Atal heyrði ekki raddirnar sem Barzai talaði um, en hann var kominn nálægt hamrinum og leitaði að fótfestu. Þá heyrði hann rödd Barzai verða skrækari og hærri:
,,Þokurnar eru hér enn þynnri og máninn býr til skugga í hlíðunum, raddir guða jarðar eru miklar og hamslausar, og þeir óttast komu Barzai, sem er meiri en þeir…Tunglsljósið flöktir, er guðirnir dansa í því, brátt sé ég dansandi útlínur guðanna sem stökkva og hrópa undir skini mánans…Ljósið deyfist og guðirnir eru hræddir…”
Á meðan Barzai öskraði þetta fann Atal fyrir skuggalegri breytingu í loftinu. Eins og að lögmál jarðarinnar væru beygð undir æðri lög. Þrátt fyrir að hlíðin yrði enn brattari en áður, var leiðin upp nú ógnsamlega auðveld yfirferðar. Þrútni hamarinn var aðeins örlítil hindrun þegar að honum var komið og Atal rann háskalega upp ávalann klettavegginn. Birtuna frá mánanum hafði brugðið undarlega. Um leið og Atal steyptist í gegnum þokurnar heyrði hann Barzai hinn vísa æpa í skuggunum:
,,Máninn er myrkvaður og guðirnir dansa í nóttinni. Á himnunum er skelfing. Fyrir tunglið hefur dregið myrkur, -ófyrirséð í bókum manna og guða…Á Hatheg-Kla eru ofnir óþekktir galdrar, öskur hræddra guðanna hafa breyst í hlátur, og ísiklæddar hlíðarnar þeytast endalaust upp í svarta himnana og ég steypist þangað líka…Já! Já! Loksins! Í daufri birtunni sé ég guði jarðar!”
Og Atal, sem féll nú ringlaður upp yfir ótrúlegar hlíðar. Hann heyrði í myrkrinu andstyggilegan hlátur blandaðan slíku öskri að enginn maður hefur heyrt nokkuð líkt því áður, nema ef vera skildi í Plegethon í alls óskyldum martröðum. Öskur sem endurspeglaði skelfingu og angist ásækinnar ævi, samanþjappað í eitt óhugnalegt augnablik:
,,Hinir guðirnir! Hinir guðirnir! Guðir ytri djöfulheima sem gæta hina máttlitlu guða jarðar!… Lítið burt!… Sjáið ei! Sjáið ei! Hefnd hina óendanlegu djúpa…Sá bölvaði, sá viðurstyggilegi pyttur… Miskunnsamir guðir jarðar, ég hrapa upp í himnana!”
Og um leið lokaði Atal augunum og hætti að hlusta. Hann reyndi að hoppa niður gegn ógnarkraftinum sem togaði hann upp í ókunnar hæðir. Þá kvað við mikil þrumnahringing á Hatheg-Kla. Hringing sem vakti góðu kotbændurna á sléttunum og heiðarlegu borgarana í Hatheg, Nir og Ulthar. Það varð til þess að þeir veittu tunglmyrkvanum undarlega, sem enginn hafði spáð til um, athygli. Og þegar máninn kom loks fram á ný var Atal öruggur í lægri hlíðum fjallsins, úr sjónmáli jarðarguða, og hinna guðanna.
Það er sagt frá því í mygluðu Pnakotísku handritunum að þegar heimurinn var ungur og Sansu kleif Hatheg-Kla hafi hann ekkert fundið nema ómálga snjóinn og klettana. Samt, eftir að menn frá Ulthar, Nir og Hatheg höfðu komist yfir ótta sína og klifu Hatheg-Kla í leit að Barzai hinum vísa, fundu þeir rist í bert bjargið á toppnum forvitnilegt og kýklópskt tákn fimmtíu alna breitt, eins og að kletturinn hafi verið höggvinn með gríðarstórum meitli. Táknið var eins og þau sem lærðir menn hafa greint í þeim ægilegu köflum Pnakotísku handritanna sem eru of gamlir til að hægt sé að lesa þá. Þetta fundu þeir.
Barzai hinn vísi fannst aldrei, né var hægt að fá heilaga prestinn Atal til að biðja fyrir hvíld sálu hans. Og enn þann dag í dag hræðast íbúar Ulthar, Nir og Hatheg tunglmyrkva, og biðja á nóttum þegar tindurinn og tunglið hverfa í bleikum þokum. Og ofar þokunum á Hatheg-Kla dansa stundum guðir jarðar minnugir fyrri tíma, þeir vita að þeir eru öryggir og elska að koma frá óþekkta Kadath á skýjaskipum og leika sér, eins og þeir gerðu þegar jörðin var ung og menn höfðu ekki áhuga á að klífa á óaðgengilega staði.