni og saman gengu þau bak fyrir húsið, fjarri lögreglumönnunum og bílunum sem oftast fylgdu þeim. Hún settist á hækjur sér og hélt í hendur sonar síns. “Hilmar minn. Ég þarf að segja þér svolítið. Hann pabbi þinn…hann dó núna áðan.” Tak Hilmars á höndum móður sinnar hertist mikið um leið og seinustu orðin sluppu af tungu hennar. Tár fylgdi öðru niður eftir kinnum Hilmars og hann settist í grasið við hliðina á mömmu sinni. Allt virtist svo vonlaust. Hann hallaði sér upp að henni og hún tók hann í fangið. Þarna sátu þau og grétu saman.