Endilega segi þið mér hvað ykkur finnst.
1.kafli
Bakaríis-Bræðurnir
,,Hvert erum við að fara?“ spurði ég og stóð stjörf.
Yfir mér gnæfði gamalt, drungalegt, þriggja hæða hús sem hafði verið málað hvítt á sínum tíma en bar nú engan heildarlit. Ég renndi augunum yfir bugðótta bárujárnsveggina og þurfti að snúa höfðinu á alla kanta til að fá eitthvað samhengi í munstrið sem sprungurnar og ryðblettirnir mynduðu. Mosavaxinn steypukanturinn var grænn í stíl við fúna gluggakarmana.
Fyrir framan húsið stóð ljósbrún Lada Sport á annars tómu bílaplaninu. Gömul og ryðguð drusla með plasti í framrúðunni. Ladan var nánast samgróin planinu og hafði staðið þarna svo lengi sem ég mundi eftir mér.
,,Hvað ertu að hangsa?“ kallaði Oddný sem var komin langt á undan mér.
Það var komið fram á sumar og fjórða bekk lokið. Þó svo ég ætti ekki afmæli fyrr en í desember fannst mér samt eins og ég hefði elst um eitt ár. Oddný átti ekki nema tvö ár eftir af skólanum og því þónokkuð eldri. Þrátt fyrir þennan aldursmun vorum við orðnar góðar vinkonur.
,,Ertu að koma?“, heyrðist bergmálast inn undan skýlinu fyrir ofan útidyrnar.
Ég hafði það á tilfinningunni að eitthvað dularfullt biði mín innan þessara veggja og hikaði eitt augnablik á meðan ég dró djúpt inn andann.
,,Ertu viss um að við megum fara þarna inn?“, spurði ég efins.
Oddný brosti og kinkaði kolli.
,,Já, auðvitað. Þetta eru frændur mínir, þú veist það!“
Bakaríis-Bræðurnir. Það vissu allir hverjir Bakaríis-Bræðurnir voru. Blautir sjómenn en bestu grey, var alltaf sagt án þess þó að ég vissi nokkuð hvað það þýddi. Faðir þeirra var bakari bæjarins. Hann hafði opnað bakarí í kjallara hússins sem stóð í miðbæ síns tíma alveg við aðalgötuna. Það var þó ekki fyrr en bæði hann og konan hans voru fallin frá að bræðurnir fengu þessa nafngift. Þrír uppkomnir, miðaldra Bakaríis-Bræður bjuggu því enn í sama húsi og þeir höfðu alist upp í. Í raun höfðu þeir aldrei komist lengra frá æskustöðvunum en hinum megin við götuna. Á bryggjuna og út á sjó.
Ég gekk hálf skömmustuleg upp tröppurnar.
„Halló?“ kallaði Oddný um leið og hún opnaði þungar útidyrnar, „er einhver heima?“
Ekkert svar.
Hún rétti fram höndina en ég hikaði við að taka í hana. Ég leit í kringum mig til að athuga hvort nokkur væri á ferli en allt virtist með kyrrum kjörum. Þegar ég loksins áttaði mig á því að það væri núna eða aldrei, leit ég aftur við og sá að Oddný var komin inn.
,,Ég er hrædd!“ snökkti ég um leið og ég stökk inn í þetta óviðkunnuglega hús.
Ég fann hvernig rykfnykurinn kom á móti mér. Í forstofunni héngu þrír vel snjáðir jakkar, allir á sitthvorum króknum og hálf götóttir skór lágu á víð og dreif um steingrátt teppið. Ég tók mig saman í andlitinu og byrjaði að fikra mig eftir annars tómum og einmanalegum ganginum. Það marraði í gólfinu við hvert fótatak mitt og óþægileg tilfinning færðist yfir mig.
,,Vá hvað allt er skítugt“, sagði ég upphátt án þess að hugsa mig frekar um.
Oddný hafði augljóslega heyrt í mér og kallaði á mig úr eldhúsinu.
,,Já, það býr engin kona hérna“, svaraði hún um hæl þegar ég steig yfir háan eldhúsþröskuldinn.
Húsgögnin sem áður höfðu verið tignarleg voru búin að missa sjarmann og orðin gömul og lúin. Ég litaðist um. Nokkrir eldhússkápar héngu á hjörunum og þrátt fyrir lítillátlegt yfirbragð virtust þeir yfirmáta fullir af allskyns góðgæti. Ískápurinn stóð þar hliðina á hulinn seglum og úrklippum. Ég gekk nær og sá að þarna héngu bæði myndir, fréttir og mataruppskriftir.
Oddný settist niður.
,,Eiga þeir engin börn heldur?“, spurði ég og settist líka.
Ég sá hvernig mótaði fyir fótsporum í gólfdúknum.
,,Nei,“ svaraði Oddný, ,,þeir búa bara einir.“
Matarborðið var fullt af mylsnu og smápeningum. Þarna voru líka dagblöð, spil og sígarettupakkar. Á eldhúsbekknum lágu síðan fjórir öskubakkar fullir af hálfreyktum sígarettum.
,,Hvað heita þeir eiginlega?“, spurði ég hugsi.
,,Hrafnkell, Arnljótur og Logi“, svaraði Oddný.
Það rifjaðist upp fyrir mér að einhverntíman höfðum við pabbi keyrt niður á bryggju. Þar hafði ég séð hálfsofandi mann uppá gulum rafmagnskassa að vetrarlagi. Þarna sat hann og lét renna af sér fyrir næstu siglingu.
Allt í einu var útidyrahurðinni skellt og ég fann hvernig hrollur fór um mig alla.
,,Halló“, kallaði Oddný og spratt á fætur.
Ég sat sem fastast.
,,Halló?“, heyrðist til baka inn ganginn, djúpri karlmannlegri röddu.
Ég leit skelkuð á Oddnýju en sá hvernig það færðist yfir hana bros þegar skeggjaður maður kom innum dyragættina.
,,Nei, eru þið hér?“, sagði maðurinn og leit á okkur til skiptis.
,,Já“ svaraði Oddný, „okkur langaði bara að kíkja í smá heimsókn.“
,,Í heimsókn já“, sagði hann og brosti vingjarnlega.
Ég sá ekki betur en að þetta væri vinalegur maður, á að giska um fimmtugt. Hann var ekki mjög hár vexti en náði þó upp í efstu hillu eldhúsinnréttingarinnar án nokkurrar fyrirhafnar.
,,Vilji þið eitthvað drekka?“, spurði hann og teygði sig inní skáp eftir glasi.
Ég komst ekki hjá því að sjá húðflúrið sem kom neðan úr uppbrettri skyrtuerminni og náði honum alla leið frá olnboga niður á handarbak. Ég pírði augun til að reyna ná betri fókus. Útlínurnar voru orðnar máðar og myndin hafði mætt örlögum ellinnar.
,,Já takk“, svaraði Oddný og ég kinkaði kolli henni til samþykkis.
,,Það mætti þó ekki bjóða ykkur koníak?“, spurði hann mjúkri röddu og hló.
Hann teygði sig eftir hálftómri vínflösku sem var velfalin á bakvið kaffivélina og hellti sér í glas.
,,Nei, ég býst nú passlega við því að þið séuð ekki farnar að drekka svoleiðis“, sagði hann svo.
Maðurinn tók drjúgan sopa af koníakinu og gekk út úr eldhúsinu.
,,Hver af þeim er þetta?“, spurði ég Oddnýju forvitin.
,,Þetta er Arnljótur“, svaraði hún.