Þetta er bara smá stykki sett saman í einhverju “þettaerdimmveröld” kasti:)
Ég hef alltaf hatað að bíða eftir hlutum, en svo, algjörlega ósamkvæm sjálfri mér, hata ég þegar hlutirnir gerast of hratt. Mér finnst eins og það hafi verið í gær sem að mamma sótti mig á leikskólann og sagði mér, á ofureinföldu máli, að hún og pabbi myndu ekki vera saman lengur. Mér þótti það svosem enginn hryllingur, mér líkaði aldrei vel við pabba. Hann var alltaf kaldur og fjarlægur og ég elskaði hann einungis því hann var pabbi minn og mér fannst ég knúin til þess. Eftir að hann og mamma skildu hélt hann nokkru sambandi við mig og systur mína, en það dvínaði með tímanum og nú hef ég ekkert heyrt í honum í 40 ár. Þennan afdrifaríka dag sem mamma mín sótti mig á leikskólann var ég 5 ára.
Systir mín er 4 árum eldri en ég. Hún var lögð í mikið einelti í grunnskóla, meðan ég var sú vinsæla. Ég var í íþróttum og æfði á píanó en systir mín var meira fyrir bækurnar og vera bara heima að lesa eða teikna. Þegar hún fór í framhaldsskóla breyttust hlutir hinsvegar til hins betra og hún opnaðist og blómstraði þessi fjögur ár. Hún lærði hönnun og saumar og steypti sér á fullu út í það að námi loknu. Systir mín var mjög heppin, ég komst aldrei í framhaldsskóla á þessum aldri. Mörgum árum seinna kláraði ég stúdentinn og fór í háskóla og lærði lækninn. Mömmu líkaði aldrei vel við það að systir mín væri að vinna við saumar og hönnun, sagði hana geta gert miklu betur. En systir mín lét það ekki á sig fá og varð vinsæl saumakona. Hún giftist ung að aldri, aðeins 22 ára gömul. Við héldum hann öll mjög góðan mann. Seinna kom í ljós að hann beitti hana miklu líkamlegu ofbeldi. Þau voru saman í 3 ár og endaði með dauða hennar. Hann barði hana til dauða.
Ég tók dauða systur minnar mjög nærri mér. Við vorum nánar og bestu vinkonur. Ég vissi allt um hana og hún allt um mig. Mamma varð mikið veik og maðurinn sem hún var með á þessum tíma var drykkfelldur og leiðinlegur. Hann beitti hana þó aldrei ofbeldi, en eitthvað var það því mamma fyrirfór sér ári eftir dauða systur minnar. Ég var 22 ára gömul og alein í heiminum. Ég átti ekki kærasta eða börn, bjó í lítilli sóðalegri íbúð og í illra launaðri vinnu. Ég varð drykkfelld og smám saman fóru allir mínir penginar í áfengi. Á ekki löngum tíma var ég farin út í sterkari efni og næstu fjögur árin voru dimm og ég man lítið frá þeim. Ég gekk of langt til að fá eiturlyf og reyndi tvisvar að fyrirfara mér. Svo, árið sem ég varð 26 ára rann upp fyrir mér ljós. Ég var að sólunda lífi mínu. Ég fór sjálfviljug í meðferð og tók mig virkilega á og er edrú enn í dag.
Eftir þetta tímabil kláraði ég skólann og fékk góða vinnu á spítala. Á meðan á náminu stóð hitti ég indælan mann sem ég varð samstundis ástfangin af. Áður en leið á löngu varð ég ólétt og maðurinn giftist mér. Dóttir mín fæddist aðeins þremur dögum fyrir 31.afmælisdaginn minn. Ég og maðurinn minn fluttum í stærra hús og erum mjög vel stæð í dag.
Elsta dóttir mín er tvítug í dag og trúlofaðist kærastanum sínum fyrir viku síðan. Þau voru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þó svo að ég viti að hún spjari sig get ég ekki annað en fengið sting í hjartað við að sjá hana bera út aleiguna í 4 pappakössum. Hlutirnir gerast svo hratt og ég bið til guðs að halda fast utan um dóttur mína í þessum dimma heimi.