Venjulegt líf er of venjulegt fyrir mig. Ég á mjög erfitt með að skrifa sögu og halda mig við það sem gerist í raunveruleikanum.
Ég held ég hafi verið sex ára þegar á skrifaði fyrstu söguna. Hún var sex línur og tók mjög á skriftar- og leshæfileika mína. Hún var um fugl sem verpti sex eggjum en köttur kom og át tvö. Kötturinn giftist síðar fuglinum og þau eignuðust tvö ný egg í staðin fyrir brotnu eggin x)
Skáldhæfileikar mínir virtust blossa upp úr þurru þegar ég var orðin átta ára. Ég er ekki að fara að blaðra neitt um hvernig þetta þróaðist en smám saman fór ég að uppgötva að ég, og enginn annar, réði hvernig sagan mín var og hvað gerist í henni.
Ég skrifaði í laumi og henti svo sögunum í ruslið. Ég sé mikið eftir því núna og vildi að ég hefði geymt eitthvað af þessu en finn ekki eitt einasta blað.
Ellefu ára skapaði ég persónu, ég hafði verið að spila tölvuleik, Sims 2, og hannaði útlitið svolítið þar. Persónuleiki, fjölskylda, umhverfi og líf hennar var fínstillt eins vel og hægt var. Ég eyddi alveg heilum fimm mánuðum í þessa einu persónu og var komin með örugglega 3 A4 blöð, handskrifuð á báðum hliðum. En það var ekki fyr en ég var orðin tólf ára sem ég fór að skrifa söguna um hana. Allt í einu síðan lauk ég við söguna. Rosalega fannst mér það leiðinlegt. Svo ég skapaði ‘’afkvæmi’’ persónunnar og hélt áfram.

Innblástur að persónum fæ ég mest af því að horfa á fólk og tala við það. Ég er ekki nógu skrýtin samt til að sitja úti í horni og stara á fólk, bara virði það fyrir mér úr fjarska án þess að það sé áberandi.
Ég á stílabók. Hún er ofsalega ljót og snjáð eftir mörghundruð flettingar en hún er samt ein af mínum dýrmætustu eignum. Í henni er allur innblástur sem ég hef fengið. Allt frá eitthverju rosalega asnalegu upp í snilld. Í henni eru skissur að ýmsu persónum, um þær og ættartré þeirra. Þar eru orð sem gefa mér innblástur, nótur sem ég hef krotað niður handa píanóinu, bara stutt stef sem eru falleg og gefa innblástur. Ég elska þessa bók og hvet fólk til að kaupa svona ef það er með mikla sköpunargleði.
Innblástur að sögum fæ ég í öllu, bókstaflega. Mest þó af því að spila á píanóið mitt, dreyma eða spjalla við systur mína sem hjálpar mér oft. Hún hlustar oft á þegar ég segi henni frá persónum mínum og stundum leikum við þær jafnvel, prófum mismunandi leiðir að því hvernig þær bregðast við hinu og þessu.
Öfugt við það sem Ameza sagði í sinni grein þá á ég ekki auðvelt með að spinna upp nýjar sögur þegar ég er að vinna í annari. Ég beini öllum mínum kröftum að þessari einu sögu og hugsa varla um annað í frístundum mínum.

Og ég hef líka þann galla að eiga auðvelt með að skrifa of mikið. Þessvegna set ég oftast takmörk í sögurnar mínar, t.d. hver kafli má ekki vera meira en 2 blaðsíður eða eitthvað.
Hálf blaðsíða til eða frá er svosem allt í lagi en ég virði alltaf mínar eigin reglur – annað væri frekar skrýtið – og hlýði takmörkunum sem ég set sjálfri mér. Oft er það þægilegt því þá veit ég nokkurvegin hvar ég á að byrja á næsta kafla.