Ég blikkaði augunum og líka litla stelpan í speglinum. Hún virtist einnig hissa, en það var nú vægt til orða tekið. Hún leit út fyrir að vera skelfingu lostin. En þessi litla stelpa í speglinum bara gat ekki verið ég. Það bara gat ekki verið! Ég hristi hausinn svo mjúkt og liðað hár mitt straukst við litla hendi mína. Mér brá og leit niður í lítinn lófa minn. Litlir fingur krepptust í lítinn hnefa svo hnúarnir hvítnuðu og ég tók eftir litlum örum á handarbakinu. Minning skaust í gegnum hugsanir mínar og ég fann örlitla von fara um mig. Kannski hafði ég fengið ósk mína uppfyllta og fengið annað tækifæri í heiminum.
Þetta gat aðeins þýtt eitt. Ég hafði spólað til baka um níu ár og var nú að fara í fyrsta bekk, annað tækifæri til að koma vel fram, annað tækifæri til að knúsa litla kettlinginn minn sem klóraði mig ávallt ef ég tók hann í fangið, en það mikilvægasta, það gaf mér annað tækifæri til að vera með mömmu. Hún var við dauðans dyr í gær – eftir níu ár – og ég hafði beðið um að geta gert þetta upp á nýtt, geta verið lengur með mömmu minni, getað eytt meiri tíma með henni og jafnvel gæti ég bjargað henni ef það kæmi nokkurn tíman að því að hún myndi veikjast núna.
Hún var svo falleg eins og hún hafði alltaf verið áður en sjúkdómurinn tók við stjórnvölina og glaðleg augu hennar höfðu misst stríðnislega glampann sem var alltaf í augum hennar, sami glampi og ég hafði séð í morgun þegar ég vaknaði og brosið sem ég hafði ekki séð í allavega tvö ár var á vörum hennar, þetta glaðlega bros sem náði til augnanna og geislaði jákvæðni og hamingju til allra þeirra sem sáu það. Það var yndislegt að sjá hana standa þarna, með sama þokka og hún hafði alltaf gert og geta séð hana ganga léttstíga um eldhúsið til að taka Hönnu úr fanginu á pabba og knúsa hana að sér.
Ég var komin fram í eldhús aftur og starði stóreyg á pabba minn. Hann var ekki með þunnt hár og lítinn skallablett eins og alltaf, heldur var hann núna með þykkt, skolllitað hár sem var í óreiðu eins og alltaf. Það voru nánast engar hrukkur í andliti hans og hann var grennri og sterkbyggðari en í gær – ég meina eftir níu ár.
Ég hafði líka gleymt hvað það var dásamlegt að heyra hláturinn í Hönnu. Klingjandi hláturinn barst um eldhúsið og litlir spékoppar komu á búttaðar kinnarnar þegar mamma kitlaði hana. Hún var nú þegar komin með mikinn hár brúsk á kollinum sem var út um allt eins og á pabba okkar. Hún hafði hins vegar erft himinblá augun frá mömmu og ég sá sama glampa í þeim.
Síðan heyrði ég mjúkt mjálm og bröndótt kisa stökk upp á stól við hliðina á mér og nuddaði trýninu í litla lófa mína. Hún var smágerð og lipur kisa sem var með alveg ótrúlega falleg græn augu, óvenjulega skærgræn.
Ég þekkti hana strax og tók Díönu í fangið og knúsaði hana að mér. Ég fann lykt af henni eins og væri í gömlum húsum, svona ryklykt en hún var blönduð graslykt, eins og af nýslegnu grasi. Þetta var yndisleg lykt sem ég hafði ekki fundið í 5 ár og andaði henni að mér af áfergju.
,,Ertu spennt fyrir fyrsta skóladaginn þinn?’’ spurði pabbi og horfði brosandi á mig. Ég brosti til baka og kinkaði kolli. Eins gott að nota þetta tækifæri sem mér hafði verið gefið. Eða allavega njóta draumsins ef þetta væri draumur, en ég var handviss um að þetta væri ekki draumur, það var allt of raunverulegt, of kunnuglegt. Það er ekki hægt að dreyma um lykt á kettinum sínum, það ætti ekki að vera hægt.
Alvöru bros breiddist um andlit mitt og ég fann gleðina hríslast um mig. Ég fengi annað tæki færi! Taka tvö á lífi mínu, ég fengi að lagfæra mistök mín og bjarga mömmu! Ég stökk til hennar og vafði höndum um fætur hennar því ég náði ekki hærra. Ég held ég hafi aldrei verið svona glöð á ævi minni!
Mamma hló kitlandi hlátri og beygði sig niður til að faðma mig fastar að sér. Ég fann gamalkunna ilmvatslykt, daufa vanillu lykt og ferska kaffilykt af hári hennar.
Loksins þegar ég gat slitið mig frá armi hennar skoppaði ég inn í herbergið mitt og kveikti ljósið til að sjá gamla herbergið mitt. Það var lítið rúm við hliðina á glugganum með bleikri himnasæng yfir. Lítið, hvítt náttborð var þarna við hliðina á rúminu og á því var bleikur lampi og ein þunn myndabók. Skrifborðið var í hinu horninu á herberginu við hliðina á stórum fataskáp sem var að springa af fötum.
Gluggatjöldin mín voru kunnugleg, síð skreytt bangsamon og vinum hans. Allt það pláss sem eftir var í herberginu fór í þykkar, mjúkar mottur, dúkkuhús og bangsa. Gamla krítataflan mín hékk fyrir ofan skrifborðið og veggirnir í herberginu mínu voru þaktir bæði handgerðum myndum eftir mig og litlum kisumyndum. Myndirnar hengu á daufbleikum veggjum.
Ég horfði yfir herbergið mitt í undrun og pirringi. Ég tók fyrst núna eftir því hvað ég hafði breyst mikið með árunum, ég var ekki lengur sama stelpu-stelpan sem ég hafði alltaf verið. Ég var hætt að ganga í bleiku og herbergið mitt hefði átt að vera hvítt á litinn en þessi bleiki litur var of væminn.
Ég skoðaði skápinn til að finna eitthvað til að fara í. Auðvitað var ekki neitt sem ég hefði vanalega gengið í en ég valdi út grænan stuttermabol sem á stóð ‘’mömmustelpa’’ og litlar gallabuxur sem ég náði að sikta út úr haug af bleikum og rauðum pilsum.
Því næst sneri ég mér að útlitinu, burstaði liðað hárið sem náði niður á mitti og setti það í tagl en leyfði toppnum að vera því hann var ennþá of stuttur til að geta verið í teyjunni. Loks bætti ég við svartri derhúfu sem ég þurfti að þrengja eins mikið og hægt var og þá leið mér aðeins betur með útlitið, ekki alveg eins stelpulegt.
Ég gekk fram í eldhús aftur en núna var mamma inni í herbergi að klæða hana Hönnu fyrir leikskólann. Pabbi starði á mig og ég gat lesið undrum í svip hans við val mitt á fötum en ég brosti bara og hellti morgunkorni í skál.
Seinna var kominn timi til að fara í skólann. Ég tók saman litlu stílabækurnar mínar og bleika pennaveskið og setti það ofan í tösku ásamt öðrum áhöldum sem þurftu í skólann, ótrúlega einfalda hluti. Mamma smurði brauð handa mér – Bananabrauð, uppáhladið mitt – og setti ofan í töskuna mína ásamt svala og einu epli. Pabbi kyssti mig bless og tók litla subaru-inn niður á smíðaverkstæði á meðan ég hoppaði upp í toyotuna hennar mömmu. Þegar ég var búin að koma mér fyrir í framsætinu settist mamma inn en leit undrandi á mig.
,,Magda mín, afhverju siturðu fram í?’’ spurði hún og ég áttaði mig á því að auðvitað átti ég að sitja aftur í, ég hafði sitið þar, þar til ég varð 10 ára, þá fékk ég loksins leyfi til að fara fram í.
,,Fyrirgefðu mamma,’’ sagði ég og roðnaði á meðan ég fór yfir í aftur sætið og sat við hliðina á Hönnu sem var í barnastólnum sínum og horfði forvitin út um gluggann. Mamma myndi taka hana með sér á leikskólann eins og hún hafði alltaf gert, og hafði líka gert við mig áður en ég byrjaði í skólanum – sem var núna.
Allt í einu datt þeirri hugsun niður í kollinn á mér að ég væri að byrja í 1. bekk og það þýddi að ég myndi endurtaka allt námið, allann grunnskólann. Ég myndi byrja í 1. bekk og vera best í bekknum mínum. Ég gæti jafnvel farið marga bekki fram fyrir. En hvað myndi þá gerast? Ef að 6 ára barn væri með 9. bekkingum? Það væri ekki vinsælt en ég gat ekki – ég ætlaði ekki, og ég vildi ekki – taka alla níu bekkina aftur.
Við vorum komin að grunnskólanum. Skólinn var eins og tveggja hæða ormur og sveigðist í eins konar U. Það voru þrjár álmur og hver álma fyrir hvert stig – yngrastig, miðstig, og unglingastig – og ég sem var orðin vön unglingainnganginum þurfti að fara inn um tvöföldu, bleiku dyrnar og ganga inn í fremsta partinn af U-inu. Ég mundi óljóst eftir fyrsta skóladeginum mínum og ég mundi líka eftir spennunni eftir skólanum. En þá tilfiningu vantaði alveg þegar ég gekk í gegnum krakkaskarann, sem virtist innihalda mörg spennt andlit en líka sum hrædd. Mér leið fáránlega að vera í sömu hæð og þessir krakkar því ég leit ennþá á þá sem pínu litla krakka sem gerðu ekki annað en að öskra.
Loks kom ég að nýju stofunni minni sem var opin. Þetta var hlýleg stofa, annað en er í unglingadeildinni, umvafin alls konar litríkum teikningum og jafnvel litlir púðar út í einu horninu á gólfinu við hliðina á bókahillu með dálitlu úrvali af barnabókum.
Kennarinn var að smala krökkunum saman og setja þau í sín sæti en það gekk auðvitað ekki vel. Krakkar sem eru nýbyrjaðir í skóla voru ótamdir, kunnu ekki reglurnar og skildu ekki orðið ‘’næði’’, en á hinn bóginn gat ég ekki sagt að unglinga-deildin vissi merkingu orðsins. Ég þekkti nokkur andlit þarna inn á milli, bara fáein upprunalega andlit. Ég vissi að meirihlutinn í bekknum myndi flytja og bekkurinn myndi verða endurskipaður snobbuðum stelpum sem bjuggust við því að verða sérhöndlaðar bara útaf því þær komu úr höfuðborginni.
Ég hafði ekki fyrir því að fara til kennarans til að spyrja hvar ég ætti að setja, ég settist bara aftast, að vana, og kom mér vel fyrir til að horfa á kennarann gera vonlausar tilraunir til að róa bekkinn. Hún var örvæntingarfull á svipinn og ég þekkti hana strax. Þetta var Jenna, kennari sem hafði fylgt bekknum frá 1. bekk og upp í 4. bekk. Hún var góðlind og átti erfitt með það að vera ströng.
Jenna leit upp á mig og undrunar svipur breyddist yfir andlit hennar þegar hún tók eftir eina barninu sem var ekki hlaupandi upp, hlæjandi og öskrandi. Hún deplaði augunum en sneri sér svo aftur að bekknum.
Eftir 5 mínútur í viðbót af þessu fékk hún loks krakkana í sætin með loforði um að allir fengu sleikjó ef þeir settust í sætin. Það myndi duga í nokkurn tíma.
,,Jæja, ef allir eru komnir í sætin sín þá vil ég byrja með nafnakalli,’’ sagði hún og settist loksins niður við skrifborðið.
,,Hvað er nafnakall?’’ spurði einn strákurinn í fremstu röð sem ég mundi óljóst eftir því að hann hét Bárður.
,,Þá kalla ég nöfnin ykkar og þið svarið til að láta vita að þið séuð hérna,’’ sagði Jenna og brosti hlýlega til hans. ,,Annars veit maður ekki hvort þú sért kominn í skólann.’’
Hún kallaði nöfnin og stoppaði við hvert nafn til að virða persónuna fyrir sér, leggja andlit hennar og nafn á minnið. Loks kom hún að mér. ,,Magdalena Garðarsdóttir?’’
,,Ég er hérna.’’ Ég og lyfti hendinni örlítið en lét hana síðan falla á borðið. Jenna horfði óvenju lengi á mig og ég horfði líka beint í augun á henni og fylgdist með viðbrögðum hennar við svona sérstöku barni. Ég horfði ekki forvitin á hana eins og allir aðrir gerðu, heldur horfði ég ögrandi á hana eins og til að mana hana til að spyrja hvað væri með mig. Hún hristi höfuðið eins og hún væri að bægja frá sér suðandi flugu og héld áfram með nafnakallið.
,,Jæja, krakkar,’’ sagði hún loks þegar hún var búin að kalla upp öll nöfnin og stóð upp. ,,Þetta er fyrsti skóladagurinn ykkar og ég vona að hann verði eins skemmtilegur og hann verður fyrir mig,’’ sagði hún og brosti hlýlega til krakkanna. Ég hnussaði og hún leit snöggt á mig en leit strax undan eins og til að forðast augnaráð mitt. ,,Þið fáið engann heimalærdóm fyrstu vikuna en þið fáið að spreyta ykkur á námsefninu í faginu. Ég sýni ykkur einföld dæmi, útskýri og hjálpa ykkur að komast í gegnum þetta, að skilja þetta.’’ Núna brosti hún og tók upp krítina og skrifaði sitt eigið nafn stórum stöfum á töfluna. ,,Ég heiti Jenna og svona er það stafað,’’ hún strikaði undir nafnið sitt. ,,Það er fullkomið að fara í gegnum nöfnin okkar í fyrsta tíma þar sem það er nú íslenska í fyrsta tíma hjá ykkur.’’
,,Hvernig er Júlía skrifað?’’ spurði stelpa sem sat nálægt mér. Ég brosti og sá að þetta var sama Júlía í bekknum mínum. Hún var svo sem fín en skipti sér ekki að neinu sem kom henni ekki við.
,,Afhverju kemurðu ekki hingað og sýnir okkur hvernig?’’ spurði Jenna og benti henni á töfluna. Júlía hikaði en gekk svo hægt til hennar og tók við krítinni. Því næst skrifaði hún nafnið sitt en sleppti út L-inu. Skriftin var misstór og klessuleg eins og einkenndist af krökkum á þessum aldri.
,,Þetta er flott!’’ sagði Jenna og gerði upp stolt. Júlía brosti glaðlega. ,,Mjög vel gert miðað við íslenskukunnáttu þína, en ég skal sýna þér hvernig á að skrifa þetta.’’ Hélt Jenna áfram og skrifaði nafnið hennar, fínlegum stöfum og sýndi krökkunum hvað hver stafur hét. ,,Þið byrjið að læra hvern staf fyrir sig en það er gott að vita þetta.’’
Og svo fór hún eftir stafrófsröð, kallaði upp krakkana til að skrifa nöfnin sín á töfluna og svo leiðrétti hún og sagði hvað hver stafur hét. Þegar hún kallaði upp mitt nafn leit hún rannsakandi á mig þegar ég tók við krítinni. Ég ákvað að vera dálítið montin og sýna hvað ég kunni. Ég vandaði skriftina eins og hægt er á krítartöflu og skrifaði Magdalena hallandi, fínlegum stöfum í tengiskrift. Jenna gapti í undrun og ég glotti ánægð.
,,Þetta er… Fullkomlega skrifað,’’ sagði hún hikandi en tókst svo að koma brosi á andlit sitt. ,,Núna skal ég sýna þér hvað hver stafur heitir, nema þú vitir það.’’
,,Auðvitað veit ég það.’’ Sagði ég og benti á M-ið. ,,Þetta er M og er borið svona framm –‘’ sagði ég og bar M-ið fram. Svoleiðis fór ég í gegn um hvern einasta staf, sagði hvað þeir hétu og sýndi svo hvernig þeir voru bornir fram. Greyið Jenna var við yfirlið komin og þurfti að styðja sig við borðið þegar ég var búin. Ég brosti sakleysislega og settist í sætið mitt. Það tók Jennu smá tíma til að jafna sig en svo hélt hún áfram. Þegar allir voru búnir með nöfnin sín brosti hún og klappaði saman höndunum.
,,Þið voruð mjög dugleg og með tímanum verðið þið betri,’’ sagði hún og brosti upphreystandi til þeirra. ,,En núna er kominn tími fyrir smá stærðfræði. Ég kem einungis með einföldustu dæmi og leyfi ykkur að hjálpa mér að leysa það.’’
Hún sneri sér að töflunni og skrifa – eins og hún lofaði – einfaldasta dæmi sem var til. 1 plús 1. Ég brosti og rétti strax upp hendina. Jenna rendi augunum yfir bekkinn og sá bara mína hendi uppi. Hún andvarpaði og benti á mig.
,,Ætlar þú að sýna okkur hvernig þetta er gert?’’
,,Ekki málið.’’ Sagði ég og skoppaði úr sætinu og að henni. Hún beið eftir því að ég skrifaði en ég sneri mér að henni. ,,Má ég kannski gera þetta aðeins erfiðara? Mér finnst skemmtilegra að þurfa aðeins að hugsa.’’
Jenna horfði undrandi á mig en kinkaði svo kolli. ,,Leyfðu mér að sjá hvað þú kannt.’’ Sagði hún og horfði á mig á meðan ég hugsaði mig um. Loks fann ég fullkomið dæmi og skrifaði niður. Fimm í öðru veldi, margfaldað með þrem í sjöunda veldi, deilt í sex sinnum 8. Jenna horfði stóreyg á mig setja dæmið upp, reikna það vandlega út og skrifa svo útkomuna. Jenna tók upp vasareikninn sinn og reiknaði sama dæmi þar. Hún horfði undrandi á útkomuna þar en leit svo á töfluna á útkomuna mína, og endurtók þetta svo. ,,Þetta er rétt!’’ sagði hún svo undrandi og starði á mig. ,,Hvernig í fjandanum lærðirðu þetta?’’ missti hún úr sér í undrun sinni en beit svo í vörina á sér. Krakkarnir hlógu en þögnuðu þegar hún lyfti upp hendinni.
Ég brosti bara sakleysislega og gekk svo aftur í sætið mitt. Ég fann fyrir augnaráðum allra fylgja mér í sætið og ég var yfir mig ánægð.
The word ‘politics’ is derived from the word ‘poly’, meaning ‘many’, and the word ‘ticks’, meaning ‘blood sucking parasites’.