Ég stekk yfir fimlega yfir girðinguna og lendi léttur í grænu, votu grasinu fyrir neðan mig. Ég held áfram að hlaupa, hleyp eins hratt og ég get undan Ógninni. Ógnin eltir mig, hvert sem ég fer, hún er næstum því alltaf hjá mér, hún er minn versti óvinur en á sama tíma er hún minn besti vinur. Ógninni er ekki hægt að lýsa, ímyndaðu þér bara dauðann bara miklu, miklu stærri, meiri og mikilfenglegri. Ógnin má ekki ná mér. Ég veit ekki hvað myndi gerast ef hún myndi ná mér, það hefur aldrei komið fyrir en ég veit að það væri ekkert gott. Í eitt skiptið var hún næstum því búinn að ná mér, munaði alls ekki miklu, ein til tvær sekúndur lengur í Gryllunni og hún hefði náð mér. Þá datt ég allt í einu út úr Gryllunni, man ekki af hverju. Gryllan er besti staður í heimi en einnig sá versti. Það best við hana er það að hér geta allir þínir draumar ræst, sama hversu villtir sem þeir eru. Það versta við Gryllunna er að ég ræð ekkert hvenær ég fer úr eða kem í hana og hér býr Ógnin, þannig ég get ekki tryggt mér aðra örugga og þægilega undankomu aftur undan henni. Ég held áfram að hlaupa á harðahlaupum eftir grasinu og reyni að hunsa sólina sem reynir hvað hún getur til að blinda mig.

Ég tek eftir því að grasið er byrjað að breyta um lit, það er að fara úr fallega dökkgrænu yfir í ljós, ljós bleikan með glansandi yfirbragði. Grasið lítur núna út eins og það væri búið að leggja bleika pardusinn á það, fletja hann út og spreyja hárspreyi á hann. Allt í einu rek ég augun í stóran klett sem er ekkert svo langt frá mér, kannski 6-700 metra. Ég verð að komast að honum, þá get ég kannski flúið frá Ógninni. Ég tek upp stóra sprautu úr hægri buxnavasanum mínum, sem er skrítið þar sem ég var ekki í neinum buxum. Hún er full af grænleitum vökva sem ég kannast ekki við, ég meina, ekki setti ég sprautuna í vasann. Ég kippi lokinu af nálinni og fleygi því aftur fyrir mig á meðan ég hleyp eins hratt og ég get. Ég sting nálinni nokkra sentímetra inn í ósæðina. Ég finn hvernig vökvinn græni flæðir um alla hendina og ég fæ allan minn kraft sem ég hafði eytt á hlaupunum, þrjátíu-faldann til baka. Ég tek á harðasprett og, vá, þetta er það hraðasta sem ég hef nokkurn tíma hlaupið.

Ég sé að kletturinn nálgast óðum og breytir um lit í hverju skrefi sem ég tek. Ég finn hvernig vindurinn leikur við hárið mitt, svo hættir það…hárið mitt er horfið! Andskotinn! Jæja…vonandi vex á mig hanakambur næst, helst grænn. Þegar ég kem að klettnum er hann orðinn græn-og appelsínugulsköflóttur og fallegur. Ég fer upp fyrstu metrana á handahlaupum og tek svo tvöfalt heljarstökk upp á toppinn á klettnum. Nú er ég loksins kominn upp á klettinn, ætli ég fari ekki að losna úr Gryllunni? Ég lít til baka þaðan sem ég kom hlaupandi áðan, ekkert. Grasið glansar enn en Ógnin er horfin, sé hana hvergi. Ég finn hvar eitthvað hart lendir á höfðinu mínu. Einstaklega vont, ég gríp um staðinn þar sem hluturinn lenti. Það er blóð á fingrunum og ég finn að nokkurra sentímetra skurður hefur myndast þvert yfir höfuðið á mér. Andskotinn! Ég sem ætlaði að fara í höfuðleðursmyndatöku á morgun. Jæja, ég læt þá bara smá rúðupiss á þetta í kvöld. Ég tek upp fyrirbærið sem lenti á höfðinu mínu, þetta er geisladiskur. Á honum stendur, Ég er hérna enn! Ég lít í aust-vestur. Andskotinn! Þarna sé ég Ógnina. Hún glottir til mín eins og mamma glotti til mín þegar hún vissi að ég hafði stolið fölsku tönnunum hennar ömmu á fimm ára afmælinu mínu.

Ógnin stendur þarna í aust-vestri rétt undir sólinni. Sólin og Ógnin hjálpast að við að gera mikilfenglegan skugga af henni á sem speglast skemmtilega á rauðu vatninu við hliðina á henni. Hún öskrar. Öskrin frá Ógninni er eitthvað sem enginn vill lenda í, en ég, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, þarf að lenda í því nokkuð reglulega. Ég gríp fyrir eyrun en finn þá að ég þarf þess ekki því á eyrunum mínum eru núna loðin eyrnaskjól, skrítið, alveg eins og ég fékk í fimm ára afmælisgjöf frá ömmu. Gott, þá þarf ég ekki að heyra öskrin. Ég ætla að hlaupa niður klettinn en kletturinn er ekki lengur bara steinn. Á klettinum liggur núna alveg frosinn snjór, það glampar á hann og ég sé að hann er greinilega mjög sleipur. Ekki ætla ég að hlaupa þarna niður. Ég tek því stóran svartan ruslapoka úr erminni á síðermabolnum mínum, sest á hann og renni mér niður. Ferðin tók stuttan tíma enda brekkan ekki ýkja löng. Ég lendi í grasinu fyrir neðan mig með hörðum dynk, harðari en ég hafði búist við. Ég hristi höfuðið og reyni að ná áttum aftur. Mér bregður þegar ég lít upp, fyrir ofan mig stendur Ógnin. Hún er miklu stærri og ógnvænlegri en ég hafði búist við svona í návígi. Hún öskrar hátt og í þetta skiptið gera eyrnaskjólin ekkert gagn. Ég öskra og gríp fyrir eyrun, ég held að allt þar inni hafi sprungið. Ógnin beygir sig niður og lítur á mig. Ég stari inn í kolbikasvört augun hennar. Hún horfir á mig til baka og mér finnst ég greina illsku en þrátt fyrir allt, virðingu í augum hennar. Hún öskrar aftur, ég heyri ekki neitt í þetta skiptið, í staðinn lekur grænn og rauður vökvi út úr eyrunum mínum. Ógnin opnar munninn og færir sig nær mér, núna ætlar hún að borða mig, ég veit það. Það glampar á stóru, hvítu oddhvössu tennurnar sem hún er með, allar sex. Hún er komin alveg upp að mér og ég finn fyrir andardrætti hennar á nefinu mínu.

Allt svart!

Bíp…bíp…Bíp…bíp…BÍP…Bíp…Bíp.

Hjartalínuritið verður reglulegra. Ég opna augun og lít í kringum mig. Ég er inni í einhverju stóru, hvítu herbergi. Veggirnir eru alveg hvítir, og aðeins einn lítill gluggi er þarna inni. Ég lít niður á sjálfan mig. Ég ligg í asnalegu rúmi í hvítum fötum með hvíta sæng utan um mig. Stór slanga stendur upp úr mér, hvað í…? Við hliðina á mér situr Ásta í brúnum, litlum og auljóslega óþægilegum stól og strýkur á mér ennið. ,,Hva, vaknaður?” segir hún ljúflega til mín. Ég reyni að brosa en brosið kemur hálfdauft fram á varirnar. ,,Þetta,” segir hún og bendir á gamlan mann í hvítum slopp, ,,er Dr. Rúnar. Dr. Rúnar er læknir hér á spítalanum. Hann er búinn að dæla öllum viðbjóðnum upp úr þér og hann ætlar að sjá til þess að þú notir aldrei heilt pilluspjald aftur, hann lofaði mér því. Þú þarft ekki að óttast Ógnina lengur.” Ég gat ekki annað en brosað.