Ég hef verið að skrifa síðan ég var 12, 13 ára. Ég veit ekki alveg hvað það var sem fékk mig til að byrja en ég held að ég ætli að kenna Hringadróttinssögu um það að hluta til. Ég var heilluð af fantasíum sem krakki og er enn og eru allar mínar sögur um eitthvað að því tagi. Fyrsta sagan mín, sem er sprenghlægileg þegar ég les hana í dag, ber greinileg áhrifa frá Hringadróttinssögu.
Það má skipta sögunum mínum í 3 flokka eftir því hvar þær gerast.
Kivja – það er fantasíuheimur í gegn, við erum að tala um álfa, dverga, menn, dreka, guði, nefndu það.
Hinn heimurinn – er ekki enn komin með almennilegt nafn, en það er heimurinn sem saga Felecia Yates á sér stað. Það er heimur sem minnir á okkar á svona viktoríska tímanum en er fullur af galdri, vampírum og varúlfum. (og ekkert twilight kjaftæði xD )
Jörðin – okkar venjulegi heimur. En það er augljóslega of leiðinlegt eitt og sér og þar af leiðandi tengjast sögurnar mínar sem gerast þar einhverju dularfullu og yfirnáttúrulegu.
Ég skrifa mest af lengri sögum 50 bls + þótt ég eigi eina og eina smásögu og örögur inn á milli.
Hvernig ég fæ hugmyndir, það er góð spurning. Það er alveg greinilegt að hitt áhugamál mitt, að teikna, kemur sterklega inn. Ég á það til að búa til persónur áður en ég bý til söguna, en það er samt ekki alveg allsráðandi. Ef ég teikna upp persónu sem mér líkar vel við fer ég oft að pæla, hver skyldi þetta vera? Ég finn nafn handa henni og aldur og svona grunnupplýsingar og bamm! Hausinn á mér er kominn á stað og þá fer ég að spinna upp söguþræði í kringum þessa persónu.
Svo er það annar hlutur: tónlist. Án tónlistar veit ég ekki hvar ég væri í dag. Þegar ég hlusta á tónlist og þá sérstaklega ósungna tónlist fæ ég mjög auðveldlega hugmyndir og sé fyrir mér heilu atriðin. Þetta virkar best þegar ég er að rölta einhverstaðar með tónlist, sitjandi í bíl eða strætó. Þá hef ég ekkert betra að gera en að láta hugann ráfa.
Svo auðvitað fínpússa ég söguþræðina og fer að skrifa, oftast veit ég ekkert hvernig sögurnar mínar munu enda og stundum veit ég ekkert hvað mun gerast eftir fyrstu 3 kaflanna.
Helsti galli minn í ritstörfum er hvað hausinn á mér er brjálaður, ég á svo auðvelt með að finna upp á nýjum sögum og klára þá oft ekki hinar. Sumar eru bara nokkrar blaðsíður en ef ég næ þeim upp yfir svona 20-30 bls þá er nokkuð öruggt að ég muni klára þær. Ég er vanalega að vinna í svona 2 sögum í einu, stundum geymi ég samt eina og tek upp aðra. Þetta fer allt svona fram og til baka. Af nýlegu efni á ég svona 3 kláraðar sögur og er með svona 3 sem ég er að vinna í þessa dagana, þótt að ég sé með nokkrar í viðbót sem mætti klára.
Jæja eins gaman og það er að blaðra um sjálfan sig ætla ég að hætta því, vona að fleiri sendi inn svipaðar greinar :)
kveðja Ameza