Klonk! Ég hrekk upp með andfælum og sé fuglinn staulast á fætur, hálfflæktur í síðum gluggatjöldunum. Ég lít út um lokaðan gluggann og síðan á opna gluggann andspænis. Fuglsgreyið hefur ætlað að stytta sér leið gegnum litlu þakíbúðina í húsi númer 42. Hann liggur núna hálfrænulaus á gólfinu.
Ég, rétt eins og fuglinn, staulast veiklulega á fætur. Ég tek nokkur róleg skref í átt að vesalingnum, hann lítur skelfingu lostinn á mig. Ég ákveð að ná í múslí.
Á leið inn í eldhús sé ég kirkjuturninn út um gluggann, klukkuna vantar átján mínútur í níu, þá hef ég nægan tíma. Ég held rólegur áfram ferð minni í átt að eldhúsdyrunum.
ÁTJÁN MÍNÚTÚR Í NÍU!!? Ég hringsnýst í sporunum.
Á ég kannski að klæða mig fyrst? Ég stekk inn í eldhús. Gríp múslípokann. Stekk fram aftur. Hendi múslíkornum í fuglinn. Róta í fatahrúgunni. Klæði mig í svarta hettupeysu, gallabuxur og mislita sokka. Gríp skólatöskuna, símann, veskið og svipast um eftir iPodnum. Ég sé hvíta snúruna stingast undan sænginni og kippi hljómtækinu undan henni. Síðan treð ég mér í fyrstu skóna sem verða á vegi mínum. Þeir eru aðeins of litlir, 42 ekki 43.
Ég hleyp síðan niður 42 tröppur og út um dyrnar. Ég sé strætisvagninn nálgast og tek á harðasprett í átt að strætóskýlinu. Vagninn þýtur framhjá og frussar brúnu götuvatninu yfir mig allan, rétt áður en hann hægir á sér við biðstöðina. Ég sé illskuglottið á andliti bílstjórans.
„Ég skal ná honum!“ Ég eyk hraðann og rétt næ inn í vagninn áður en vonsvikinn bílstjórinn keyrir af stað á eftir langri röð rauðra ljósflugna.
Ég sest við gluggann. Ég horfi út á óþolinmótt fólkið í bifreiðunum sem raðast eins og tetriskubbar við götuljósin. Andlitið mitt er svo nálægt rúðunni að ég hætti að geta virt bílana fyrir mér. Ég sé bara hvítt.
Ég sting hvítum heyrnatólunum í eyrun og heyri raddir Lennons og McCartneys syngja um byltingu. Síðan teikna ég fugl á rúðuna. Ég vanda mig. Ég sé glitta í Kringluna útum augu fuglsins.
Ég tek Sölku Völku upp og fletti á síðu 42. Uss, Salka, áminti móðirin. Hvað ertu að brúka ókurteisi í ókunnugum húsum?
Ég lít upp og skrifa S-A-L-K-A með stórum stöfum undir myndina af fuglinum.
Ég tek GSM-símann upp og slæ heimasímanúmerið mitt inn. Bííb! Bííb! Bííb! Ég bíð eftir símsvaranum. „Hæ! Salka? Hvernig fannst þér múslíið? Ég kem heim klukkan tvö, ekki fara! Við sjáumst!“ Ég þrýsti á rauða símtólshnappinn. Ég sé að klukkan er 09:24. Fjörutíu og tvær mínútur síðan ég hitti Sölku.
We all live in the