Maðurinn gekk sínum stóru þungum skrefum niður langa veginn. Veginn sem lá alla leið að endastöð lífsins. Þrátt fyrir að á honum sáust engin merki um elli var hann langt gengin veginn. Svo langt að það var hættulega stutt eftir. Sólin var löngu farin, laufblöðin voru löngu fallin og fólk var hætt að gleðjast. Hann var byrjaður að ganga hraðar en áður þrátt fyrir að hann reyndi að hægja á sér. Hann var löngu orðinn einn. Hann hafði reyndar aldrei munað eftir sér öðruvísi en einum. Hann átti ekki samleið með fólkinu og fólkið ekki heldur með honum. Stundum þegar það lá vel á honum leit hann til baka og sá glytta í sólina þó frekar langt frá sér. Einstaka sinnum hafði hann meira að segja tekið nokkur skref til baka, þó ekki mörg.
Maðurinn tók eftir ungri stúlku gangandi örlítið fyrir framan sig. Mjög huggulegri stúlku sem virtist vera á hans aldri, kannski örlítið eldri. Hann var efins hvort hann ætti að hlaupa eftir henni í von um að fá að snúa við áður en of seint yrði. Hví ekki? Hugsaði hann með sér. Hví ekki að reyna? Ef allt klikkar þá fer ég bara hlaupandi niður veginn. Það sakar ekki að reyna. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hann reyndi að tengjast öðru fólki í von um að snúa við. Ekki heldur í annað. Oftast byrjaði það ágætlega en endaði alltaf á hlaupum niður veginn. Vonin var samt svo mikil að hann blekkti sjálfan sig um að núna gæti allt saman smollið. Þau gætu valhoppað til baka með handabandi. Sólin myndi kannski skína á þau og þau myndu kannski heyra fugla syngja. Kannski.
Stúlkan gekk frekar hratt og átti maðurinn í miklu basli við að ná henni. Hún var klædd fallegri svarti kápu sem hafði örugglega ekki verið keypt fyrir smáeyri. Hún var klippt stutt og hafði falleg blá augu. Augu sem gátu heillað hvern sem er á augabragði. Hún virtist þreytt og virtist eiga í erfiðleikum með að halda augnlokunum uppi. Það leit út fyrir að nokkur tár höfðu þornað á sléttu húð hennar ekki fyrir löngu síðan.
Af hverju ert þú kominn svona langt á leið? spurði maðurinn, hissa á svip.
Stelpunni brá frekar og virtist vera óvön að við sig væri talað. Hún hugsaði sig um í smá stund. Líf mitt hefur verið erfitt, mjög erfitt. Þrátt fyrir að ég hafi átt margt hefur mig alltaf vantað eitthvað líka. Svo hérna er ég, mun lengra komin en mig hafði nokkur tíman grunað né langað. Hvað með þig? Því gengur þú svona hratt?
Þetta svar var greinilega löngu ákveðið hjá manninum því hann var fljótur að svara. Því þegar þú ert einn er erfitt að fara ekki hratt. Þú gengur áfram og ekkert gerist. Ekkert stöðvar þig og ekkert fær þig til þess að langa til þess að stöðva fyrr en þú hefur gengið mjög lengi. Ég hef aldrei getað gengið með eitthverjum sem hefur hægt á mér. Svo hér er ég. Og ef ekkert breytist verð ég líklega mjög fljótur að ganga restina. Því að fátt getur stöðvað mig meðan ég er einn. Þú getur varla hefið verið ein, svona falleg?
Það er ekkert gefið með útliti, peningum né vinsældum. Ekkert og það skaltu vita. Þrátt fyrir að þig hafi kannski dreymt um að vera ekki einn, þýðir ekki að allt hefði verið orðið betra ef svo hefði ekki verið. Viltu kannski vera samferða?
Þau töluðu saman í langan tíma. Svo langan að það var farið að dimma, þó að dagarnir voru farnir að lengjast til muna. Sumarið var að koma. Tíminn sem allir elska. Eða eiga allavega að elska. Sólin var óvenju falleg þetta kvöldið og þau gleymdu öllum sínum heimsins verstu kvölum. Þeim fannst þeim ekki lengur vera ein, þau voru saman. Á morgun myndi koma nýr dagur og þau hlökkuðu til hans. Þau fundu lífið, lífið sem hafði glatast löngu áður. Þau valhoppuðu til baka upp veginn með bros á vör og sólin skein á brosmildu andlit þeirra. Þau voru ánægð.