Jeij. Heimanám. Semja ljóð fyrir morgundaginn. Lesa það fyrir bekkinn. Nú var komið að mér, þeir sem voru á undan mér í stafrófinu voru búnir, allir voða pro núna, en ekki ég. Yrkisefnið átti að vera eitthvað sem manni þykir mjög vænt um. Allir höfðu samið um gæludýrið sitt eða uppáhaldsknattspyrnuliðið sitt en ég vissi að ég gæti það ekki. Það væri, of venjulegt. Ég verð að yrkja um eitthvað sem er þess virði að semja um. Ég vissi strax hvað það var, það kom bara eitt til greina. Hún.
Hún hafði komið í bekkinn þegar ég var tíu ára. Þá var hún sæt. Nú vorum við að klára tíunda bekkinn, fimm árum eldri, fimm árum þroskaðri. Nú var hún falleg. Ég varð strax skotinn í henni en þegar maður er tíu ára gerir maður ekki mikið í því. Ég fylgdist með henni, horfði á hana í tímum þegar lítið var að gera, sá hana breytast úr stelpu í konu. Stækka, byrja að mála sig, þar sem áður var flatt voru tvær hæðir en hún leit ekki við mér, horfði ekki á mig eins og ég horfði á hana. Við vorum reyndar vinir, góðir vinir, en því miður, ekkert meira en það.
Hvernig ætti ég að byrja? Vil ekki hafa það í neinu ákveðnu formi, rím, hákveða og lágkveða máttu fara í rass og rófu. Ætla að reyna að koma stuðlum fyrir, veit ekki með höfuðstafina. En hvar á að byrja? Andlit? Líkami? Persónuleiki? Nei, ekki persónuleiki. Ætla ekki að gera tilraun til að lýsa honum. Prófum líkama.
mótaður af guðunum
til þess…
Fokk nei, þetta gengur ekki. Verð að hafa þetta betra. Reyna að koma tilfinningunum inn í orðin. Skítt með stuðlana.
líkt og mynd máluð af fullkomnunarsinna
sem hefur málað hvern blett
upp á nýtt
þar til hann fullnægir þörfum hans
fullkomnun
Horfi á blaðið. Þetta er skárra. En ekki fullkomið. Þetta verður að vera fullkomið. Verður að sýna hve fullkominn líkaminn er. Líkaminn sem ég þrái, þrái að snerta. Mjóir kjálfarnir, sverari lærin, kúlulaga rassinn, stinnari en dekkjagúmmí. Maginn, svo mjór en samt svo feitur. Á áður flötu brjóstinu, tvær kúlur á stærð við appelsínur. Líkami gerður til þess eins að leyfa henni að hreyfa sig en hann gerði svo miklu, miklu meira. Allavegana virkaði hann eins og segull á hvern einasta karlmann í tvöhundruð metra radíus.
En það er ekki bara líkaminn. Andlitið líka. Ljóst hárið greitt til hliðar, frá vinstri til hægri. Tvö blágræn augu, ólýsanleg, en ég ætla samt að reyna. Svo björt og falleg en á sama tíma dökk og drungaleg, svo saklaus og tóm en samt svo full af visku. Augun á Trjáskeggi blikna í samanburði við þessi. Fyrir neðan augun er nef, lítið og nett með örlítilli kóngaþúst. Fyrir neðan nefið, varir. Varir sem ég þrái að kyssa. Reyndar þrái ég allt, hana alla. Þrái að koma heim úr vinnu, skóla, sjá að hún bíður eftir mér, hvísla í eyru hennar, kyssa varir hennar, snerta líkamann, barna hana, stofna fjölskyldu, eyða lífi mínu með henni, eyða eilífðinni við hliðina á henni í einhverjum kirkjugarði.
Horfi á blaðið. Les það sem ég hef verið að skrifa. Ljóðið er fullkomið, eins og hún. Legg bókina frá mér, fer uppí rúm og áður en ég veit af svíf ég á hvítu skýji draumanna. En ég er ekki einn. Hún er þar líka. Svíf um heiminn með henni, alveg þangað til að ég vakna. En jafnvel þá dreymir mig um hana. Ég hugsa um hana á leiðinni í skólann, í skólanum, upp í pontu þegar ég les ljóðið fyrir bekkinn. Ljóðið mitt. Alveg eins og ég ritaði það, með áherslum og upplitum á þeim stöðum sem ég hafði ákveðið.
líkt og mynd máluð af fullkomnunarsinna
sem hefur málað hvern blett
aftur og aftur
þar til hann fullnægir þörfum hans
fullkomnun
ég vil þig
langa leggina
stinnann rassinn
mjúka magann
passlegu brjóstin
en ég myndi sætta mig við hárlokk
ég þrái þig
vil fá að snerta
vil fá að heyra
vil fá að bragða
ég dái þig
silkimjúka röddina
seiðandi varirnar
öfgafull augun
ef ég bara gæti
ég veit
fullkomnun
Allt í einu var ég búinn. Ég var búinn, búinn að lesa. Í stofunni ríkir þögn. Ég lít yfir bekkinn. Úr andlitum krakkanna skín svipur sem lýsir undrun. Jafnvel kennarinn lítur út eins og hann hafi verið laminn með sleggju. Þögn, löng og óþægileg þögn. Síðan fliss. Hlátur. Kennarinn glottir, bekkjarfélagarnir hlæja. Hlæja að mér, hlæja að henni. Ég hefði getað hlaupið, öskrað, sturlast en ég gerði það ekki. Ég stóð, stóð bara og horfði, horfði á sætið þitt.
Ég veit það, veit að ég fæ þig aldrei.