Sögurnar mínar eru margar og mismunandi. Þær eiga lítið sameiginlegt varðandi söguþráð, persónur og fleira. Eitt eiga þær þó sameiginlegt og því er ekki hægt að neita; þær eru samdar og skrifaðar af sjálfum mér. Ég hef oft velt vöngum yfir því hvaðan þessar sögur koma og jafnvel af hverju þær koma. Erfitt hefur verið fyrir mig að komast að einni fastri niðurstöðu sem svarar þessum tveimur spurningum.

Það er þó tvennt sem mér finnst helst koma til greina. Þetta fyrra er líklegast eitthvað sem margir verða fyrir; að fá upp virkilega góða hugmynd að sögu á milli svefns og vöku. Ég hef ósjaldan lent í því að annaðhvort vera við það að sofna og fá skemmtilega hugmynd að sögu eða þá að vakna um miðja nótt með jafn góða hugmynd. Það eru bæði kostir sem og gallar við þetta. Helsti kosturinn er sá að þarna á ég auðvelt með að teygja mig í símann og skrifa niður ‘notes’ um söguna og hvernig hún á að vera. Helstu gallarnir eru þeir að sjaldan hef ég rænu á því að gera þetta. Ligg kannski uppi í rúmi alveg að sofna og BÍNG; góð hugmynd að sögu. Ef ég fatta ekki að skrifa þetta í símann eða eitthvað í þeim dúr, þá eru nánast allar líkur á því að ég gleymi hvernig hugmyndin var. Ég hef einnig lent í því að ná að skrifa eitthvað í símann en sofna svo með símann í hendinni. Daginn eftir vakna ég svo með símann rétt hjá mér, ofan á honum eða lófarnir samanherptir utan um hann. Svo kíki ég á símann, virkilega spenntur, í von um góða hugmynd að sögu. Á andlit mitt kemur allt í einu upp skelfingarsvipur; ég skrifaði bara einhverja vitleysu kvöldið áður. Oftast eru þetta bara einhver fáránleg stikkorð sem ég skil hvorki upp né niður í. Það er eiginlega verra en þegar ég skrifa ekkert í símann minn vegna þess að þarna veit ég að ég var mögulega með efnilega sögu í höndunum en henti henni í ruslið vegna klaufaskaps í mér. Oft á morgnanna er ég með alveg fáránleg ‘notes’ í símanum mínum sem áttu víst einhvern tíma að verða sögur.
Hér eru nokkur dæmi um asnaleg notes:

Dim it (ever happen)
Bite on
I’m not Doctor Phil
Vindur í veðri
Að kíkja í barnavagn
Að bíta í tannbursta, blóð.


Þetta er bara lítið brot af þeim fjöldamörgu asnalegu ‘notes’ sem ég hef fundið í símanum mínum. Þó að leiðinleg hafi verið að lenda í þessu þá eru þessi ‘notes’, eftir á að hyggja, frekar fyndin.

Ástæða númer tvö er ekkert lík þeirri fyrri. Oft fæ ég hugmyndir að sögum þegar ég er að labba úti snemma á morgnanna, hvort sem það er í skólann eða bara göngutúr. Oftast fæ ég þessar hugmyndir þegar ég labba fram hjá húsi einu sem er alls ekki langt frá skólanum. Þetta kann að hljóma asnalega en þetta hús er næstum því eins og sagnabrunnur sem ég er ófeiminn við að reyna að tæma. Það skiptir engu máli hvaða hús þetta er en ég get lofað ykkur að þetta er ósköp venjulegt hús; það býr engin galdranorn þarna og þetta hús getur ekki talað.

Þetta er kannski ekki merkileg grein en þetta er eitthvað nýtt hér á /smasogur og ég hvet fleiri til þess að skrifa svipaða grein. Hvað finnst ykkur skemmtilegast að skrifa um? Hvernig skrifið þið? Hvaðan og hvernig fáið þið hugmyndir að sögum? Endilega sendið inn eitthvað svipað og ég mun hamast á ‘Samþykkja’.