Sama hvar ég er og sama hvert ég fer, mér finnst alltaf gaman að skoða kirkjugarða.
Göngurútínan er 5 tímar og við höfum rétt rúma fjóra. Ég legg til að við sleppum einstaka viðkomustað við góðar undirtektir ferðafélaga míns.
Listinn er langur. Þar er aragrúi safna. Mannskepnan á erfitt mað að sleppa fortíðinni. Sumir safna minjum, aðrir styrkja söfn og ganga á milli safna, allavega eitt á ári. Ég heimsæki kirkjugarða. Það gleður mig því afskaplega þegar að ég rek augun í 10 mínútna viðkomu í stórum grafreit. Ekkert merkilegt skrifað um hann, en það sem mig dregur mest. Rúmlega tugþúsund grafreitir. Það þýðir tugþúsund manneskna sem þar hvíla. Tugþúsund manneskjur miðað við 50 ár á mann eru 500.000 ár. 5 aldir af liðnu lífi.
Eftir um klukkutíma af ferðinni höfum við ferðafélagi minn notið okkar á göngu um borgina. Annað af tveimur söfnum sem við ákvaðum að væri vert athugunar skilaði okkur sögu, dýrð. Aldagamlar styttur skaptar af mönnum, vegsamaðar af mönnum. Nú til sýnist fyrir tæpan þúsund kall á haus. Og hann er þess virði. Hitt safnið var lokað.
Dagur í borginni og náttúra og steinsteypa kljást á ný. Eins og vel æfðir ferðamenn flækjum við kort og misskiljum leiðbeiningar en höfum okkur þó á næsta stað, minn eftirsótti kirkjugarður. Mild gola dreifir úða dagsins yfir okkur félagana er við göngum meðfram fyrstu grafreitunum. Með hverju skrefi gengur maður fram hjá mismunandi sálu. Ástum sem entust, afrekum náð vinir og vandamenn. Hér koma saman handverksmennirnir sjálfir og aðdáendur þeirra og hvíla saman. Hver reitur allt að hundrað ár í mótun, handverk foreldra, aðstandenda, afkomenda, vinnufólks og einnar sálar.
Við göngum upp brekku og sjáum því ekki enn allt svæðið. En upp brekkuna gengur líka gömul kona í makindum sínum og á allan tímann í garðinum. Ég býð góðan daginn og velti fyrir mér poka fullum af vatni sem hún heldur á sem á er lítið gat svo úr lekur. Ég leiði það hjá mér, hvorki ég né konan höfum tungu til að tjá hvoru öðru hvað er.
Við félagarnir náum upp brekkuna, gamla konan gengur spöl fyrir neðan okkur enn. Garðurinn er dýrðlegur. Tugþúsund grafir þétt raðað á misháa stalla eftir hvar hver reitur kemst og meðfram öllu eins og borgarveggur sofandi borgar er fagurgrænn skógur. Meðan að við meðtökum umhverfið tekur lítil gömul kona forystuna, gengur milli nokkurra vel valinna reita og útskýrir pokann tungulaust. Hún velur stein yfir reit, skolar hann, dútlar við hann í ró og næði og vottar þar með algjöra virðinu sína. Ég hef augu með henni í stutta stund og velti fyrir mér hvern hún baðar svo og hve oft. Ég velti fyrir mér hvað hún gerir við daga sína í ellinni, dáist að þessu afreki hennar og fyrir mér er hún falleg.
Ég hef ekki enn gleymt gömlu konunni sem þreif steininn þó svo ég liggi nú í heimalandi í heimarúmi og liðinn sé mánuður frá heimkomu. Ég er ungur svo þeir sem frá eru fallnir og ég sé eftir eru aðalega ættingjar. Ég iðrast þess sjaldan þó svo ég heimsæki ekki reitina þeirra nógu oft. En mér finnst gott að vita að gömul kona gerir það að sið sínum að þrífa steininn. Ég á mína nákomna sem ég elska það mikið að ég mun einn daginn, með gömlu konuna mér til fyrirmyndar, gera hið sama fyrir. Ég þakka bara daglega að enn er langt í það.