Hún er á barmi gjaldþrots. Eða er það bara enn ein geðveilan? Tána kreppir í skóinn. Eða er það kreppan sem gerir skóinn svo smáan? Þessi hála brún sem hún stendur á er þarna einhverstaðar, einhverstaðar í þokunni.
Á meðan ég hlusta á fjölmiðla keppast við að koma orðum að þeirri örvæntingu sem þjóðin hefur fyllst vegna frjáls falls krónunnar, set ég upp skart og sparisvip og spóka mig í bænum. Enginn talar um annað. Þjóðin sem áður virtist svo stöðug, efnuð og sjálfsörugg, hugsar nú aðeins um eitt. Þetta eina sem hún hugsar um er nú varla neitt. Er að verða að engu. Það er það sem gerir hana áhyggjufulla, umræðuefnið er í frjálsu falli.
Ég er nýr leikmaður í leik. Leik sem ég skil ekki enn. Ég er aðeins hlutlaust barn, enn að læra reglurnar. Og nú ætlar mitt lið að missa sjálfstraustið og baráttuviljann. Elstu leikmennirnir eru orðnir háðir reglunum. Þeim þarf að skipta út.
Eftir alla eyðsluna er hún orðin fátæk og einhverra hluta vegna kemur það henni í opna skjöldu. Nú er komin kreppa, nú skal spart farið með peninga. Ég lýt í kringum mig. Allt hér er svo nýtískulegt og smekklegt. Fyrir ofan mig ómar söngur fínna hljóðfæra og útlærðra lögfræðinga. Veisla. Að veislunni liggur framandi hringstigi, úthugsaður af einhverjum arkítektinum. Veggir stigans liggja eins og laus-upprúllaður posastrimill, svona eins og sá sem öllum er boðinn að loknum innkaupum en flestir afþakka. Þessi strimill er þó óvenju langur, enda íburðarmikill. Enginn virðist hafa áhuga á stiganum, ekki frekar en á strimlinum.
Af einskærri forvitni læðist ég upp stigann af mikilli virðingu en voga mér þó ekki upp síðustu fjögur þrepin. Athygli mín dregst að fínu fólki sem stendur þarna í djúpum samræðum. Þau eru bersýnilega vel efnuð, snyrtileg til fara, með uppsett hár og glas í hönd. Þau ræða um kreppuna. Kreppuna sem ógnar þjóðinni, þjóðinni sem er að verða fátæk.
Úti við dyrnar liggur endilangur eftir stéttinni, tískustraumur að vestan, rauður dregill, svo landinn þurfi ekki að stíga fæti í fátæklega forina sem hann er að verða hluti af.
Þetta er mín upplifun á dómsdag íslensku krónunnar. Dómsdag þjóðarinnar, liðsins sem ég spila með. Hála brúnin er fundin en þokunni léttir ekki. Tærnar eru kaldar í kreppunni.
últra arty undirskrift