“Ekki gera þetta!” Öskrin höfðu engin áhrif á andlitslausa hvítklædda mennina sem drógu mig með sér. “Ég á ekki að vera þarna, þetta er misskilningur!” Öskrin endurköstuðust af veggjum kastalans og lentu aftur á mér. Máttleysi mitt gagnvart mönnunum sem drógu mig á höndunum með sér var byrjað að segja til sín og öskrin urðu lægri. “Gerið þið það, ekki fara með mig þangað inn, þessi staður er illur.” Annar mannanna leit á mig og slakaði á gripinu um leið. Ég svaraði vinalegri augngotunni með biðjandi augum. Maðurinn leit undan og herti takið aftur. Það var eins og hann vildi segja mér: “Það er bara ekkert sem ég get gert.” Við komum að hurð, grárri og myglulegri, rétt eins og byggingin sjálf var.
“Sæll, hér munt þú deyja,” sagði hurðin við mig þegar við gengum framhjá henni. Ég leit á gólfið. Þetta mátti ekki gerast. Ég reyndi aftur að berjast um en það hafði engin áhrif, ekkert frekar en fyrri daginn. Þeir voru hávaxnir báðir tveir og upphandleggir þeirra beggja voru eins og snákar sem höfðu nýgleypt svín. Við komum inn á langan gang. Á gólfinu lá teppi, grænt og loðið. Mig kitlaði í tærnar þegar fæturnir drógust eftir því.
Ég skoðaði teppið betur…það var orðið að grasi. Ég leit á vörðin, þennan sem virtist vorkenna mér, og bað hann með augunum um að fá að snerta grasið með höndunum. Hann leyfði mér og bað hinn um að sleppa mér líka. Ég lá þarna á fjórum fótum í grasinu. Þetta var eitthvað skrítið. Veggirnir lagðir hellum en gólfið grasi. “Jæja, áfram með þig.” Þeir rifu mig á fætur og mér rétt tókst að rífa með mér nokkur grasstrá. Þau gætu orðið mikilvæg seinna meir. Þeir rifu mig upp og gengu áfram með mig.
Á veggjunum héngu myndir. Stórar myndir af frægum mönnum. Ég átti líklega að þekkja þá með nafni. “Þetta er þér að kenna, þú komst þér hingað inn,” sagði einn mannanna á myndunum og benti á mig. Hann var íturvaxinn með hvítt stutt hár. Fingur hans voru stuttir og kubbslegir. Ég leit til baka á hann en hann var kominn í sína upprunalegu stöðu á myndinni. “Hvað viltu mér?” öskraði ég á hann. Hann svaraði ekki heldur hélt áfram að horfa á rammann sem umlukti hann. Eins og hann sé eitthvað merkilegri en ég. Ég leit áfram inn ganginn, hann virtist endalaus. Allavega sá ég ekki hvar hann endaði. Þeir gengu lengra inn og drógu mig með sér.
Mennirnir tveir stoppuðu snögglega og sneru sér að stórri hurð á vinstri hönd. Hún var grænmáluð og lítið op var á henni - örugglega svo ég geti vælt út. Annar þeirra sleppti mér og teygði sig ofan í vasann sem var framan á honum. Með höndunum upp úr vasanum kom stór lykill. Hann stakk honum í skránna. Hátt klikk heyrðist – það eiginlega ærði mig. Hurðin opnaðist og ég leit inn í svartan klefann. Ég leit á aumingjagóða manninn. “Hvar er sólin,” spurði ég eins fallega og ég gat. “Sólin er dáin,” svaraði hann með kuldalegum tón. Þeir létu mig detta á gólfið – steinlagt, ekki með grasi.
Þeir mörsuðu út með miklum látum. Ég skoðaði herbergið. Einn beddi, náttborð, Biblían, sú sataníska, held ég, lítið skrifborð, blað og grænn vaxlitur. Svart. Í hvað á ég að nota þetta? Fæ ég ekkert annað að borða?
Ég gekk að hurðinni og reyndi að opna hana. Læst eins og skírlífsbelti Maríu. Ég fór að skrifborðinu og leit á blaðið. Á blaðinu stóð skrifað með grænum vaxlit í barnalegri skrift Velkominn á Klepp.