Fyrsta sagan mín hér inná /smásögur. En í íslenskutíma fyrir nokkrum vikum fengum við verkefni um að skrifa einhverja “æskuminningu” í fyrirfram ákveðnum stíl. Sjálfur var ég frekar ánægður með útkomuna og kennarinn líka svo ég ákvað að setja þetta bara hér inn..



Klukkan var að verða hálf 8 þegar allir voru komnir. Þarna voru samankomnir flestir krakkarnir úr bekknum, nema Gunna og Jói, þau vildu aldrei vera með. En við hin hópuðumst í miðjunni á Eiðsvellinum, sem var beint fyrir framan húsið mitt. Við skiptum í tvö lið og ég var í bófaliðinu. Mitt lið fékk sirka eina mínútu til að hlaupa og fela sig á meðan löggurnar láu á grúfu og töldu.
Við þutumst af stað, og ég beygði inn í garðinn hjá saumastofunni hennar Jónínu og faldi mig þar á bak við ruslatunnu. Hinir bófarnir hlupu aðeins lengra, en ég vildi vera nær fangelsinu til þess að frelsa hina ef þeim var náð.
Svo allt í einu var hrópað sextíu, og þá reyndi ég að vera eins kyrr og ég gat, því minnsta hljóð gæti komið upp um mig. Ég kíkti fyrir húshornið og sá löggurnar hlaupa í áttina að mér. Addi tók á sprett þegar hann sá glytta í einn bófann, og maður vissi að núna væri einn kominn í fangelsið, þar sem Addi hleypur hraðast í bekknum og ekki möguleiki að komast undan honum.
En svo heyrði ég þrusk, ég kíkti fyrir hornið og sá Telmu vera að beygja í sömu átt og ég kom. Ég brosti, enda vissi ég að hún kæmi alltaf þessa leið. Ég reyndi að láta sem minnst fara fyrir mér, og fikraði mig hinum megin við veggin svo hún myndi ekki sjá mig. Núna var hún komin að húshorninu og þurfti bara að snúa hausnum til að sjá mig. Þá greip ég tækifærið og skaust af stað, Telma var fljót að átta sig en ég var kominn með smá forskot og stökk yfir grindverkið í næsta garði og útá gangstéttina. En þá hljóp ég beint þar sem Addi stóð og náði hann mér fljótt. Í því kom Telma útúr garðinum og sá að búið var að ná mér. Ég leit á hana og brosti, og hún sagði við Adda að hún skyldi fara með mig í fangelsið, hann væri svo fljótur að hlaupa og nýttist betur í að ná hinum. Ég brosti ennþá breiðar og hún brosti á móti um leið og hún tók undir handlegginn á mér til þess að gæta þess að ég slyppi ekki frá henni á leiðinni í fangelsið.
Við spjölluðum saman á leiðinni. Það var gaman að tala við Telmu og við nutum félagsskapar hvors annars. Hinir krakkarnir höfðu oft sagt að við værum kærustupar en það var bara rugl, við vorum bara rosalega góðir vinir. Þó við vissum reyndar af tilfinningunum þegar við viðurkenndum það fyrir hvort öðru í síðustu viku.
En núna var ég kominn í fangelsið og spjallinu var lokið í bili. Hún setti mig í stranga gæslu hjá þeim sem pössuðu fangelsið, brosti til mín og fór svo aftur af stað til þess að ná hinum bófunum.
Í því kom Addi með Pétur undir hendinni, en Pétur hafði ætlað að reyna að frelsa okkur sem voru í fangelsinu. En þar sem löggurnar höfðu náð öllum bófunum þá var tími til að skipta um hlutverk. Svo við lögðumst á grúfu og töldum upp í sextíu. Við heyrðum í fótatökum þeirra sem hlupu eins og fætur toguðu í allar áttir í von um að finna góðan felustað. Loks kölluðum við sextíu og fórum af stað, enda ætluðum við að ná bófunum á betri tíma en þau höfðu náð okkur. Við skiptum liði og ég beygði eins og vanalega inn í garðinn hjá saumastofunni enda vissi ég að Telma væri þar. Og viti menn, hún var þar og það var augljóst að hún átti von á mér enda þeyttist hún af stað. Hún sneri á mig, náði að komast framhjá mér og aftur útúr garðinum. En þar hljóp hún beint þar sem Pétur var og náði ekki að hlaupa undan honum. Ég stökk svo útúr garðinum og sagði við Pétur að ég gæti alveg farið með Telmu í fangelsið. En hann sagði að þetta væri allt í lagi, hann gæti það alveg. Og ég mótmælti ekki, enda hefðu allir farið að kalla mig og Telmu kærustupar ef ég hefði reynt eitthvað meira að fá að fara með hana svo ég sleppti því, vonsvikinn. Telma leit í áttina að mér og brosti enda vissi hún alveg hvernig mér leið að sjá hana fara með Pétri. Ég brosti á móti og fékk orkuna á ný í þann mund sem ég sá glytta í Adda í einum runnanum. Ég þaut af stað svo Addi hafði ekki nægan tíma til að standa upp svo ég náði honum. Labbaði svo sigri hrósandi í áttina að fangelsinu og hélt fast í handlegginn á honum. Mér var vel fagnað enda vissu allir að það var enginn leikur að ná að fanga Adda.
En þá allt í einu skaust Siggi úr runnanum hjá fangelsinu og náði að frelsa alla í liðinu sínu. Þau hlupu öll af stað áður en við náðum að átta okkur svo við ákváðum bara að leyfa þeim að fela sig á meðan við gerðum nýja áætlun til að ná þeim. Ég horfði á eftir þeim hlaupa niður götuna og sá að Telma leit brosandi um öxl um leið og hún skaust aftur inn í garðinn hjá saumastofunni..