Fyrsti hluti
Fyrsti hluti
„Stoppaðu,“ Dagný náði varla andanum, „Sindri.“ Hún grét stjórnlaust. Sindri faðmaði hana að sér.
-„Við verðum að halda áfram.“ Hún ýtti honum frá sér.
-„Allt þetta fólk,“ hún þurrkaði sér um augun, „var það…“
-„Dagný…“ Honum datt ekkert í hug sem hann gæti sagt til að hugga hana. „Við verðum að halda áfram.“ Hann gekk af stað. Þau voru búin að hlaupa í um 20 mínútur en það leit ekki út fyrir að myrkranornin væri að elta þau. Hún mun ná okkur.
-„Var það öskrið?“ kallaði Dagný á eftir honum. Hann stoppaði.
-„Dagný…“
-„Drap hún allt fólkið með þessu öskri?“ Hún var farin að gráta aftur, en rólega í þetta skiptið. Röddin hennar skalf.
-„Já,“ svaraði Sindri, „þetta er í raun galdur. Það er reyndar ótrúlegt að þér tókst að þagga niður í henni.
-„Hvað meinarðu?“ Dagný horfði á hann ringluð.
-„Þetta var öflugasti þagnargaldur sem ég hef nokkurn tímann séð og þú fékkst krafta þína bara í gær,“ hann hristi hausinn, „þetta var ótrúlegt.“
-„Hvað með farangurinn okkar?“ Hún var hætt að gráta og röddin var orðin eðlileg.
-„Við verðum bara að skilja hann eftir.“
-„Og galdurinn?“ spurði hún, „Allt sem þú varst að þýða?“
-„Komdu,“ svaraði Sindri og rétti út hendina.
-„Ertu hættur við að flýja yfir í aðra vídd?“
Sindri dró upp miða úr vasanum sínum.
-„Hann er hérna, galdurinn. Og þýðingin.“ Dagný hristi hausinn. „Og samkvæmt þýðingunni getum við farið í kvöld. Það er staður hérna í bænum…“
-„Nei,“ röddin hennar var ákveðin, „við erum ekki…“
Annar hluti
Dagný hætti að tala og starði á lítinn blett á himninum. Hann nálgaðist þau hratt.
„Sindri, hvað er þetta?“ Hann leit við en áður en hann náði að segja neitt rann það upp fyrir henni. Myrkranornin. Hún greip í höndina á Sindra og ætlaði að hlaupa af stað en hann hélt henni fastri.
„Sindri,“ öskraði hún.
-„Við getum ekki flúið.“
Myrkranornin stoppaði í loftinu nokkrum metrum frá þeim. Hún sat á bláeikargrein.
„Vertu tilbúinn,“ sagði Sindri rólega.
-„Flamma Orbis,“ kallaði Myrkranornin, beindi lófanum að þeim og úr honum skaust eldkúla.
Sindri ýtti Dagnýju frá sér, sem datt á harða gangstéttina. Hann rétt náði að stökkva frá áður en eldkúlan lenti á malbikinu þar sem hún sprakk og skildi eftir sig svartan blett. Myrkranornin henti annarri eldkúlu, að Dagnýju.
-„Incedio Contego,“ kallaði Sindri og eldkúlan gufaði upp líkt og hún hefði lent á ósýnilegum veggi.
„Finndu eitthvað í bókinni sem getur hjálpað okkur að komast undan…“ Myrkranornin kastaði annarri kúlu en í þetta sinn var hún ekki úr eldi heldur einhverju sem Dagnýju fannst líkjast svörtum reyk.
-„Contego,“ kallaði hún og aftur gufaði kúlan upp í loftinu en Dagný fékk högg á sig eins og hún hefði orðið fyrir henni.
-„Dagný!“ öskraði Sindri reiðilega, „ég skal sjá um að verja okkur, leitaðu bara í bókinni.“
Dagný fór að flétta í galdrabókinni svo hratt að hún gat rétt svo lesið eitt og eitt orð á hverri opnu. Á meðan hélt myrkranornin árásinni áfram og Sindri notaði hvern varnargaldurinn á fætur öðrum.
Þriðji hluti
„Celidus Contego,“ sagði Sindri andstuttur og frostkúlan gufaði upp. Hann var að verða þreyttur. Koma svo, Dagný. Hann sagði ekkert til að stressa hana ekki. Of mikill ótti gæti komið í veg fyrir að hún gæti galdrað. Önnur kúla skaust að þeim.
„Contego!“
Í hvert skipti sem Sindri varð fyrir högginu sem fylgdi vörninni leið honum eins og hann gæti ekki meir. Sársaukinn jókst í hvert skipti.
-„Ég fann eitthvað,“ kallaði Dagný.
-„Umbra Contego,“ Sindri missti fótanna við höggið.
-„Ertu búinn að fá nóg?“ skrækti myrkranornin og hló gleðisnauðum hlátri. Sindri lyfti sér upp af gangstéttinni en hendurnar hans gáfu sig. Hausinn á honum skall í gangstéttina.
Fjórði hluti
Dagný skreið að Sindra. Hann lá meðvitundarlaus á gangstéttinni og virtist eiga erfitt með að anda.
„Flamma Orbis,“ heyrði Dagný myrkranornina segja. Án þess að líta frá Sindra sagði hún: „Incedia Contego.“
Hún var viðbúin högginu í þetta sinn og fann varla fyrir því. Hún stóð síðan á fætur og ýtti hárinu frá andlitinu.
„Veistu, ég er orðin frekar pirruð á þessu,“ Hún talaði út um samanbitnar tennurnar og gat varla hamið röddina af reiði. „Flamma Orbis,“ sagði hún ákveðin og fann um leið töfra þjóta um sig, en þeir voru öðruvísi en venjulega. Hún fann að þeir voru slæmir. Hún fann illsku streyma um sig alla. Svartagaldur. Lítill neisti kviknaði í lófanum hennar. Hann stækkaði hratt og varð að stórri eldkúlu sem Dagný kastaði að myrkranorninni.
-„Incedia…“ byrjaði myrkranornin en eldkúlan hæfði hana í brjóstið. Hún datt af bláeikargreininni en eldurinn dreifðist um hana alla og áður en hún lenti á jörðinni hafði hún fuðrað upp. Bláeikargreininn féll á gangstéttina og um hana þyrlaðist aska, það eina sem var eftir af myrkranorninni.
Dagný fann ennþá illskuna innra með sér. Hún féll niður á hnén og ældi. Síðan lét hún sig falla á hliðina.