Matarboð
Mamma stendur við stofudyrnar og horfir á okkur. Ég sit út í horni, glerþunnur enda var tekið stíft á því í gærkvöldi. Amma og Hlalla stóra sitja í sófanum og rífast yfir sjónvarpsdagskránni og hundaeign borgarbúa. Ástrós systir mín, sem situr á milli þeirra, horfir á mig og ranghvolfir í sér augunum. Ég brosi til baka, veit upp á hár hvað hún er að hugsa. Við, þrátt fyrir átta ára aldursmun, erum nokkurn veginn alveg eins.
-Gjörið svo vel. Maturinn er kominn á borðið, segir mamma.
Við stöndum á fætur. Á matarborðinu flatmagar kalkúnn, eflaust dauðþreyttur eftir langt sólbað inni í ofni. Mamma hefur skreytt borðið í kringum hann með skálum hlaðnar misjafnlega geðfelldu meðlæti. Pabbi stendur við annan enda borðsins og strýkur yfir sveittan, glansandi skallann. Hann horfir brosandi á okkur setjast og ég veit að hann getur ekki beðið eftir því að byrja.
-Hérna, eigum við ekki að drekka með matnum?, spyr ég.
-Æ, gleymdi ég gosinu. Ástrós, hlauptu fyrir mig inn í eldhús og náðu í það, segir pabbi.
Sko, hugsa ég, hann getur ekki beðið eftir því að byrja. Pabbi ræðst á kalkúninn með 18 cm steikarhnífnum sínum og gengur úr skugga um að hann sé dauður. Þar sem kalkúnninn veitir pabba ekki viðnám öndum við hin léttar. Ástrós kemur innan úr eldhúsinu með gosið. Ég er fljótur að hrifsa kókflösku af henni og fylli glasið mitt. Síðan teyga ég það. Við slæmri þynnku er best að fá sér ískaldan bjór, -en ef að í harðbakkann slær, það er ef bjórinn er búinn eða maður er staddur í matarboði þar sem ekki er boðið upp á bjór er ískalt kók næstbest. Ég finn hvernig það rennur niður í maga og ferskur hrollur fer um líkaman allan. Ávallt Coca-Cola!!! Svo hefst átveislan.
-Mér finnst nú bara best að horfa á Skjá einn, segir Hlalla stóra. Þær systur, hún og amma, eru greinilega enn að rífast. Þær eru tvíburar. Ég þekki engar aðrar manneksjur sem geta rifist yfir tveimur ólíkum hlutum, ekki verið að hlusta á hvor aðra, svona rétt eins og þær séu að tala við sjálfa sig en samt halda þær áfram og áfram.
-Þar eru nefnilega svo skemmtilegir þættir, ekki þetta endalausa blóð og kelerí sem er á hinum stöðvunum, segir Hlalla.
-Svo gera þessir rakkar bara hvar sem er og ekki nenna eigendurnir að hreinsa upp eftir þá, nei, bætir amma við.
Pabbi horfir á þær og mér sýnist hann vera reyna að ná einhverju taki á því sem þær eru að tala um. En það er eins og reyna á ná taki á klaka með flísatöng, gjörsamlega ómögulegt. Hann horfir á mig.
-Varstu að skemmta þér í gær?, spyr hann.
-Já,-eða nei. Í rauninni ekki, Við Siggi fórum og fengum okkur einn bjór. Svona rétt til að kíkja á mannlífið
-Jæja, já.
Ég veit að hann skilur hvað ég var að segja. Við eigum okkur svona gagnkvæman skilning. Hann veit vel að einn bjór er alltaf í fleirtölu og að við Siggi höfum engan áhuga á því hvernig aðrir karlmenn skemmta sér, það er aðallega kvenfólkið sem við vorum að kíkja á.
-Júdíamý og súruvís eru til dæmis mjög góðir þættir, segir Hlalla stóra við ömmu. Við hin þögnum og horfum á Hlöllu.
-Hvaða þættir eru það?, spyr mamma.
-Á Skjá einum.
-Það á að banna hundaeign í Reykjavík alfarið segi ég, skýtur amma inn í.
Við Ástrós horfum hvort á annað. Botnum hvorki upp né niður, fram eða tilbaka í því sem hún er að tala um. Ef það er eitthvað sem þær systur geta ekki þá er það að tala ensku, eða önnur erlend tungumál ef því er að skipta.
-What did you do last night?, spyr ég hana.
-I went to see my friend Jane.
-Oh, where is she staying?
-At the…uuu, ferfáulshóm.
-Ha!
-Æi, þú veist, farfuglaheimilinu.
Það hrekkur ofan í mig. Ég verð allur rauður í framan og er að kafna úr hlátri í bókstaflegri merkingu. En loksins dettur bitinn rétta leið og ég næ aftur andanum.
-Já, eins og ég var að segja þá er Júdíamí um kvenkynsdómara í henni Ameríku og Súruvís svona útileguþáttur, segir Hlalla við mömmu. Um leið kveiki ég loks á teljósi í þessu endalausa Surtshelli sem höfuðið á mér er í dag.
-…og hvað heldurðu að hafi gerst svo? Hann sagði að það væri leyfilegt að eiga Rottweiler á Íslandi.
Ætli einhver sé að hlusta á ömmu, hugsa ég. Hún getur haldið áfram endalaust og ég hef oft velt því fyrir mér hvort að hún haldi áfram þegar hún er komin heim til sín. Ég kæri mig kollóttan og sköllóttan. Held bara áfram að borða.
Amma heldur áfram að tuða. Hún situr og rótar í matnum á disknum fyrir framan hana. Hún er í fölbleikri ullardragt. Hlalla er aftur á móti í einkennisbúning kvenna á áttræðisaldri. Hvítri blússu og víðu, svörtu pilsi sem nær niður að ökklum. Merkilegt hve þetta hallærislegur fatnaður hefur náð gríðarlegri útbreiðslu meðal hennar aldurshóps. Það er sama hvert maður fer, sama í hvaða fjölskylduboð eða veislu, hvar sem gamalt fólk er þar er einhver kona í þessum búningi.
Þegar allir eru búnir að borða kveikir pabbi sér í sígarettu. Amma og Hlalla halda áfram að kappræða hvor ofan í aðra, við mamma og Ástrós ræðum um hvaða menntaskóli sé bestur.
-Ég er með lungnakrabbamein, segir pabbi lágt. .
Það þagna allir.
Einhver staðar inni í mér fer allt af stað. Ég rýk á fætur og þýt inn á klósett. Þar flýgur kalkúnninn út úr mér, eflaust í eina skiptið sem sá fugl flaug.