“Hvað er málið Skúli? Af hverju leyfirðu honum að gera þetta?” Hugsanirnar flugu fram í hausinn á Skúla er hann flaug nær þvert yfir stofugólfið og lenti við hlið trésins. Jólatréð, sem faðir hans hafði fengið á klink frá félaga sínum sem vann í timburverksmiðjunni, gnæfði yfir honum og ljómaði í allri sinni dýrð. Í þessa stuttu stund sem hann leit á tréð, fann hann ekki fyrir sársaukanum í fætinum. “Af hverju ertu ekki stærri og sterkari en þetta? Þá myndirðu geta varið þig!” Hann reyndi að standa á fætur og fann hvernig hann átti erfitt með að halda jafnvægi. Faðir hans hafði greinilega farið á meðan hann lá þarna. Eða það vonaði hann. Hann stoppaði aldrei lengi heima en þegar hann kom var hann oftast reiður og álasaði einhverjum ef ekki öllum í fjölskyldunni fyrir vandamálin sem hann kom sér í. Móðir hans hafði fyrir löngu haft samband við lögregluna en hann var klókur, og faldi áverka hennar vel.
Hann skuldaði fólki pening og fékk því oft að kenna á því á daginn, og þurfti greinilega að líða betur með sjálfann sig með því að láta höggin dynja á móður hans.
Fjölskyldan bjó í Breiðholtinu, nánar tiltekið Fellahverfunum, í lítilli íbúð á 6. hæð. Faðir hans vann niður á höfn, og hafði fljótt orðið hrifinn af töfrum áfengis, og drakk nær hverja helgi. Hann kom oft ekki heim fyrr en upp undir morgun bara til að vekja móður þeirra og skipa henni að búa til morgunmat fyrir sig. En þegar krakkarnir vöknuðu var hann farinn. Þau sáu hann aldrei nema á kvöldin, þegar hann kom heim úr vinnunni oftast drukkinn eða pirraður.
Þau voru tvö systkinin, hann Skúli og systir hans Laufey. Faðir hans hafði ekki ennþá snert hana, sem betur fer. Hún var bara 6 ára og ef hann myndi gera henni mein myndi það eyðileggja Skúla. En hann hafði alveg bölvað henni í sand og ösku, að það væri of dýrt að hafa þennan krakka hérna, hann gerði ekki annað en að éta, sofa og leika sér þegar hann kæmi heim úr skólanum. En mestar áhyggjur hafði Skúli af móðir sinni, sem fékk hvað mest að kenna á því. Hún gekk um húsið, þreif það og reyndi að hafa allt hreint og flott áður en faðir hans kæmi heim. Hún tók hvert smáatriði fyrir og þreif það og pússaði og gætti þess að yrða aldrei á hann nema hann talaði við hana.
Ef hann var ekki ánægður með eitthvað eða eitthvað fór í taugarnar á honum jós hann yfir hana fúkyrðum og þreif oft í hana og þrykkti henni niður á gólf. Hún fékk oftast margbletti um líkamann og í versta falli tognaði hún. En hann passaði það að áverkar hennar sæjust ekki þegar þau færu út. . Hann lét andlitið alveg vera og lét hana klæðast fötum sem feldu sárin. Sömuleiðis með Skúla. Hann var bara nýlega byrjaður að fara í taugarnar á honum. Þegar faðir hans fékk vini í heimsókn lét hann Skúla alltaf vera hjá þeim, sagði að það að hlusta á þá myndi gera hann að manni. Svo lét hann Skúla alltaf sendast fyrir sig fram í eldhúsið eftir bjór eða öðru sem mennirnir gæddu sér á, á meðan þeir spjölluðu.
Í skólanum var Skúli bara mjög eðlilegur, honum gekk vel í námi og átti marga vini. Hann hafði ekki látið ofbeldið sem hann þurfti að líða heima hjá sér hafa áhrif á sig og það sást varla á honum, svo vel náði hann að fela það. Það var aðallega í íþróttum sem sást í marblettina á handleggjunum og fótunum, en hann sagði kennaranum bara að hann væri oft á hjólabretti og fótbolta, og væri bara óheppinn. En þegar hann var búinn að vera með marbletti í marga mánuði samfleytt og stundum slæm sár sem mjög erfitt er að fá með því að stunda einungis hjólabretti og fótbolta, veittu vinir hans því athygli. “Hvað er málið Skúli? Af hverju ertu alltaf með eitthver sár á handleggjunum? “ Skúli var alltaf með svör á reiðum höndum og skáldaði það upp að hann væri búinn að fá hlutavinnu við höfnina hjá föður sínum og væri ennþá svolítill klaufi í kringum vélarnar þarna niðurfrá.
Með tímanum versnaði faðir hans meira og meira. Hann skuldaði fleirum og fleirum pening og upphæðirnar urðu alltaf hærri og hærri. Hann var byrjaður að koma uppdópaður heim og barsmíðarnar versnuðu með því. Skúli sá móður hans lyppast niður og gefast upp, grátandi eftir miskunn. Reiðin sauð innra með honum, en hann gat ekki gert neitt. Hann þurfti bara að vona að móðir hans þraukaði þetta sem lengst.
Síðan eitt sumarið, ákvað faðirinn að fara ferð upp í leigubústað með fjölskylduna. Frí sagði hann, en Skúli vissi að hann þurfti að komast tímabundið út úr bænum. Hann grunaði að lánadrottnar föður hans væri byrjaðir að þrýsta á hann að borga og giskaði á að hann hefði orðið fyrir hótun frá þeim fyrst hann ákvað að fara upp í bústað í viku eða tvær. Mest allan tímann sem þau voru upp í bústaðnum var faðir hans í burtu að sinnu mikilvægum erindum eins og hann orðaði það. Hann kom oft ekki aftur fyrr en seint um kvöld og fór þá beint í háttinn. Það má segja að ástandið hafi batnað þennan tíma sem þau voru þarna út á landi, en Skúli vissi að um leið og þau kæmu aftur í bæinn myndi leikurinn endurtaka sig.
Tæpum tveimur vikum seinna lögðu þau af stað í bæinn. Og það var eins og Skúli hélt, þau fóru aftur í sömu rútínu og áður. Skúli var búinn að missa vonina um að þau myndu nokkurn tímann losna við hann. Hver dagur var verri og verri og Skúli varð niðurdregnari með hverjum degi sem leið, þar til kennari Skúla tók eftir því hvernig einkunnir hans lækkuðu og hvernig hann hætti að vera með vinum sínum. Hann tók hann á tal og spurði hann útúr en Skúli neitaði því alfarið að það væri eitthvað að heima hjá honum og allt gengi sinn vanagang, hann hefði bara byrjað að bera út blöðin fyrir nokkrum vikum og það hefði áhrif á svefninn hjá honum, en hann lofaði að foreldrar hans væru að leita að vinnu fyrir hann sem væri auðveldari með skóla. Og ef skólayfirvöld höfðu samband heim til hans tók móðir hans venjulega undir þetta hjá honum, þar sem hún taldi að skólinn gæti ekki neitt aðhafst varðandi ofbeldið. Svona laug hann sig út úr aðstæðum í marga mánuði þar til fólk hætti að veita honum athygli. Strákarnir hættu að setja út á marblettina og skrámurnar sem hann hafði á líkamanum og íþróttakennarinn tók því sem hann væri bara einfaldlega lélegur á hjólabretti, aumingja drengurinn. Svona gekk þetta fyrir sig í margar vikur, þar til eitt kvöldið, að faðir hans kom drukknari heim en venjulega. Hann gat varla staðið í lappirnar. En samt slakaði hann ekkert á fúkyrðunum sem hann lét rigna yfir fjölskylduna. Það leit út fyrir að þetta ætlaði að enda með sömu rútínu, hann öskrar á þau, segir móðir þeirra hversu ömurleg hún er í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, og lætur að venju höggin dynja á henni í leiðinni. Þarna var Skúli nýorðinn 14 ára. Skúli ætlaði að láta sem hann sæji þetta ekki eins og venjulega, þegar faðir hans ákvað að snúa sér að systur hans. Hann byrjaði á því að bölva henni í sand og ösku, sem kom að vísu Skúla ekkert á óvart, þar til hann rétti hendina út og sló hana utan undir. Skúli fraus. Hún var aðeins 8 ára þarna, og gat lítið gert til að verjast höggunum sem dundu á henni í kjölfarið. Skúli fann hvernig hann sauð allur að innan. Allt í einu small eitthvað innra með honum, og í bræðiskasti hljóp hann inn í eldhús, sótti stærsta hnífinn úr skúfunni, reið hann til lofts og stakk föður sinn djúpt í bakið. Faðir hans hætti að berja systur hans og rétti sig upp. “Hvað í…” en hann komst ekki lengra, heldur féll til jarðar. Skúli vissi ekki hvort hann væri dauður eða hvort hann hefði einfaldlega fallið niður vegna þess að hann var svo ótrúlega drukkinn. Móðir hans kom hljóðlega fram og starði á faðir þeirra, sem lá þarna í gólfinu. Systir hans bakkaði frá honum og sagði ekki orð. Enginn sagði neitt. Það var alger þögn.