Hefðir eru hefðir. Hefðir má ekki brjóta, aldrei. Það brýtur gegn lögum, eða ætti að gera það. Enda vissu foreldrarnir hvað þau ættu í vændum ef þau myndu neita börnum sínum um að fara til ömmu og afa á Þorláksmessu. Þess vegna var mamma að keyra börnin þrjú til ömmu hinum megin í sveitinni. Litli bróðir, sem var nýbúinn að uppgötva það hvað það var gaman að skoða sína eigin hendi, fékk að fara með en það átti að skýra hann á jóladag.
Loksins, eftir tíu mínútna akstur, voru þau komin. Börnin, níu, fjórtán og fimmtán ára, hlupu inn. Amma stóð í dyragættinni, hún var frekar lág í loftinu með hár sem var að verða grárra og hún líktist Michelin manninum sífellt meira með hverju árinu.
- Ofsalega er nú gott að sjá ykkur, skatan er alveg að verða tilbúin.
Það fór nú ekki framhjá börnunum. Skötuilmurinn tók á móti þeim svo þeim sveið í augun. En út á þetta gekk nú leikurinn. Á hverju ári fóru þau til ömmu sinnar til að borða kæsta skötu, drekka jólaöl og skreyta húsið. Þetta var það sem kom þeim í jólaskap. Afi sat inn í stofu og las í blaði, hann þoldi ekki skötu. Sú yngsta af systkinunum þoldi hana ekki heldur og þess vegna fengu hún og afi alltaf saltfisk í staðin. Hún smakkaði samt alltaf einn bita en spýtti honum jafnhraðan út úr sér. Og alltaf hlógu systkini hennar jafnmikið að henni.
Þegar börnin voru búnir að éta nægju sýna af skötu prílaði amma gamla upp á háaloft og kom niður með tvo pappakassa sem geymdu jólaskraut. Yngsta systirin skríkti af gleði, reif annan kassann af ömmu sinni og byrjaði að týna upp úr honum. Um leið voru systkin hennar mætt til að hjálpa henni og áður en langur tími var liðinn voru kassarnir tómir og húsið fullt. Allt nema tréð leit út eins og það átti að sér að vera. Það var, tja… fremur tómlegt. Seríurnar voru komnar á og svolítið af kúlum en samt vantaði alltof mikið á það.
- Amma. Hvar er restin af jólakúlunum? hreytti miðbarnið útúr sér.
- Hva.. eru þær ekki í kössunum?
- Þú sérð það nú sjálf…
Þau hófu dauðaleit að seinasta kassanum en þegar tæp hálf klukkustund var liðin heyrðist óp. Krakkarnir stukku til og fundu ömmu sína sitjandi á stól í nokkru sjokki.
- Hvað er að amma? spurði sú yngsta.
- Veistu… ég held að þegar ég var að taka til hérna í sumar… hafi ég óvart hent heilum kassa af jólaskrauti…
Nú voru góð ráð dýr. Börnin og amman brutu heilann niður í frumeindir, ekki mátti láta jólatréð vera hálfautt á sjálfum afmælisdegi Jesúbarnsins. Og þau brutu heilann svo það brakaði, svo hátt heyrðist í þeim að hænurnar í hænsakofanum verptu eggjum af hræðslu. En heilabrotin borguðu sig.
- Amma.
- Já.
- Ég held ég sé með lausnina. sagði elsta barnið
- Nú nú. Hvað flaug þér til hugar?
- Ég sá þar einhverntíman gert í bíómynd að fólk tók poppkorn og þræddi upp á snæri og lét það síðan á jólatréð. Gætum við gert það?
Amma harðneitaði í fyrstu. Sagði að þetta væri bara vitleysa; en eftir mikið væl og fortölur féllst hún á að poppa tvo poka sem krakkarnir fengju að nota í jólaskrautsgerð. Þau hófust handa og eftir rúmlega klukkutíma saumaskap, blóð, svita og tár, fengu þau loks að sjá árangur alls erfiðisins. Jólatréð hafði aldrei verið fallegra. Því miður entist skrautið ekki hátíðina því eitt barnabarnið skildi ekki hvernig að matur gæti verið skraut og tók sig til og át mest allt poppið en hvað með það.. það var þess virði að búa skrautið til og sjá það á trénu, þótt það hafi ekki verið þar nema í tvo daga.