Græn augu hennar litu í átt að sterkri sólinni en þau skutust svo aftur niður, blinduð af sólargeislunum. Hún var í Afríku, stödd í miðjum frumskóginum rétt fyrir utan Jóhannesarborg. Faðir hennar, Guðjón Kristjánsson var vísindamaður og þess vegna voru þau stödd á þessum forboðna stað ásamt móður hennar og bróður. Móðir hennar hét Eyrún Tryggvadóttir, hún var með ljóst, næstum hvítt hár og hún var íþróttamannslega vaxin, enda hafði hún verið dugleg við það að halda sér í formi áður en slysið varð. Bróðir hennar, hét Tryggvi Guðjónsson. Þó hann væri orðinn 18 ára gamall þá var hann alltaf til staðar fyrir hana, hvað sem á stóð þá var hann þar. Hann var hávaxinn körfuboltaiðkandi, með hár eins og móðir sín.
Grænu augun virtu umhverfi sitt vel fyrir sér en litu svo í spegilinn sem hún hélt á í hendinni. Hún var nokkurn vegin ánægð með það sem hún sá. Ekki of grönn, ekki of feit. Hún var rétt mátuleg að hæð með hrafntinnusvart hár, fallega vaxin 13 ára unglingsstelpa. Það var þó eitt sem fór í taugarnar á Jóhönnu. Það voru augun; skærgræn með nokkrum svörtum doppum á lithimnunni. Fólk hafði oft bent henni á hversu sérstæð augu hún hefði. Eins og hún vissi það ekki, þetta fór afskaplega mikið í taugarnar á henni. Hún leit til pabba síns, hann var eitthvað að bjástra við enn eina uppfinninguna. Hún dæsti, uppfinningarnar hans heppnuðust næstum aldrei. Reyndar hafði það gerst í eitt skiptið að hann fann upp tæki sem fann týnda sokka, fjölskyldan græddi lítilega á því og það hafði eimmit fjármagnað ferðina til Afríku. Pabbi hennar sagði að ferðin væri til þess að “slappa af” en hann gerði lítið annað en að fikta með þetta vísindadót sitt.
Jóhanna lokaði speglinum og gekk til móður sinnar. Eyrún stóð á árbakka og hún rýndi niður í vatnið eins og hún væri að leita af einhverju. Jóhanna velti því fyrir sér hvað það gæti verið en spáði ekki meira í það. Móðir hennar gat verið ansi sérstæð stundum en Jóhanna hafði litla þolinmæði í svoleiðis. Hún stóð þess vegna bara við hlið móður sinnar og reyndi að njóta umhverfisins. Grænir skógar hvert sem augað leit, sem innihéldu margar forvitnilegar tegundir dýra.
Brátt leiddist henni þessi “leit” móður sinnar á bakkanum og hún staulaðist inn úr hitanum. Þar sat bróðir hennar, Tryggvi í öllu sínu veldi. Hún hljóp til hans og tók utan um hann. Faðmlagið var innilegt, enda tengdust systkinin sterkum böndum eftir að hafa gengið í gegnum margt saman.
Heimilislífið hafði aldrei verið auðvelt, faðirinn var alltaf á þönum niðrí einhverjum raftækjaverslunum að eyða öllum peningunum þeirra. Eða inn í bílskúr eitthvað að vesenast til þess að reyna að afla sjálfum sér frægðar og frama. Og móðirin alltaf starandi út í lofið og lét eins og heimurinn kæmi henni ekkert við. Hún hunsaði allt og alla, jafnvel börnin. Tryggvi hafði því neyðst til þess að sjá um systur sína frá unga aldri. Þegar Tryggvi var 12 ára gerðist það, Eyrún lenti í bílslysi og fékk slæmt höfuðhögg. Hún var í dái í þrjá langa mánuði, læknarnir reiknuðu ekki einu sinni með því að hún myndi nokkurn tíman vakna aftur. En þvert á það sem læknarnir sögðu þá rankaði hún við sér og jafnaði sig að öllu leiti nema andlega. Augnaráð hennar hélst fjarlægt eftir að hún vaknaði, hún leit aldrei almennilega á neinn mann. Það hafði ekkert breyst.
Og nú voru þau stödd öll fjögur í Afríku. Syskinin spiluðu á spil inn í húsi, Eyrún stóð og starði eins og vanalega og Guðjón fiktaði við nýju uppfinninguna sína. Hann kallaði hana Fund3000, hún átti að geta fundið hvað sem maður vildi. Hægt var að stimpla einfaldlega inn hlutinn sem þú hafðir týnt og vélin fann hann fyrir þig á innan við mínútu. En eitthvað var ekki eins og það átti að vera, vegna þess að vélin hlýddi ekki neinu. Hún keyrði um fram og til baka inn í frumskóginum í leit að engu sérstöku. Einu sinni tók hún í skottið á bavíana og þá réðst allur hópurinn á vélina og rústaði henni gjörsamlega. Guðjón þurfti að byrja allt upp á nýtt.
„Rommí!“ galaði Jóhanna um leið og hún lagði síðasta spilið niður og vann þar með leikinn. Hún hafði alltaf verið betri en Tryggvi í spilum, og hann hafði alltaf verið tapsár. „Ohh, þú vinnur alltaf“ nöldraði Tryggvi og henti síðan frá sér spilunum. Hann leit út um gluggann og sagði „hvað er pabbi nú að gera?“. Jóhanna yppti bara öxlum og fylgdi augnaráði bróður síns; Guðjón var að fikta með einhverjar snúrur inni í vélinni, af og til komu litlir blossar en Guðjón lét það ekki á sig fá og hélt áfram. Tryggvi dæsti, „hann veit aldrei hvenær nóg er komið“ og gekk síðan út í von um að getað sannfært föður sinn um að koma inn og njóta dagsins með börnunum. Jóhanna fylgdist með inni, hún sá að samræðurnar báru engan árangur eins og vanalega, Tryggvi var orðinn reiður og var byrjaður að hrópa á Guðjón. Guðjón hunsaði hann bara og hélt áfram, Tryggvi sparkaði í vélina og þá gerðist það.
Hvítt ljós blindaði Jóhönnu og svo kom svakaleg höggbylgja sem kastaði henni þvert yfir herbergið. Hún skall með miklum krafti í bókahillu og rotaðist. Rétt áður en hún lognaðist út af heyrði hún skerandi öskur í bróður sínum, síðan varð allt svart. Hún leyfði sér að fljóta inn í draumlausann svefn. Henni leið skringilega; eins og hún væri sofandi en samt meðvituð um það sem væri að gerast í kringum hana. Hún sá mann nálgast hana, hann var klæddur gulum búningi með hjálm á höfði í sama lit, síðan missti hún aftur meðvitund - Hún fann fyrir þyngdarleysi og ólýsanlegum hávaða, sami maðurinn sem hún sá síðast var að tala við hana lágum rómi, þá missti hún aftur meðvitund -Hún var aftur blinduð af skæru ljósi og það var mikill kliður í kringum hana, bakvið köllin og hrópin heyrði hún takfast bíp-bíp-bíp-bíp og þá sofnaði hún loksins almennilega.
Hana dreymdi að Tryggvi, mamma og pabbi stæðu langt frá henni, veifandi. Sama hvað Jóhanna reyndi að nálgast, þá lengdist bilið bara á milli þeirra. Síðan hurfu þau alveg og þá heyrði hún öskur.
Hún opnaði augun og áttaði sig á því að hún hafði vaknað við eigið öskur. Jóhanna virti fyrir sér umhverfi sitt. Í fyrstu var allt hvítt en svo vöndust grænu augun ljósinu og hún sá móta fyrir herberginu sem hún var í. Nei, stofunni leiðrétti hún sjálfa sig. Hún var lá í sjúkrarúmi, einhver hafði klætt hana í hvítan náttslopp merktan Landsspítalanum og hún var með umbúðir um hausinn. Hún fann fyrir þreytu og fannst eins og hún væri nýbúin að hlaupa maraþon. Hún reyndi að átta sig á aðstæðum en brátt yfirbugaði þreytan hana og Jóhanna fór aftur að sofa.
Hún vaknaði við óm af röddum, henni heyrðist það vera karlmaður og kona. Hún opnaði græn augun og reis upp. Þau frusu bæði í sporunum.
Maðurinn var klæddur hvítum slopp og einskonar samfestingi innan undir, hann virtist vera um þrítugt. Hann var með ljósbrúnt hár og augu í sama lit. Konan var einnig klædd í hvítt og hún var með ljóst hár og blá augu. Hún sendi lækninum þýðingarmikið augnaráð en yfirgaf svo stofuna. Læknirinn gekk til Jóhönnu og settist á rúmið hjá henni. „Sæl, ég heiti Sigurður“ sagði læknirinn. Jóhanna horfði bara á hann og skildi hvorki upp né niður. Hvað var hún að gera á Landspítalanum? Afhverju var hún með umbúðir um höfuðið? Og hvar voru allir? Hvar eru mamma og pabbi? Hvar er Tryggvi? Hún braut heilann um þetta en Sigurður læknir horfði bara á hana með samúð í augnaráðinu.
Allt í einu var eins og sprenging í heilabúinu á Jóhönnu. Hún mundi það allt. Tryggvi að þræta við pabba og síðan hafði hann sparkað í vélina hans pabba. Þá kom ljósið, þetta bjarta og ofurskæra ljós. Og öskur þrungið af sársauka og örvæntingu sem skar í eyrun. Meira mundi hún ekki.
Jóhanna fann tárin streyma niður kinnar sínar úr grænu augunum, „hvar eru þau?!“ hrópaði hún. Sigurður hristi bara hausinn. Síðan muldraði læknirinn „mér þykir það leitt Jóhanna, móðir þín og faðir létust bæði samstundis við sprenginguna“. Hún fann sorgina yfirbuga sig og hún átti erfitt um andardrátt. En svo fann hún fyrir pínulítilli vonarglætu. „En hvað með Tryggva?!Hvar er Tryggvi?!Er allt í lagi með Tryggva?!“ Jóhanna tók ekki einu sinni eftir því að hún var farin að öskra. Sigurður horfi beint í augun hennar; grænt í brúnt. „Tryggvi lifði sprenginguna af en lést á leiðinni heim í sjúkraflutninginum, ég samhryggist“ sagði læknirinn. Hann hélt áfram „þið voruð bæði flutt heim með þyrlu og þú ert búin að sofa í rúmlega 3 vikur, ættingjar þínir hafa beðið fyrir utan alveg síðan þú komst. Viltu að ég hleypi þeim inn?“. Jóhanna svaraði engu þannig að læknirinn gekk bara út.
Stuttu seinna streymdu allir inn. Flestir sem hún hafði þekkt síðan hún fæddist voru mættir á staðinn fyrir hana. Jóhanna var umkringd fólki en henni hafði aldrei liðið jafn einmana og nú. Hún var örþreytt og lagðist niður, lokaði augunum og sofnaði fljótt. Í þetta sinn dreymdi hana vel. Nú stóð hún hjá þeim; mömmu, pabba og Tryggva. Þau voru öll svo hamingjusöm. Þau bentu Jóhönnu að koma til sín og buðu henni að koma með þangað sem þau voru að fara; í átt að ljósinu. Jóhanna tók boðinu fagnandi og fjölskyldan var loksins ein heild. Þau fjögur leiddust hönd í hönd og gengu saman inn í ljósið.
Hún vaknaði aldrei aftur og grænu augun sáu aldrei dagsins ljós á ný.
Dýrð sé móðurinni sem ól þig!