Lítil saga sem ég gerði úr hugmynd sem mér dreymdi. Gerði hana á svona klukkutíma, þannig að kannski er hún ekki sú vandaðasta, en samt.
Öll svör vel þegin ;D
Konan gekk hægum skrefum niður heimreiðina. Hún stoppaði við póstkassann, en þar var enginn póstur. Ekki það að henni kæmi það eitthvað á óvart. Hún fékk aldrei póst.
,, Sæl Guðríður ” segir eldri kona sem hún hittir á leiðina í kjörbúðina.
Þetta er góðlátleg kona, Guðríður tekur undir kveðjuna og brosir fallega. Kjörbúðin er til húsa nálægt sjónum, og þegar Guðríður kemur þangað er hún móð af áreynslu. Áttræðar konur eiga ekki að vera að þvælast einar á miðjum morgni, það segja allir.
En hún tekur ekki undir svona vitleysu, sérstaklega þegar hún þarf nauðsynlega að komast í búð. Hún býr á sveitabæ í kílómetra fjarlægð, og hefur alla sína tíð farið fótgangandi.
Það er ekki sála í kjörbúðinni svona snemma dags, klukkan ekki orðin níu. Þegar Guðrún gengur inn þá ískrar í hurðinni og gólfið brakar undan henni. Hún reynir að rifja upp í huganum hvað hún ætlaði að kaupa, en man í augnablikinu bara eftir mjólk og sykri.
Guðrún hefur alltaf verið sparsöm og reynir að komast af með sem minnst, hún er bara fátæk gömul kona sem býr ein.
Þegar hún kemur að búðarborðinu með pela af mjólk og sykur í poka, hringir hún bjöllu til að fá afgreiðslumann. Björn kaupmaður kemur í sama mund, ógreiddur og það leggur af honum vond lykt.
Guðríður flýtir sér að borga en man svo eftir því sem hún hafði einsett sér að gleyma ekki.
,, Ertu ekki með einhver leikföng fyrir mig, ég ætlaði að muna eftir afmælisgjöf fyrir hann Sigurð minn?”, segir Guðrún lágum en staðföstum rómi.
Björn kaupmaður sýnir henni leikföngin sem þau eru með, en þau eru öll of dýr fyrir hana. Hún á bara 10 krónur og hún fær engin laun nú til dags, þannig að allar krónur verður að fara sparlega með.
Eina sem Björn á, er leikfang sem þau fundu í búðinni og ákváðu að selja aftur. Þetta er lítill kringlóttur hlutur, fallegur á litinn og kostar ekki nema 8. krónur.
,, Þú færð boltann á 7. krónur, en skilaðu kveðju til hans Sigurðs”, segir Björn við hana og setur boltann í fallegan poka.
Guðríður réttir honum seðilinn titrandi höndum, og kastar svo kveðju á kaupmanninn.
Hún fer út og stefnir á húsið í hjarta bæjarins, stóra steinhúsið með snyrtilega garðinum. Þar býr Sigurður með foreldrum sínum, þau eru mjög efnuð og búa í vellystingum.
Þegar Guðríður kemur upp tröppurnar þá heyrir hún hlátrasköll, hún bankar á tréhurðina og rjóðeygður drengur kemur til dyra.
,, Sæll Sigurður minn, til hamingju með afmælið”, segir hún og gefur honum koss á kinnina. Hann býður henni inn í eldhús þar sem hún fær kaffi og kleinur.
Sigurður er inni í borðstofu með vinum sínum, á gólfinu liggur marglitaður bolti. Guðríður kannast við hann úr búðinni. Sá hafði kostað 70. krónur.
Hún finnur tárin leita fram í augnkrókana, hvað er hún að gera með þessu fína fólki. Sigurður yrði ekkert þakklátur fyrir gjöfina, svona litla og ómerkilega. Hún hæfir ekki fínum dreng eins og honum Sigurði. Guðríður var fljót að þakka fyrir sig og kyssti Sigurð á ennið. Óskar honum góðs gengis í framtíðinni og vefur pokanum með boltanum þéttar að sér, innan undir kápunni.
Þegar Guðríður er komin út brestur hún í grát, tárin leka niður hrukkóttar kinnarnar þegar hún hraðar sér heim malarveginn. Hún hefði átt að vita að hann fengi miklu flottari gjafir. Gjafir sem hún hefði aldrei efni á. Fátæk einstæð kona sem bjó í lekum kofa, og átti varla nóg fyrir mat. Hún gengur reikulum skrefum heim á leið og óskar að henni hefði aldrei dottið þetta í hug.
Þegar hún kemur heim þá leggst hún á legubekkinn, og ákveður að taka boltann úr pokanum og skoða hann. Hún handleikur hann varlega, eins og hann væri lítið og brothætt egg. Mikið er hann fallegur, hugsar hún og brosir gegnum tárin.
Þetta er fyrsta leikfangið sem hún hefur átt á ævi sinni, svona fallega röndóttur bolti. Fjölskylda hennar var fátæk og hún fékk ekki leikföng eins og önnur börn. Guðríður hallar sér aftur og lokar augunum.
Hún sofnar með bros á vör, og fallega litla boltann í fanginu.