Hrefna - I - Orka ,,Þögn!’’ kallaði Magga kennari yfir 8. bekkinn sinn. Það var mánudagur og allir voru ennþá í stuði eftir helgina og ekki búin að kæla sig niður fyrir skólavikuna. Svona var þetta alltaf, krakkar hendandi blýöntum og yddurum, ein og ein skæri þar á milli. Enginn fylgdist með náttúrufræðifyrirlestrinum heldur voru skvaldrandi við sessunauta sína. Tveir strákar hlupu um stofuna, annar þeirra hafði hitt hinn með blýant í andlitið og honum líkaði það ekki þannig núna þurfti sá fyrr nefndi að hlaupa fyrir lífi sínu.
Aðeins tveir nemendur í timanum fylgdust með og voru ekki með nein læti. Sú fyrri var Vivian en hún var frá West á Bretlandi, róleg stelpa með fallega græn augu og eldrautt hár. Freknurnar breiddust frá nefi hennar, niður kinnar hennar, upp á ennið og alla leið niður á háls. Hún sat aftur í sætinu sínu og var bara að bíða eftir því að Magga næði að róa alla niður. Hún var eitthvað að krassa í stílabókina sína en virtist ekki vera að hugsa mikið um hvað hún var að teikna.
Sú seinni var ég. Flestir bekkjarfélagar mínir vissu að ég væri öðruvísi, jafnvel Vivian sem hafði bara verið í bekknum í tvo mánuði hafði lærst að forðast mig. Hún forðaðist alla, henni líkaði eins vel við félagsskap og mér.
Ég veit ekki hvað það er við mig sem gerir mig svo fráhrindandi. Kannski eru það ísblá augun, svo ljós að lithimnan rennur næstum saman við hvítuna í augum mínum. Eða kannski var það nærri hvít húð mín sem virtist ekki einu sinni dökkna á sumrin þegar sólin var sem hæst.
Auðvitað gæti það verið allt útlit mitt, ísblá augun, hvít húðin og hrafnsvart hárið sem hrinti öllum frá mér. Kannski var það útaf því ég var svo grönn, næstum horuð. Nei, ég efaði það. Ég veit orsökina og það gæti verið útaf því ég kann ekki að haga mér í venjulegum samskiptum. Ég kann ekki á tilfinningar, og ég hef ekki lært til fullnustu öll svipbrigði. Ég finn aldrei ástæðu til að brosa né hlæja. Ég finn aldrei ástæðu til að gráta eða öskra. Ég finn ekki neitt, ég er algjörlega tóm að innan.
Það er lítið sem hefur áhrif á mig að utan frá séð líka. Þótt ég myndi skera mig myndi ég bara finna fimmtung af þeim sársauka sem ég ætti að finna.
En mér var alveg sama um það þótt ég væri öðruvísi. Auðvitað var mér alveg sama, ég fann ekki neitt. Ekki ein agnarögn af tilfinningum, aldrei. Ja, reyndar læt ég ekki ganga yfir mig. Ef einhver myndi ráðast á mig myndi ég verja mig, og gera það nokkuð vel reyndar.
,,Hrefna?’’ spurði Magga en hún stóð allt í einu fyrir framan mig. Ég leit upp á hana. Hún beit í vörina, taugaóstyrk. Jafnvel kennarar voru taugaóstyrkir í kringum mig.
,,Já?’’ spurði ég hljóðlegri röddu, tærri eins og nýfallinn vatnsdropi.
,,Værirðu nokkuð til í að sækja fyrir mig blöð inná skrifstofu sem ég lét prenta út?’’ spurði Magga og tvísteig. Ég kinkaði kolli, stóð upp og gekk útúr stofunni. Ég vissi að allir horfðu á mig en ég vissi ekki afhverju. Það var eins og allt dytti í dúnalogn þegar ég stóð upp. En ég leit ekki við, ég hélt áfram.
Ég kom fram að skrifstofu og Lilla, ritari, sat fyrir aftan glerið, að vinna í tölvunni sinni eins og alltaf. Hún var með símann límdann við eyrað á sér og talaði svo hratt að ég gat varla greint orðaskil. Ég beið, þolinmóð, á meðan hún kláraði símtalið og sneri sér að mér. Hún gretti sig örlítið þegar hún sá hver þetta var en faldi grettuna snöggt og vinalegt bros kom á þunnar varir hennar.
,,Hvar er það vinan?’’ spurði hún og reyndi að láta ekki nærveru mín trufla sig.
,,Daginn Lilla. Ég átti að sækja blöð sem Magga lét prenta út,’’ sagði ég flatri röddu.
,,Handa Möggu Trausta?’’ spurði hún og sneri sér að prentaranum sem var á borðinu.
,,Já.’’
,,Hérna er það,’’ sagði hún og tók upp bunka af blöðum sem voru greinilega nýkomin útúr prentaranum. Efstu blöðin voru ennþá volg eftir gamla prentarann.
,,Þakka þér fyrir.’’ Sagði ég og sneri mér við og gekk aftur inn ganginn og að stofunni. Þegar ég opnaði var bekkurinn orðinn aðeins rólegri, Magga var að tala um Jólafríið sem við vorum að fara í og hvernig námsefnið yri eftir áramót. Allir voru spenntir fyrir því umræðu efni og voru nógu viljugir að hlusta til að vera ekki með hávaða og læti.
,,Gerðu svo vel, Magga.’’ Sagði ég og rétti henni bunkann af blöðunum og sneri mér svo aftur í sætið mitt, aftast auðvitað.
,,Þakka þér fyrir, Hrefna.’’ Sagði hún en ég greindi trega í rödd hennar. ,,Eins og ég var að segja þá verðið þið að skila ritgerð eftir jól og verið viss um að leita vel að heimildum. Ég veit að þið eruð öll voða spennt fyrir jólafríinu og fá að sofa út en þið verðið að læra eitthvað. Það verður foreldrasýning á miðvikudaginn þar sem foreldrar koma og skoða verk krakkana þessa önn en svo farið þið heim í jólfrí…’’ og svona hélt Magga áfram að tala en ég vissi allt það sem hún sagði, hún hafði þegar sagt öllum það en var að brýna þetta fyrir þeim aftur og aftur. Samt voru alltaf einhverjar nýjar upplýsingar inná milli sem maður ætti kannski að fylgjast með.
Þetta var síðasti tíminn og um leið og bjallann hringdi urðu hávaði og læti aftur yfirráðandi í bekknum þegar verið var að pakka niður i töskur, setja stólana undir borð og tala við vini sína.
Ég gekk útúr stofunni og gekk áleiðis heim. Það var lengra heim til mín en flestra sem voru í þessum skóla. Ég gekk leiðina á 20 mínútum og þurfti að taka marga króka. Mér þótti best að fara í gegnum skítuga almenningsgarðinn sem enginn er í. Þá þyrfti ég ekki að mæta forvitnum augum.
Snjórinn var djúpur og kaldur og umvafði allt í kring. Hvítt var allsráðandi og ég féll vel inní umhverfið eins og ég hefði verið sniðin til að geta falið mit í snjó. Það sást ekki í grænt á nokkrum trjám fyrir hvítu.
Ég gekk þvert í gegnum garðinn eins og vanalega. En þegar ég kom að enda garðsins sá ég að mín venjulega útgönguleið var hulin með stórum snjóskafli sem hafði verið ýtt af götunni hinum megin við stórt grindverkið. Það var vanalega gat á grindverkinu þarna svo ég gæti smogið mér í gegn.
Ég leit í kringum mig til að athuga hvort það væri eitthvað fólk þar og svo á veginn til að athuga umferðina á þessari smágötu. Það var enginní kring.
Ég beindi hendi minni að skaflanum og fann samstundis orku flæða um mig þegar ég tók inn orkuna sem fylgdi snjónum, sem stjórnaði honum. Með örlitlum hreyfingum ruddi ég leiðina þar til það var komið gat í gegnum skaflinn sem ég gat auðveldlega gengið í gegnum. Ég leyfði hendinni að detta niður og leit í kringum mig enn aftur til að vera viss um að enginn hafi séð þetta. Síðan gekk ég í gegnum holun í snjóskaflinum
Allt síðan ég mundi eftir mér hafði ég haft þennan mátt, að geta stjórnað hlutum í kringum mig. Þannig séð. Ég var búin að finna út hvaða efnum ég stjórnaði og það voru þessi típísku efni, loft, vatn, jörð og eldur. Ég þekkti ekki neinn með slíkan mátt en það var ekki tilviljun að ég var með þennan mátt, það hlaut að vera einhver orsök fyrir þessu.
Ég hef alltaf passað mig að sýna ekki nokkrum manni hvað ég get. Það væri hættulegt og ég væri mjög líklega gerð að tilraunadýri í þágu vísindana og ég hef ekki áhuga á því. Jafnvel mamma mín veit ekki hvað ég get. Hún varð auðvitað vör við þetta þegar ég var á þeim aldri að ég gat ekki stjórnað gerðum mínum. Ég lét vatnið í baðinum mínu gufa upp þegar hún reyndi að þrífa mig. Ég poppaði popp í hendi minni og ég þurrkaði hárið á mér með vindinum einum saman.
Mamma heldur að þetta sé horfið, að ég geti þetta ekki lengur en þegar ég var aðeins 4 ára var ég komin með vit á því að halda hæfileika mínum útaf fyrir mig. Jafnvel mamma má ekki vita af því.
En auðvitað er mamma líka taugaóstyrk í kringum mig. Allir eru það. Hún vildi senda mig til sálfræðings eða geðlæknis en ég streittist á móti því mér líkaði ekki að láta fólk stjórna mér. Mér var meinilla við það.
,,Hrefna?’’ kallaði mamma fram úr bílskúrnum þegar ég opnaði útidyrahurðina. Ég gekk inn í bílskúr og þar sat hún og reykti með palldyrnar opnar. Það var ógeðsleg lykt þarna inni, afrakstur af 15 árum reykinga í þessum skúr.
,,Hvað?’’ spurði ég, algjörlega laus við alla forvitni.
,,Við þurfum að tala.’’ Sagði hún alvarlega og benti á litla, óþægilega stólinn við hlið sér. Ég settist þar og beið eftir því að mamma myndi byrja að tala. Hún átti erfitt með að byrja, eins og hún héldi að hvað sem hún myndi segja gæti komið mér í uppnám. Það voru fáir hlutir sem komu mér í uppnám.
Ég virti hana fyrir mér, það voru baugar undir bláu augum hennar, svo ólíkum mínum, þau voru dekkri og hlýlegri. Músarbrúnt hár hennar hékk líflaus niður á axlir og húð hennar var eins og gegnsæ. Hún var veikluleg. Hún hafði greinilega ekki fengið mikinn svefn í nótt.
,,Sjáðu til Hrefna…’’ byrjaði hún en þagnaði svo og beit í vörina en forðaðist að líta á mig. Ég beið. ,,Sjáðu til,’’ endurtók hún er hún gerði aðra tilraun. ,,Vinnan sem ég er í núna er ekki vel borguð og þú veist það,’’ sagði hún varfærnislega og gaut augum á mig. Já, ég vissi það, hún vann sem gönguliði í skóla á skítalaunum. ,,Og þú veist að ég menntaði mig til að verða kennari.’’ Sagði hún. Já, ég vissi það líka. Mamma tók djúpt andann áður en hún byrjaði aftur. ,,Mér var boðin vinna á Sauðárkróki sem kennari í stærðfræði og það er draumastarfið mitt, ég á að kenna 10. bekk stærðfræði! Og þetta er yndislegur staður með frábærum skóla og góðum tónlistarskóla fyrir þig og… og… félagslífið þarna hef ég heyrt að sé fínt. Og… og… við erum að flytja þangað eftir áramót.’’ Ruddi mamma útúr sér.
Ég starði á hana og beið eftir því að hún segði eitthvað meira en hún sagði ekki neitt, en fylgdist með viðbrögðum mínum.
,,Allt í lagi.’’ Sagði ég og horfði á hana. Ég hélt að hún þekkti mig betur en þetta, að hún skyldi halda að þetta myndi koma mér í uppnám. Mamma starði á mig og skildi ekki viðbrögð mín. Það var fáum sinnum sem hún skildi viðbrögð mín.
,,Hvað þá?’’ spurði hún og rödd hennar var full af undrun.
,,Allt í lag,’’ endurtók ég eins hægt og ég gat svo hún gæti tekið það inn. Hún starði á mig en svo helltist léttirinn yfir hana og hún brosti til mín, enn að halda í vonina að ég myndi brosa. Ég brosti ekki en ég kinkaði kolli, stóð upp og gekk inní herbergið mitt.
Herbergið mitt var í þægilegri stærð. Ekki of stórt og ekki of lítið. Það var einn gluggi sem náði næstum alveg yfir einn vegginn. Á móti glugganum var rúmið mitt og síðan kommóða bakvið það.
Það var skrifborð rétt hjá glugganum, dökkur viður og það eina sem var á því var skóladótið mitt. Við hliðina á skrifborðinu var fiðlan mín stillt upp, eins og ég hafði skilið hana eftir í gær. Við vegginn á móti skrifborðinu var stór leðursófi.
Parketið var dökkt og veggirnir voru rauðir.
Ég gekk að fiðlunni minni og tók hana upp, stillti henni upp og dróg bogann yfir strengina. Tær hljómur rómaði um herbergið en breyttist smám saman í flóknara verk með mörgum nótum. Tónlistin virtist smjúga í gegnum allt í herberginu og mýkja það upp. Ég lokaði augunum og leyfði tónlistinni að streyma fram ósjálfrátt.
Allt í lagi, það eru undantekningar undan tilfinningaleysinu. Þegar ég hlusta á tónlist finn ég eitthvað sem mér skilst að sé gleði. Það var unaðslegt að finna eitthvað. En það gat ekki bara verið hvaða tónlist sem er, það varð að vera klassísk tónlist, eins og með Beethoven eða Mozart.
Ég uppgötvaði þetta þegar ég var 8 ára. Mamma var búin að reyna allt til að vekja áhuga minn en aldrei fann hún neitt. Hún sendi mig í fimleika, hún sendi mig í fótbolta, körfubolta. Hún sendi mig meira að segja í jóga en ekkert virkaði. Eitt skiptið sem við fórum heim til afa í heimsókn sá ég nýtt píanó inní stofu. Ég skoðaði nótublöðin og þetta var allt skiljanlegt einhvernveginn, jafnvel þótt ég hafði aldrei á ævi minni lært að lesa nótur. Svo ég settist á bekkinn og byrjaði að spila verkið.
Mamma heyrði auðvitað í mér og datt þá fyrst í hug að leyfa mér að æfa á hljómfæri. Ég byrjaði á píanói en víkkaði síðan tónlistarsvið mitt og byrjaði líka að æfa á fiðlu. Ég kunni líka á flautu og gítar en mér fannst hljómurinn frá þeim ekki eins hrífandi, ekki eins mjúkur.
Ég andvarpaði og leyfði síðasta hljómnum að dofna og hverfa. Tómið inní mér kom aftur og ég lagði fiðluna frá mér. Síðan settist ég í sófann minn og starði bara útum gluggann minn. Ég var með útsýni yfir garðinn sem var hvítur á stundinni og huldi allt en á sumrin verður hann grænn og blómin blómstra. En ég yrði ekki hérna næsta sumar. Ég yrði á Sauðárkróki, í nýju húsi, í nýju herbergi, í nýjum skóla. Ég hafði aldrei flutt á ævi minni þannig ég vissi ekki hvernig það yrði, hvort ég myndi finna einhverja tilfinningu eða hvort ég myndi verða eins tóm og alltaf.
Ég lék mér með fingrunum, án þess einu sinni að taka eftir hvað ég var að gera. Lítill eldur kitlaði fingur mína, volgir og villtir. Ég lék mér að minnka hann og stækka hann, fylgdist með orku hans minnka og aukast. Því meiri orku sem ég lét í hann því óviðráðanlegri varð hann. Ég leyfði eldinum aðeins að stækka svo hann varð eins stór og lófi minn og meira svo hann varð á stærð við fótbolta og ég þurfti báðar hendur fyrir orkuna. En síðan leyfði ég orkunni að þverra í burtu og eldurinn sloknaði á svistundu. Eldurinn var eins og brenndur í augu mín, birta hans var svo mikil.
‘’Afhverju gat ég gert þetta?’’ spurði ég mig sjálfa stundum en fann aldrei svar.


Svo ég gat ekki haldið mig frá því yfirnáttúrulega =D
Endilega segja mér hvað ykkur finnst um þessa nýju framhaldssögu =)
The word ‘politics’ is derived from the word ‘poly’, meaning ‘many’, and the word ‘ticks’, meaning ‘blood sucking parasites’.