Bara ein gömul saga sem ég gerði fyrir löngu ;D

———————————————–

Við vorum fimm ára þegar við hittumst fyrst. Fimm ára litlir krakkar, ég og Birkir. Í fyrstu vorum við feimin hvort við annað og földum okkur á bak við mæður okkar, en þegar það var kominn tími til að fara heim fórum við saman og földum okkur fyrir þeim. Við vildum ekki fara heim, við vildum vera saman tvö. Að eilífu.
En svo gerðist svolítið sem breytti öllu. Þá var ég orðin tólf ára, hann ennþá ellefu. Við höfðum verið bestu vinir öll þessi ár. Við höfðum verið að leika okkur saman úti allan daginn, höfðum ekki einu sinni komið inn til þess að borða. Þegar tók að kvölda kom mamma mín og sagði okkur að koma heim. Við fylgdum Birki heim, og mamma hans bað okkur að koma inn fyrir í nokkrar mínútur. Við fórum inn og ég og Birkir stukkum beint inn í herbergið hans, og fórum að skoða steinasafnið okkar, sem stækkaði með hverjum degi sem leið. Við heyrðum að mömmur okkar töluðu um nýja vinnu, nýja vinnu í öðru landi. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum, og svipurinn á andliti Birkis sagði meira en þúsund orð. Hann var leiður, og ég vissi að hann vissi. Vissi að hann hefði ekki viljað segja mér þetta. Ég hljóp fram og móðir mín horfði sorgmædd á okkur. Hún sagði okkur að setjast niður, þær þyrftu að tala aðeins við okkur. Við gerðum það, og mamma Birkis sagði okkur fréttirnar. Hún hafði fengið nýja vinnu í Danmörku og þau Birkir ætluðu að flytja þangað. Hún vissi ekki hvað hún yrði lengi, ekki minna en fimm ár. Sagði að þau færu eftir viku.
Ég fór að hágráta, og hljóp út úr íbúðinni. Ég heyrði þau öll hlaupa á eftir mér, en mér var alveg sama. Ég vildi komast í burtu, ég vildi ekki fá að heyra meir um þessar slæmu fréttir. Ég hljóp þangað til ég var komin út úr hverfinu, og ég kannaðist ekki lengur við mig. Ég var týnd, villt í dimmri borginni. Ég skreið á bak við ruslatunnu og faldi mig. Eftir korter eða svo fann mamma mig. Hún hringdi í pabba sem kom og náði í okkur. Sagði að ég mætti aldrei gera þetta aftur, en ég var ekki að hlusta. Það eina sem komst að hjá mér var það að Birkir væri að fara, hann væri að fara og ég fengi ekki að sjá hann fyrr en eftir að minnsta kosti fimm ár. Þá værum við orðin sextán eða sautján ára. Fimm ár! Það var allt of langur tími. Hvernig datt mömmu hans þetta í hug? Að rífa Birki frá mér, taka hann með sér til annars lands. Danmerkur. Núna hataði ég Danmörku. Og hvernig átti Birkir að geta búið þar, hann var svo lélegur í dönsku.
Allt í einu vorum við komin heim til Birkis. Ég sá hann í glugganum, ljósa hárið og brúnu augun. Hann grét. Ég grét líka. Þessi vika leið hraðar en nokkur önnur vika í lífi mínu. Og allt í einu var hann farinn. Birkir var farinn, fluttur, horfinn af þessu landi. En ekki horfinn úr hjarta mínu. Við yrðum ávallt bestu vinir, sama þótt hann flytti út í geim. Við yrðum bestu vinir, alltaf. Að eilífu.
Árin liðu, ég eignaðist nýja vinkonu en ég gleymdi Birki aldrei. Við höfðum reynt að halda sambandi í gegnum bréfaskriftir fyrsta árið en smám saman hættum við því. Þá höfðum við líka sent hvor öðru afmælisgjafir í pósti, en við höfðum líka gefist upp á því. Ég hafði ekki sent honum neitt, en í dag var afmælisdagurinn hans, 6. júní. Ég hafði aldrei gleymt honum, en í dag fannst mér að hann væri nærri. Hlaut samt að vera vitleysa, Birkir var í Danmörku og ég var á Íslandi. Þetta var ímyndun, ímyndun því í dag var afmælisdagurinn hans. Ég rölti niður í bæ og skoðaði í búðir. Mamma var í vinnunni, og skólinn hafði klárast í gær. Svo sá ég hann. Birkir var hinum megin við götuna. Hann sá mig líka. Ég þekkti hann þó hann hefði breyst mikið. Hann var orðinn fullorðinslegri, en ég þekkti aftur litla strákinn sem hafði verið besti vinur minn. Hann veifaði og hljóp yfir til mín. En hann komst aldrei alla leið.
Allt í einu heyrðist dynkur og ég lokaði augunum. Þegar ég opnaði þau sá ég Birki liggjandi á jörðinni. Blóð lak úr höfði hans og ljósa hárið var næstum rautt af blóði. Ég öskraði og hljóp til hans. Hann var náfölur, og bærði ekki á sér. Ég hélt hann væri dáinn. Bílstjórinn brunaði í burtu og fólk var farið að hópast í kringum okkur. Einhver hringdi á sjúkrabíl, og hann kom fljótt og tók okkur upp á spítala. Ég beið frammi á meðan þau skoðuðu Birki. Ég grét og grét, ég einfaldlega gat ekki hætt að gráta. Ég sá mömmu Birkis í gegnum tárin þegar hún gekk inn í stofuna hans. Ég beið lengi þarna frammi, en ég vissi samt ekkert hvað tímanum leið. Ég var hætt að gráta, og sat bara þarna þögul. Þá opnaðist hurðin og mamma Birkis kom fram.
Ég sagði henni að þetta hefði allt verið mér að kenna, ég hafði veifað til Birkis og þess vegna hafði hann hlaupið yfir götuna. Hún sagði að ég ætti alls ekki að kenna sjálfri mér um þetta, þetta væri engum að kenna. Svona gerðist bara stundum og nú þyrftum við aðeins að vona það besta. Hún sagði mér að maðurinn sem keyrði á Birki hefði verið undir áhrifum áfengis, lögreglan, væri búin að ná honum. Hún sagði að ég mætti koma og kíkja á Birki ef ég vildi, og ég gerði það. Þegar ég sá hann táraðist ég. Hann lá þarna og ég hélt aftur að hann væri dáinn. Ég settist niður og talaði við hann. Ég talaði og talaði, um hvað mér þætti þetta leitt og hvað ég hefði saknað hans. Allt í einu bærði hann á sér. Ég sá að hann var að reyna að segja eitthvað og hallaði mér upp að honum. Ég heyrði að hann sagði: „Við verðum alltaf bestu vinir. Að eilífu.“