Lífið í sjávarþorpinu var vesældarlegt, sjórinn var lífæðin og það sem allt snerist um. Allir menn reru til sjávar og konurnar börðust við að halda kotinu á réttum kili. Þeir sem sökum aldurs, eða heilsu, gátu ekki róið sneru sér að kennslu eða preststörfum. Þetta var allt og sumt, ekki mikið í þetta líf spunnið enda ekki rými fyrir fleira. Einhvernvegin varð fólk að lifa og til þess að halda lífinu varð fólk að vinna. En stundum var það ekki nóg.
Unnur Rún hafði verið hér alla sína tíð. Frá því að hún gat gengið var hún skoppandi út um allt þorpið. Hún var alltaf þar sem allt var að gerast, lærði strax öll mikilvæg handtök og það var ekkert sem gat haldið aftur af henni þar sem hún hrærðist í þessu litla samfélagi. Hún nýtti lífið og það sem það hafði upp á að bjóða til hins ýtrasta. En það komu stundir þar sem fábrotið líf sjáfarþorpsins var ekki nóg. Hún vissi að þetta var ekki allt, hún vissi að það beið hennar svo miklu meira úti í heiminum. En hún hafði samt aldrei getað fengið sig til að yfirgefa þorpið. Það var henni einfaldlega of kært, fábrotið en kærleiksríkt lífið var eftir alltsaman allt sem hún hafði og það eina sem hún hafði í raun og veru kynnst. Á slíkum stundum sótti hún styrk sinn í hafið. Frá því að hún var lítil telpa hafði hún heillast af undirdjúpunum. Lífið hafði vissulega alla tíð snúist um sjó og sjómennsku og fisk, en þegar hún leit út á hafið sá hún miklu meira en bara lífæðina, sjóinn fullan af fisk. Það var eitthvað svo miklu meira þarna úti. Hún gekk ávallt eftir höfninni og út á bryggjuna til að fylgjast með briminu og öldunum og til þess að leyfa hafinu að fylla sig af lífskrafti og löngun til að halda áfram þaðan sem frá var horfið.
Þessa stundina sóttu á hana áhyggjur af sótthita móður hennar. Hún hafði legið fyrir í vel á aðra viku núna. Faðir hennar var á sjó og var hún því ein eftir með systur sínar tvær. Heppilega héldu þau ekki stórt og mikið bú en kotið þeirra krafðist þó vinnu og móðir þeirra umönnunar. Alma gat nú eitthvað hjálpað enda orðin stálpuð stúlka, en Júlíu litlu var ekki margt innan seilingar þó að glöð vildi hún hjálpa. Hún var viss um að stelpurnar væru hræddar, hún var það sjálf. Skelkuð inn að hjartarótum um að nú yrði móðir þeirra tekin og hvað myndu þær gera þá.
“Brimbrún, Brimrún!” Henni var kippt frá hugsunum sínum af köllunum í Júlíu litlu. “Brimrún þú verður að koma,” bunaði Júlía út úr sér. “Hún, hún skelfur öll og Alma sagði mér að…” “Komdu, snögg.,” greip Unnur fram í fyrir henni. Hún greip í litlu höndina hennar Júlíu og hraðaði sér eftir bryggjunni og beinustu leið heim. Litla höndin var ísköld, ekki ólíklegt að hún væri í losti, litla grey. “Þetta verður allt í lagi Júlía mín,” lofaði hún og brosti hughreystandi að saklausu andlitinu. Hún æddi upp aðalveginn, inn litlu götuna og inn í litla húsið. “Lofaðu mér að hugsa fallega ástin mín,” sagði hún að lokum við Júlíu áður en hún gekk inn í svefnherbergið til móður þeirra.
Hún settist á stól við rúmið og tók í höndina á móður sinni um leið og hún leit upp á Ölmu. “Ég hugsa að þetta hafi verið hitakrampi,” sagði hún titrandi röddu. “Henni fer sífellt versnandi.” áhyggjur undirlögðu fallegt andlitið og skelfing og örvænting skein úr augum hennar. Unnur leit niður á rúmið, grannvaxinn líkami móður hennar var sokkinn niður í rúmið. Svitinn spratt sífellt fram á náfölu andlitinu. Hún vissi að það var ekki mikið eftir. “Komdu vinan,” sagði hún rólega um leið og hún steig upp úr stólnum og rétti út höndina eftir Ölmu. Þær gengu saman út úr herberginu og inn í stofuna þar sem Júlía litla sat flötum beinum á gólfinu og handfjatlaði litla brúðu, hún spratt strax á fætur þegar þær gengu inn í stofuna. “Nú skulum við hátta elskurnar,” sagði Unnur. Þegar allir voru háttaðir og komnir upp í rúm settist hún á gólfið hjá þeim og tók í hendurnar þeirra. “Mamma verður alltaf veikari og veikari, við vitum það allar. En jafnvel þó Guð taki hana til sín þurfum við ekki að vera hræddar,” sagði hún þýðum rómi, hún varð einfaldlega að róa stúlkurnar og undirbúa þær fyrir það sem koma skyldi. Eins og hún þráði að svífa á vegum skýjanna og dansa við öldurnar kom að því að hún varð að stíga niður fæti á jörðinni. Stúlknanna vegna. “Við verðum aldrei einar, hún mun aldrei yfirgefa okkur.” Þessum orðum beindi hún að Júlíu litlu. “Og við eigum svo marga góða að,” bætti hún við og leit á Ölmu. Röddin brast, hún vissi ekki hvort hún var að sannfæra sjálfa sig eða þær. “Það er betra hennar vegna að fá að fara til Guðs en að þjást hérna hjá okkur og við megum ekki vera sjálfselskar.” Hún stóð upp og leit á stúlkurnar tárvotum augum, þær myndu jafna sig þó sorgin nísti í gegnum merg og bein þessa stundina. “Góða nótt elskurnar,” sagði hún um leið og hún gekk út úr herberginu.
Þar sem hún gekk eftir ganginum og inn til móður sinnar fann hún hræðsluna heltaka sig. Hún lagði kalda bakstra á enni móður sinnar og settist svo við rúmið og hélt í höndina hennar. Hún vissi bara ekki hvað annað hún átti að gera, hún var einfaldlega svo hrædd. Hún var engan veginn manneskja í að halda heimili með þeim hætti sem móðir hennar hafði gert alla tíð, tárin runnu niður eftir vöngum hennar þar sem hún sat þarna í myrkrinu. Hún gat kannski hugreyst stúlkurnar en hver átti að hughreysta föður hennar eða hana sjálfa. Það voru svo mörg handtök sem henni voru ekki töm. Hugurinn reikaði aftur að þeim tíma þegar hún var lítil, áður en Alma kom til sögunnar.
Hún vildi alltaf helst vera með föður sínum niðri við sjó, hún heillaðist við fyrstu sýn. Einhverju sinni komu þau feðgin heim úr fjörugöngu og var móðir þeirra þá tilbúin með mat. Við matarborðið hafði hún spunnið uppúr sér lita sögu um hvítar dísir sem dönsuðu á sjónum. Þetta var daginn sem hún heillaðist af briminu en vissi ekki hvað það hét. Móður hennar hafði fundist það svo sniðugt að hún tók upp á því að kalla hana litlu Brimrúnu sína, og nafnið síðan fests við hana. Það átti svo vel við og henni fannst það notalegt.
~ • ~
Unnur steig út úr húsinu og vafði um sig sjalinu. Förinni var heitið niður að höfn, skipstjórinn sem faðir hennar hafði siglt hjá sagði að hún myndi alltaf eiga inni hjá þeim nægan fisk. Eins og nú var í stakkinn búið veitti ekki af því. Hún vissi að fólkið var að tala um hana, allir höfðu skoðun á þessari sorgarsögu. Hún heyrði það hvískra á bakvið sig, fylgjast með hverju skrefi, menn jafnvel signdu sig ef hún gekk hjá og biðu þess að hún tæki feilspor. Það var ekki eins og hún hefði ekki átt von á því að þetta yrði erfitt, hún vissi varla hvernig hún myndi lifa án móður sinnar og þráði bara og beið þeirrar stundar er faðir hennar kæmi í land. En hann kom aldrei. Hún hafði aldrei vitað til þess að lífið gæti orðið svona kalt, það nísti inn að hjartastað, það var allt svo þungt og tómt. Hvernig þetta mátti vera fékk hún ekki skilið.
Hún fór með fiskinn heim en fór svo strax niður á bryggjuna. Stelpurnar voru hjá Sigrúnu sem bjó í næsta húsi. Sigrún hafði alltaf verið þeim góð og á því varð engin undantekning. Unnur vissi til þess að Sigrún átti það til að svara þorpsbúum fullum hálsi ef þeir hættu sér í eitthvað hvískur þegar hún var nærri. “Brimrún, elskan, við stöndum í þessu saman,” sagði hún gjarnan. “Lífið má ekki brjóta gullmolana okkar niður, þá missir það þokkann.” Svona nokkuð átti Sigrún til að segja til að halda lífinu í okkur öllum.
Allt í einu stóð hún á enda bryggjunnar og horfði út á hafið. Þvílíkur léttir, hún lét fallast á bryggjubrúnina. Öldurnar sóttu í sífellu í sig veðrið og réðust að strandlínunni, fífldjarft brimið skall með látum á bjarginu. Ógnvekjandi, blákaldur kraftur hafsins ólgaði undir niðri, en á sama tíma var það verndari hennar og umlukti hana mjúklega. Allar áhyggjur eða byrgðir fuku út í veður og vind þegar hún sat hér. Sjórinn var sem langþráður elskhugi sem barðist við að koma til hennar. Hún heyrði hann kalla. “Brim-rún, Brim-rún.” Hún var hans og hafði alltaf verið það, hún vissi það. Hún steig niður af bryggjunni og gekk um í fjörunni. Kom sífellt nær og nær, því nær sem hún komst því afslappaðri varð hún. Hann tók allt erfiðið og gleypti það í sig. “Brim-rún, Brim-rún.” Hún fann hann snerta fætur hennar, blítt en ákveðið í senn. Hún fann þrána yfirtaka sig og hún fór sífellt nær og nær og fann hann loks umlykja sig alla. Stingandi sár en yfirþyrmandi sæt tilfinning í senn þar til loks var alsælunni náð. Hún myndi engar áhyggjur hafa framar.
[quote="Elie Wiesel"]"There may be times when we are powerless to prevent injustice, but there must never be a time when we fail to Protest!."[/quote]