Þeir opnuðu hurðina á kaffihúsinu og skimuðu í kringum sig eftir vinum sínum. Þeir sáu hvar þeir sátu og hlömmuðu sér niður hjá þeim. Þarna voru Rebekka, kærastan hans Natans, Janus, vinur þeirra síðan í leikskóla, og Kata, vinkona þeirra.
Þau sátu þarna dágóða stund, spjölluðu saman og drukku kaffi. Janus sat og hlustaði á samræður vina sinna, um tónleika og skemmtanalífið. Hann hafði undanfarið verið mjög þögull og félagslega einangraður. Líklegast var það vegna eiturlyfjaneyslu hans og þunglyndis að hann dró sig svona í hlé. Hann bjó einn í lítilli íbúð og hafði lítil sem engin samskipti við foreldra sína. Fyrir um hálfu ári hafði hann kynnst heróíni og byrjað að neyta þess daglega. Honum leið eins og hann væri einn í heiminum og hann var orðinn þreyttur á lífinu, langaði bara að deyja. Auðvitað sagði hann vinum sínum ekki frá þessu, þeir höfðu nóg af eigin vandamálum.
Það var komið kvöld og stelpurnar farnar heim. Eftir sátu strákarnir. ,,Eigum við ekki að koma okkur heim líka?” spurði Freyr. Þeir stóðu allir upp, borguðu fyrir kaffið og héldu heimleiðis.
Pabbi Freys var á viðskiptaráðstefnu í Rússlandi, þannig að Freyr ætlaði að gista hjá Natan. Eftir að hafa gengið í dálitla stund neyddust félagarnir þrír til að skilja. Natan átti heima í gagnstæða átt frá Janusi þannig að Natan og Freyr þurftu að kveðja vin sinn og halda áfram. ,,Sjáumst á morgun,” sagði Natan. ,,Kannski,” svaraði Janus. Þetta var það fyrsta sem hann sagði í kvöld.
Svo héldu vinirnir tveir áfram. Natan velti fyrir sér hvers vegna Janus hefði sagt kannski. Ef til vill hafði hann lofað sér eitthvað annað. Natan ákvað að það hlyti að vera ástæðan og velti þessu ekkert frekar fyrir sér.
Natan bjó með pabba sínum í risastóru og glæsilegu einbýlishúsi á tveimur hæðum. Þeir gengu inn í húsið. Það var mannlaust. Pabbi Natans var ekki enn komin heim. Þeir fóru inn í herbergi Natans, skriðu upp í rúm, kveiktu á sjónvarpinu og sofnuðu út frá því.
Natan vaknaði við að farsíminn hans hringdi. Dauðþreyttur settist hann upp og teygði sig eftir símanum á náttborðinu. Þetta var Janus. Natan svaraði símanum en heyrði ekkert á hinni línunni. ,,Janus ert þetta þú?” spurði hann vankaður og leit á klukkuna. ,,Hvað í fjandanum gengur þér til? Klukkan er fjögur um nótt! Ég hef aðeins sofið í svona þrjá klukkutíma. Svaraðu mér fíflið þitt!” sagði Natan ergilegur. Hann þoldi ekki að vera vakinn eftir svo stuttan svefn. Svo heyrðist hvíslað með útgrátinni rödd: ,,Fyrirgefðu.” Svo var skellt á.
Natan sat þarna á rúmstokknum í svolitla stund og starði á símann. Hann gat ekki skilið hvers vegna Janus hefði hringt svona seint. Það hlaut eitthvað að vera að, en hvað? Hann fór að púsla saman brotum í huga sér. Janus hafði verið mjög þögull og niðurdreginn undanfarið. Natan fór að hugsa um það sem Janus hafði sagt í kvöld. Allt í einu skildi hann þetta. Hann vissi hvað Janus ætlaði sér.
Hann ýtti við Frey sem var enn steinsofandi og minnti meria á dauða illalyktandi rottu en sofandi manneskju. ,,Vaknaðu rottan þín, Janus ætlar að drepa sig,” gargaði hann á dauðu rottuna. Freyr settist upp. Hann skildi ekki hvað var í gangi, en þegar Natan hljóp út ákvað hann að best væri að elta hann. Þeir hlupu út í nóttina á nærbuxunum. Þeir flýttu sér svo mikið að þeir höfðu ekki einu sinni tíma til að fara í skó.
Þegar þeir komu að íbúð Janusar var hurðin læst. Þeir brutu glugga og stukku inn. Þeir flýttu sér inn í svefnherbergið. Janus lá þar alblóðugur á gólfinu og við hliðina á honum voru sprautur og rakvélarblöð. Freyr hringdi í Neyðarlínuna og bað þá um að senda sjúkrabíl undir eins. Natan reif upp hurðina á fataskápnum hans Janusar og greip stuttermabol. Hann kraup niður hjá deyjandi vini sínum og hélt bolnum upp að sárinu.
Þeir þurftu ekki að bíða lengi eftir sjúkrabílnum. Litla herbergið fylltist af sjúkraliðum og lögreglumönnum. Sjúkraliðarnir settu Janus á börur og inn í sjúkrabílinn. Svo brunuðu þeir í burtu. Eftir voru vinirnir tveir og nokkrir lögreglumenn. Lögreglumennirnir tóku skýrslu af Natan og Frey sem voru með tárin í augunum. Eftir skýrslutökuna keyrðu þeir vinina á sjúkrahúsið.
Janus var í dái og læknarnir sáu ekki fram á það að hann myndi nokkur tímann vakna aftur. Hann var tengdur við öndunarvél og fleiri tæki. Læknarnir sögðu að ef hann væri enn í dái eftir mánuð yrðu þeir að taka vélarnar úr sambandi og leyfa honum að deyja. Natan fannst þetta allt vera sér að kenna. Það var hann sem hafði öskrað á hann og kallað hann fífl.
Natan var mjög þunglyndur eftir þetta og einangraði sig mikið frá öðrum. Hann vildi bara gleyma öllu. Hann fór þó daglega á spítalann til að heimsækja Janus. Hann sagði honum hve mikið honum þætti vænt um hann og að hann mætti ekki deyja. Hann yrði bara að vakna. Natan vissi vel að Janus væri í dái og gæti ekki svarað honum, gæti líklegast ekki heyrt í honum. En hann talaði samt við vin sinn.
Natan var orðin svo fjarlægur að hann hafði ekkert tímaskyn lengur. Hann hætti að fara á sjúkrahúsið. Hann vissi ekki einu sinni hvaða dagur var lengur. Dag einn hringdi síminn hans. Það var pabbi Janusar. ,,Mér þykir fyrir því Natan en þeir ætla að taka öndunarvélina úr sambandi. Það er liðinn mánuður, þeir geta ekki haldið honum lengur. Ef þú vilt þá geturðu komið núna og kvatt hann í hinsta sinn,” sagði hann.
Natan skellti á og rauk út. Hann hljóp eins hratt og hann gat. Hann hljóp svo hratt að hann datt næstum framfyrir sig. Að lokum var hann kominn á sjúkrahúsið. Hann hljóp upp stigana og hélt rakleiðis til sjúkrastofu Janusar.
Janus lá í sjúkrarúmi og var með alls konar rör, slöngur og snúrur. ,,Gerðu það Janus vaknaðu, ekki skilja mig eftir einan. Þú mátt ekki deyja,” hvíslaði hann að vini sínum sem lá þarna eins og liðið lík. ,,Stundin er runnin upp,” tilkynnti læknirinn. Presturinn gekk upp að rúminu og byrjaði að biðja fyrir sál Janusar.
Janus var í kaþólska söfnuðinum, svo að presturinn var kaþólskur. Presturinn bað Guð um að bjarga sálu þess unga drengs sem væri á leiðinni. Það róaði ekki pabba Janusar sem einnig var viðstaddur. Hann var strangtrúaður kaþólikki, og trúði því að sjálfsmorð væri synd. Hann hélt því fram að þeir sem fremdu sjálfsmorð færu beint til helvítis, en Natan var viss um að pabbi Janusar vonaði að það væri ekki rétt.
Presturinn lauk bæn sinni með því að signa vanmáttugan líkama Janusar sem stóð frammi fyrir dauðans dyrum. Læknirinn stillti sér upp við hliðina á öndunarvélinni. Natan fann hvað hann langaði mikið að öskra á lækninn. Hann hataði lækninn fyrir að ætla sér að taka vélarnar úr sambandi. Í huga Natans jafngilti það morði en pabbi Janusar hafði óskað eftir því að slökkt yrði á vélunum ef Janus væri ekki vaknaður eftir mánuð. Nú var sá mánuður liðinn.
Læknirinn andaði djúpt að sér og slökkti á vélinni. Hjartalínuritið varð flatt og Janus hætti að anda. Hjúkrunarkona, sem staðið hafði út í horni sjúkrastofunar, skrifaði hjá sér tíma andláts. Janus var dáinn. Janus var frjáls.
Natan hafði ekkert getað sofið nóttina eftir að Janus dó. Hann hafði bara setið inni í herberginu sínu og starað út um gluggann. Hann var búin að sitja við gluggann í 10 klukkustundir þegar dyrabjallan hringdi. Hann stóð ekki upp, en þegar hún byrjaði að hringja í sífellu gafst hann upp og fór til dyra.
Þarna stóð Rebekka. Hún var komin til þess að reyna að kæta hann. Þau ræddu saman í smástund. Natan sagði henni að hann þyrfti að vera einn. Hann þyrfti tíma til að jafna sig. Rebekka tók það sem góða og gilda ástæðu og sagðist ætla að hringja í hann um kvöldið. Svo fór hún.
Rebekka var á leiðinni heim. Hún gekk framhjá íbúðinni þar sem Janus hafði búið. Íbúðin var tóm og drungaleg, þótt það væri glampandi sól. Það sem hún vissi ekki var það að svartur bíll hefði verið að elta hana alla leiðina frá húsi Natans.
Hún stoppaði um stund við kirkjugarðinn. Þarna yrði Janus ef til vill jarðaður. Hún stóð þarna og var þungt hugsi. Hvernig var þetta með kaþólskt fólk sem framdi sjálfsmorð? Var það jarðað í kirkjugörðum líka eða var því synjað um það?
Svarti bíllinn nam staðar og einhver stökk út úr bílnum, greip Rebekku og dró hana inn í bílinn. Hann batt fyrir augu hennar og munn og reyrði hana svo fasta með reipi að hún gat hvorki hreyft legg né lið. Hann ók inn í tómt húsasund, tróð henni ofan í skottið og keyrði svo burt.
Natan sat í sófanum og var að horfa á sjónvarpið. Það var komið kvöld og hann beið eftir símatalinu frá Rebekku. Loks hringdi síminn. Hann svaraði. Honum til mikilla vonbrigða var þetta ekki Rebekka sem hringdi heldur pabbi hennar. ,,Geturðu sagt Rebekku að hún eigi að koma heim núna?” sagði hann. Natan skildi þetta ekki alveg, því að Rebekka var löngu farin og yfirleitt var hún komin heim til sín á þessum tíma kvölds. ,,Rebekka fór héðan fyrir nokkrum klukkutímum,” sagði Natan. ,,Svoleiðis, þá hlýtur hún að vera hjá Kötu. Ég hringi þangað, takk fyrir. Bless,” sagði pabbi hennar og þar með lauk símtalinu.
Natan hugsaði ekkert meira út í þetta. Rebekka hlaut að hafa farið til Kötu og gleymt að fylgjast með tímanum. Hann hélt áfram að horfa á sjónvarpið og sofnaði svo í sófanum.
Þegar pabbi hans kom heim lá Natan í sófanum eins og samanhnipraður köttur, enda var glugginn opinn og kalt inni í húsinu. ,,Sófadýr,” tautaði pabbi hans og breiddi teppi yfir son sinn.
Á sama tíma var Rebekka læst í skottinu á svarta bílnum. Hún valt fram og til baka. Hún var mjög hrædd en þorði ekki að sofna. Hún mátti ekki sofna, hún varð að halda sér vakandi. Hún hafði gefist upp á því að kalla á hjálp, því enginn myndi heyra til hennar aftur í skotti í bíl á ferð. Hún vonaði bara að einhver myndi finna hana og bjarga henni áður en það yrði of seint.
Bílinn nam staðar og hún heyrði fótartak nálgast. Skottið opnaðist og hún sá hver þetta var. Þetta var gamli kennarinn þeirra úr grunnskóla. Hann hafði alltaf verið að horfa á hana og hafði stundum komið við hana á óviðeigandi hátt þegar hún var látinn sitja eftir. Hún hafði kært hann og hann farið í fangelsi í hálft ár. Hann hló og skellti skottinu aftur.
Natan vaknaði morguninn eftir í svitabaði. Hann hafði fengið hroðalega martröð. Hann dreymdi að allir sem honum þótti vænt um hefði dáið og hann ætti engan að.
Hann klæddi sig og fór inn í eldhús til að fá sér morgunmat. Hann fékk sér ristað brauð og ávaxtasafa og settist með það inn í stofu. Það var enn kveikt á sjónvarpinu.
Hann beit í brauðið sitt en skyrpti út úr sér bitanum um leið og hann sá mynd af Rebekku í sjónvarpinu. ,,Þessi stúlka, Rebekka Eir Jónsdóttir, hefur ekki komið heim síðan í gær. Allar vísbendingar benda til þess að henni hafi verið rænt. Rebekka er um 168 sm á hæð, grönn, með sítt svart hár og var klædd rifnum gallabuxum og grænum stuttermabol. Það sást síðast til hennar hjá vini sínum á Skúlagötu í Reykjavík. Ef þú hefur séð hana eða veist hvar hún er niðurkomin vinsamlegast hafðu þá samband við lögregluna. Og nú snúum við okkur að veðrinu.” Natan slökkti á sjónvarpinu og fleygði brauðinu á diskinn. Hann hafði ekki lyst á því lengur. Rebekku hafði verið rænt. Hann trúði því ekki.
Hann ætlaði að fara út og hitta Frey. Kannski vissi Freyr eitthvað meira en hann. Hann var kominn fram í forstofu og var að klæða sig í skóna sína þegar hann tók eftir bréfi sem lá á gólfinu. Hann tók það upp og las á umslagið. Bréfið var stílað á hann. Hann opnaði bréfið og byrjaði að lesa: ,,Ef þú vilt sjá þína heittelskuðu Rebekku aftur skaltu koma með eina miljón í seðlum og hitta okkur í Hellisgerði í Hafnarfirði á miðnætti í kvöld. Ef þú kjaftar í lögregluna, þá drepum við hana og þú sérð hana aldrei meir.” Natan henti bréfinu frá sér. Honum leið eins og partur af honum hefði dáið. Honum varð óglatt, og honum fannst hann vera algerlega hjálparvana og ringlaður.
Dyrabjallan hringdi. Natan lét sig renna niður á gólf. Hann fann ekki fyrir fótunum sínum. Hann sat þarna á gólfinu upp við vegginn og tók bréfið aftur upp. Hann starði á það með augun full af tárum.
Dyrabjallan hringdi aftur. ,,Hver er þarna?” spurði Natan með afar veiklulegri rödd. ,,Þetta er ég, Freyr. Má ég koma inn?” svaraði Freyr. ,,Já, komdu bara inn. Hurðin er opin,” sagði Natan.
Freyr opnaði hurðina og gekk inn í forstofuna. Hann snarstansaði og rak upp stór augu þegar hann sá vin sinn sitjandi á gólfinu og starandi á bréf með tárin í augunum. ,,Hvað er þetta?” spurði Freyr og benti á bréfið. Natan leit upp og horfði beint í augu Freys og öskraði svo: ,,Segðu að það sé ekki satt! Þetta getur ekki verið að koma fyrir mig. Segðu mér að það sé ekki satt!” Freyr starði forviða á vin sinn. ,,Hvað ertu að tala um?” spurði Freyr. ,,Þetta!” öskraði Natan og fleygði bréfinu í Frey. Freyr tók bréfið upp og las það. Natan fleygði sér á grúfu í gólfinu og grét hástöfum. ,,Hvernig á ég að fá eina miljón á nokkrum klukkutímum?” var það eina sem Freyr gat greint í gegnum grátinn. Freyr settist niður hjá honum og tók utan um hann.
Eftir að hafa setið þarna og huggað Natan í hálftíma, fékk Freyr góða hugmynd. ,,Ég veit hvað við gerum!” hrópaði hann. Natan leit vantrúa á hann. ,,Sko, þú átt svona 400.000 kr inni á banka er það ekki? Fermingapeningur og launin þín síðan fyrr í sumar, er það ekki rétt hjá mér?” spurði Freyr. ,,Jú, en það er ekki nóg,” sagði Natan og fann vonleysið hellast yfir sig eins og brennandi kvikasilfur. ,,Ég veit það, en ég á 300.000 kr síðan í sumar og Kata á líka 300.000 kr síðan í sumar og ef við notum allan þann pening þá getum við fengið Rebekku aftur,” sagði Freyr. ,,Mundirðu gera það fyrir mig? Rebekku líka?” spurði Natan. ,,Auðvitað, Rebekka er líka vinkona mín. Við þurfum bara að hringja í Kötu og biðja hana um að hitta okkur í bankanum,” svaraði Freyr.
Klukkutíma síðar voru þau stödd heima hjá Natan. Natan var kominn með alla peningana í hendurnar og taldi þá. Þetta var akkúrat ein miljón. Hann setti peningana í skjalatösku sem hann hafði fundið inn í geymslu.
Þau sátu í sófanum og biðu þar til klukkan yrði ellefu, þá þyrfti Natan að leggja af stað. ,,En þú veist að þeir gætu hafa verið að ljúga. Heimtað peninginn og svo þegar þú ert búinn að láta þá hafa peninginn segja þeir þér að hún sé dáinn,” sagði Kata. ,,Nema ef að við erum með áætlun sjálf,” stakk Freyr upp á. ,,Eins og hvað?” spurði Natan. ,,Ég og Kata felum okkur einhverstaðar í grenndinni og ég verð með byssuna hans pabba og miða á þá. Ef eitthvað mistekst þá skýt ég þá. Kata verður einhverstaðar annarstaðar og reynir að finna Rebekku. Þá getur Kata bjargað Rebekku ef eitthvað mistekst,” sagði Freyr. Þeim leist öllum á þetta og Freyr fór til að sækja byssuna og Kata fór heim til að undirbúa sig.
Það var komið miðnætti og Natan stóð einn í Hellisgerði við tjörnina. Freyr hafði falið sig uppi í tré rétt hjá og Kata var í felum hjá bílastæðinu. Natan var stressaður og hræddur. Hvað ef allt myndi mistakast? Það var ekkert sem hann gat gert núna nema bíða eftir því að mannræningjarnir kæmu.
Hann hafði ekki beðið lengi þegar hann sá einhvern nálgast. Mann með byssu. Maðurinn stóð nú fyrir framan Natan og hann þekkti þennan mann. Gamli kennarinn sem Rebekka hafði kært.
Maðurinn hélt byssunni upp að hausnum á Natan. Tilbúinn til að skjóta. Natan skildi þetta ekki alveg. ,,Þú! Hvers vegna gerir þú þetta?” spurði Natan og horfði með fyrirlitningu á manninn. ,,Ég hafði alltaf haft augastað á Rebekku, ég þráði hana, snertingu hennar og hold. Ég fékk tækifæri til að vera einn með henni. Hún kærði mig og ég var dæmdur og fór í fangelsi. Konan mín skildi við mig því hún gat ekki horfst í augu við að maðurinn hennar væri barnaníðingur. Ég fæ ekki að hitta börnin mín og fjölskyldan mín hefur afneitað mér. Ég þrái aðeins hefnd. Ég mun taka peninginn, skjóta þig og Rebekku. Þið eyðilögðuð líf mitt. Eftir allt varst það þú sem hvattir hana til að kæra mig,” sagði maðurinn.
Á sama tíma var Kata á bílastæðinu. Hún gekk meðfram bílunum og kallaði á Rebekku. Rebekka heyrði til hennar. Hún byrjaði að öskra í angist sinni. Kata heyrði öskrin í Rebekku og fann þannig bílinn. Hún braut upp skottið með kúbeini sem hún hafði fundið í nærliggjandi garði og hjálpaði Rebekku út. Rebekka var örmagna af þreytu svo Kata studdi hana inn á milli runna þar sem þær földu sig og biðu eftir merki frá Frey og Natan.
,,Það ætti að hengja fólk eins og þig,” sagði Natan og hrækti framan í manninn. Hann brást hinn versti við. ,,Ég hef lengi beðið eftir þessari stund. Nú ferð þú á vit forfeðra þinna,” sagði maðurinn og áður en Natan gat gefið Frey merki, áður en Freyr gerði sér grein fyrir því sem var að fara að gerast, skaut hann Natan. Natan féll niður til jarðar.
Freyr var fljótur að bregðast við þegar hann sá vin sinn hníga niður í jörðina og skaut manninn um leið. Maðurinn féll niður dauður. Freyr stökk niður úr trénu og hljóp til Natans.
Stelpurnar höfðu heyrt skotið af byssu og svo annað skot. Þær fundu á sér að eitthvað slæmt hafði gerst og hlupu af stað. Þær hlupu þangað sem Natan hafði átt að hitta manninn. Þær sáu hvar Freyr kraup við hliðina á Natan. Natan hafði orðið fyrir skoti, hversu alvarlegu vissu þær ekki. Þær hertu hlaupið.
Þegar lögreglan mætti á svæðið sátu þau öll í kringum hann og grétu. Natan hafði verið skotinn í hausinn. Hann hafði látist samstundis.
Rebekka syrgir ennþá sína einu og sönnu ást. En hún getur þó huggað sig við þá hugsun að Natan er á miklu betri stað núna. Auk þess er hann ekki einn. Hann er með Janusi.
–Teresa Njarðvík
They Are Infected,