Pétur yngri kölluðu þau hann, hann átti móður sem hét Sigríður og faðir sem hét Grétar, móður ömmu sem hét Hlín og móður afa sem kallaður var Pétur eldri. Föður ömmu átti hann ekki en föður afa átti hann svo sannarlega og sá maður hafði verið spenntastur fyrir fæðingunni af öllum, jafnvel spenntari en foreldrarnir sjálfir. Sæmundur hét sá kappi og var mesti karl í krapinu sem Pétur átti eftir að kynnast.
Árin liðu og nú var jólagleðin í lífi Pétur yngri gengin yfir og það styttist í janúar með hverjum deginum sem leið. Það var ekki nóg með að janúar væri afmælismánuðurinn hans Péturs heldur var það einnig afmælismánuður Sæmundar afa. Að vísu áttu þeir ekki afmæli á sama degi, en hvert ár héldu þeir upp á afmælið sitt saman, þann 21. Janúar, þannig var afmælið hans Sæmundar þrem dögum seinna og afmælið hans Péturs þrem dögum of snemma. Þetta fyrir komulag voru þeir félagar einstaklega ánægðir með, Sæmundur fékk að lengja árið sitt um þrjá daga á meðan Pétur stytti sitt um þrjá.
Í ár var þessi mánuður sérstakari en nokkru sinni áður fyrir Pétri, þetta var hans fyrsta stórafmæli, nú yrði hann loksins 10 áragamall. Sæmundur hafði átt marga slíka daga, 6 stykki allt í allt, til að vera nákvæmur þá yrði þetta 64. afmælisárið hans.
Sigríður og Grétar voru stödd ásamt syni sínum Pétri í heimsókn hjá Sæmundi.
„Jæja Pétur minn, nú ert þú loksins farinn að draga á mig í þessu afmælistali. Hver veit nema þú munir ná mér einn daginn?“. Sagði Sæmundur á meðan hann brosti sæll við eldhúsborðið að reyna að átta sig á því hvort úrið sem hann bar á freknóttum handleggnum væri hætt að tifa.
Pétur horfði á brosmildan gamlingjann lemja laust með vísifingrinum á úrið „Heldurðu að ég eigi eftir að fá svona úr eins og þú átt þegar ég verð gamall afi?“
Sigríður lamdi ósjálfrátt á brjóstkassann og missti út úr sér litla stunu á meðan Sæmundur hló þessum notalega hlátri. „Pétur minn, daginn sem ég hætti að þurfa að lesa á klukku þá mátt þú eiga úrið!“ Sagði Sæmundur glöðum róm og hló svo þessum ljúfa hlátri á meðan hann klappaði tengdadóttur sinni hughreystandi á bakið, henni til mikils léttis.
„Vá afi! Ég get ekki beðið þangað til!“ Sagði Pétur skrækróma á meðan Sæmundur brosti og hló enn á ný. Sigríður leit á Grétar þar sem hann hristi hausinn.
Sæmundur rétti Pétri úrið „hérna strákur, þú getur rannsakað gripinn á meðan þú ert hérna.“
„VÁÁ! Takk afi“ Pétur tók spenntur við dýrgripnum og hljóp síðan inn í stofu.
„Pabbi minn.“ Sagði Grétar. „okkur langar að fá að biðja þig um svolítið sérstaka afmælisgjöf til Péturs þetta árið.“ Hélt hann áfram á meðan hann klóraði sér í hausnum. „Þannig er staðan að Pétur hefur undan farið grátbeðið okkur um að fara með sig á skíði. Eins og þú veist manna best þá kann ég ekkert á skíði og hvað þá hún Sigga.“
Sæmundur greip fram í með háðskum róm „Já Grétar minn, ég get fullyrt það manna best að þú kannt ekki nokkurn skapaðan hlut á þessar torfæru græjur, og það geta einnig allir Dalvíkingar.“
Grétari varð litið á Sigríði þar sem hún reyndi að fela glottið bakvið hálsmálið á jakkanum sínum. „Við skulum nú ekkert fara að rifja upp gamlar minningar pabbi minn. Það sem mig langar að biðja þig um er að fara með honum Pétri, þó það væri ekki nema hálfan dag, og kenna honum að skíða. Þú varst nú einu sinni meistarinn hérna áður fyrr.“
Sæmundur leit fram á gang í hillu þar sem örfáir rykfallnir verðlaunagripir stóðu ásamt svart hvítri mynd af ungum manni með einhverskonar skíði úr spóni og lítið hús stóð í fjarska í bakgrunninum. „Var og ekki var..“ Sagði Sæmundur íhugull „spurningin er hvort að eitthvað sé eftir af þessum myndarlega manni í þessum gömlu beinum“ Sæmundur starði dáleiddur á myndina „Satt að segja þá hef ég ekki farið á skíði í marga áratugi Grétar minn..“
Grétar leit vonsvikinn niður á eldhúsdúkinn, þennan forljóta skræpótta gólfdúk, sem samt hefði ekki verið hægt að skipta út fyrir nokkurn skapaðan hlut.
Sæmundur tók aftur til máls „Grétar minn, ekki vera svona sár. Ég sagði aldrei að ég vildi ekki gera þetta, satt að segja finnst mér þetta spennandi hugmynd. Hvern hefði grunað að kappinn Sæmundur skellti sér aftur á ísinn?“
Grétar kipptist við og ljómaði allur af spenningi „Í alvöru?? Ertu að meina þetta?? Pabbi ertu viss um að þú hafir heilsu í svona ferð? Ég meina.. ekki að ég vilji að þú breytir um skoðun eða neitt slíkt.. langar þig að gera þetta í alvöru?? Ég veit ekki hvað ég á að segja pabbi.“
Sæmundur skelli hló og horfði á þessi ungu hjón ljóma af gleði, rétt eins og þau væru að leika Pétur á nammidegi. „Auðvitað myndi ég ekki vilja missa af tækifæri til að kenna barnabarni mínu hvernig alvöru karlmenn næla sér í kvenfólk! Það er aldrei of snemmt að byrgja brunninn!“ Sæmundur var orðinn verulega spenntur og kallaði á Pétur. „Pétur! Komdu hingað vinur.“
Pétur hljóp inn með úrið yfir báða úlnliða „Sjáðu afi! Það passar á mig líka!“
Sæmundur hló kröftuglega af þessum litla snáða sem virtist vilja verða eftirmynd annars afa síns þó svo að hann bæri nafnið af hinum. „Veistu það Pétur, við tveir erum að fara saman á skíði! Bara ég og þú! Tveir félagarnir!“ Sæmundur tók Pétur í fangið og ruglaði í hárinu hans á meðan Pétur tísti af gleði.
Sigríði og Grétari var nokkuð brugðið „Sæmundur, við höfðum nú hugsað okkur að koma með, við getum alveg setið í skálanum á meðan þið Pétur farið upp í brekku. Það er algjör óþarfi að leggja svona mikið álag á þig“ Sagði Sigríður.
Pétur greip tístandi fram í „nei engan pabba og mömmu, ég og afi ætlum að skíða sjálfir, við getum það sko alveg“
Sæmundur tísti með Pétri „Já við erum stórir strákar, við getum alveg séð um okkur í eina helgi án pössunar. Og síðan hvenær varð uppáhalds strákurinn minn of mikið álag?“
Grétar lagði höndina á læri Sigríðar „Ef hann treystir sér til þess þá sé ég ekki ástæðu fyrir því hversvegna það sé neitt vandamál.“
Sigríður brosti og kinkaði kolli „ætli það sé svo sem ekki allt í lagi, þið getið alltaf hringt heim ef það er eitthvað vandamál.“
„Tveir góðir félagar lenda aldrei í vandamálum Sigga mín, þeir elta þau uppi líkt og þau væru bráð!“ Sagði Sæmundur á meðan hann hermdi eftir kló með hendinni á sér og kitlaði Pétur.
„Þá er það staðfest“ sagði Grétar „Þið farið saman í skíðaferð á afmælisdaginn þann 21.“
Stóri dagurinn rann upp, Sæmundur og Pétur voru búnir að pakka niður smá farangri og voru tilbúnir að leggja af stað í spennandi skíðaferð.
Sigríður kom hlaupandi með poka fullann af samlokum skornar í þríhyrninga „Sæmundur þú getur ekki ímyndað þér hvað Pétur er búinn að vera spenntur fyrir þessu, ég vona að hann eigi ekki eftir að gera þig of þreytan. Passið að borða nógu mikið, það þarf mikla orku fyrir mikla hreyfingu“
„Sigga mín, ekki hafa svona miklar áhyggjur. Við erum bara að skreppa í eina nótt, það kemur ekkert fyrir okkur. Við erum tveir hörkuduglegir og hraustir menn sem þú ert að tala um.“ Sagði Sæmundur stoltur.
Sigríður brosti. „Ég veit, ég veit. Það er bara svo spennandi að sjá ykkur fara tvo saman í ferðalag. Það verður gaman að heyra Pétur endursegja ferðalagið þegar þið komið heim, ég veit að þið eigið eftir að skemmta ykkur vel.“
„Auðvitað skemmtum við okkur vel.“ Sagði Sæmundur á meðan hann skellti bílhurðinni og skrúfaði niður rúðuna. „Við sjáumst Sigga mín, ekki hafa neinar áhyggjur. Við kunnum alveg að bjarga okkur.“
Í þeim töluðu orðum rann bíllinn af stað, Sæmundur og Pétur veifuðu Sigríði þar sem hún stóð eftir brosandi á gangstéttinni.
Skíðaferðin var alveg meiri háttar, Sæmundur kenndi Pétri að skíða á meðan Pétur kenndi Sæmundi að detta á rassinn. Aldrei höfðu þeir hlegið jafn duglega og þennan frábæra dag. Þeir skíðuðu allan tíman sem þeir gátu. Sæmundur var orðinn aðeins ryðgaður frá sínum yngri árum og skíðin hans voru töluvert litaglaðari og glansandi en þau sem hann hafði átt. Pétur var fljótur að ná tökum á skíðunum og oftar en ekki var hann við það að taka fram úr afa sínum, sem náði þó alltaf að vera nokkrum skrefum á undan. Allt í allt þá hljóta þeir að hafa rennt sér oftar niður brekkurnar en nokkur annar hefði getað látið sig dreyma um.
Þegar heim ferðin hafði tekið enda var Sæmundur alveg úrvinda, hann var svo þreyttur að hann þurfti að tala við lækni, hann fékk heppilega tíma samdægurs. Læknirinn mat ástand Sæmundar frekar slæmt, það var eitthvað við hjartað sagði hann, það var bara ekki allt með felldu. Læknirinn virtist ekki getað áttað sig fyllilega á því hvað væri að, hann hélt nú þó að þetta væri ekkert alvarlegt en sannfærði Sæmund þó um að vera á spítalanum þó það væri bara yfir nóttina.
Næsta dag komu Sigríður, Grétar og Pétur til að heimsækja Sæmund. Sólin var ekki komin upp ennþá, þau vissu að Sæmundur var morgun hani og vissu að hann myndi ekki sætta sig við það að vera mikið lengur á sjúkrahúsinu heldur en þessa einu nótt.
Þau fóru í mótökuna. „Við erum að líta til Sæmundar Friðrikssonar, má hann fara heim í dag?“ Spurði Sigríður með ljúfri röddu.
Konan í mótökunni varð vandræðaleg á svipinn. „Þið eruð ættingjar Sæmundar? Fylgið mér.“ Hún stóð upp og leiddi þau í aðra biðstofu. Þetta var ung stúlka, líklegast á tvítugsaldrinum. Hún bar nafnspjald sem á stóð Júlía. „Setjist hér, læknirinn talar við ykkur eftir augnablik.“
Grétar leit á Sigríði frekar skelfdur og hvíslaði að henni „Læknirinn? Sögðu þau okkur ekki í gærkvöldi að þetta væri ekkert alvarlegt?“
„Hann hlýtur bara að ætla að útskýra fyrir okkur að pabbi þinn þurfi að hvíla sig þessa viku og þurfi kannski smávægilega aðstoð.“ Sagði Sigríður í von um að létta á bæði sér og Grétari.
„Já það er áreyðanlega rétt hjá þér elskan.“ Sagði Grétar mun rólegri.
Það leið ekki á löngu uns læknirinn var kominn, miðaldra maður sem virtist mjög traustvekjandi. „Góðan daginn, ég heiti Einar.“ Af einhverri ástæðu þá virkaði læknirinn óöruggur þrátt fyrir þetta sterka traustlega útlit. Honum var litið til Péturs þar sem hann sat með glampa í augunum og þetta fallega bros. Síðan var honum litið aftur til Grétars og Sigríðar „Ég held að það sé betra að við látum hann bíða fyrir utan í augnablik.“
Sigríður kinkaði kolli og bað Pétur um að bíða frammi í smástund. Pétur var leiddur fram í fyrri móttökuna af ungu móttökudömunni, Júlíu, hún leiddi hann að horni með legókubbum og barnaleikföngum. Hún brosti frekar þvinguðu brosi og gekk síðan í burtu en fylgdist með honum í gegnum glugga sem hún sat við.
Pétur beið í dálítinn tíma en síðan leiddi Júlía hann aftur inn í til foreldra sinna. „Hvenær getum við sótt afa? Ætlar hann að gista hjá okkur? Hann má vera í herberginu mínu, ég get alveg sofið á dýnu bara á gólfinu.“
Grétar þurrkaði tár sem rann niður kinn hans, fljótlega rann þó annað tár niður.
Pétur starði afsakandi á pabba sinn „Hann má líka alveg sofa inni hjá ykkur sko, það er alveg allt í lagi.“
Sigríður tók utan um son sinn sem enn hafði þennan glampa í augunum sem hann hafði haft þegar læknirinn heilsaði þeim fyrir andartaki síðan. „Pétur minn, hann afi þinn… hann er farinn.“
Pétur horfði ringlaðu á vegginn. „Vildi hann ekki koma með okkur heim mamma?“
Grétar þerraði öll tárin sem bæst höfðu við og kraup síðan fyrir framan Pétur og tók utan um axlir hans. „Auðvitað vildi hann afi þinn koma með okkur, ekki síst vegna þín. Stundum fara hlutirnir bara ekki alltaf eins og við vildum óska að þeir gerðu. Elsku Pétur minn, hann afi þinn dó rétt áður en við komum, hann hefði beðið eftir okkur ef hann hefði getað það. Hann bara þurfti.. hann þurfti að fara, það er ekkert sem við hefðum getað breytt.“
Pétur varð stjarfur í nokkrar sekúndur, síðan kipptist hann við og hljóp fram. „Afi!“ kallaði hann. „Afi það er ekki satt! Ég veit að þú ert hérna!“ Öskraði hann, síðan stoppaði hann. „Þú verður að segja mér hvar þú ert! Þú getur ekki farið frá mér!“ Kjökraði hann. Pétur settist á gólfið með tárin dansandi niður kinnarnar og hvíslaði „Ég á afmæli í dag, þú mátt ekki hætta að þurfa að lesa á klukku í dag, það byrjar klukkan fjögur.“
Þetta er skáldsaga. Upprunalega skrifaði ég hana í 5. bekk að mig minnir en auðvitað hefur hún breyst á þessum tíma, ég veit þó ekki hvort hún hafi skánað eða versnað, dæmi hver fyrir sig. Gaman er einnig að segja frá því að eina nafnið sem ekki er breytt er Sæmundur afi :)
SDÓ