Ég veit ekki hvar ég á að senda inn smásögu þannig að
ég geri það bara hér og nú. Ég er byrjaður á henni,
þetta er nú bara uppkast, kannski getur einhver annar
búið til endi á hana. Klárað hana. Ég er 14 strákur
og ég er að reyna að búa til smásögur og það gengur
ágætilega en ég hef aldrei fengið neina alvöru
gagnrýni. Kannski að þið getið gert það. Á ég
einhverja framtíð eða á ég bara að sleppa þessu og læra
pípulagningar?
En alla veganna, hérna er sagan mín um Rauðhærðu konuna
í sjoppunni:

Rauðhærða konan í sjoppunni

Skyldi hún ekki hún ekki örugglega vera að vinna? Ég
gekk með fram glugga sjoppunnar og reyndi að sjá hana.
Jú, hún var að vinna. Rauðhærða konan í sjoppunni var
að vinna. Rauðhærða konan þí sjoppunni var góð kona.
Öllum þótti vænt um hana. Ekki svona væntumþykkja eins
og þegar manni þykir vænt um jólasveininn eða mömmu
sína, nei, væntumþykkja í garð hennar var líkt og
væntumþykkja í garð frænku manns. Rauðhærða konan í
sjoppuni var sem sagt eins og frænka manns. En þeir
sem áttu þessi reiðinni býsn af frænkum eins og oft
vill verða (sumir eiga margar frænkur vegna þess að þær
elstu neita að deyja, þetta er satt! Og ef þær deyja
ekki geta þær sem yngri eru ekki dáið og þannig vindur
þetta upp á sig líkt og kökukefli vindur vott deig upp
á sig en til þess að það gerist ekki þarf að nota
hveiti, það virkar á deigið en ekki frænkurnar).
Sumir, kannski flestir litu á hana sem ömmu þótt hún
væri ekki komin með staf og hlandpoka. Það sem skipti
var að öllum þótti vænt um hana. Hún var ekki eins og
venjulegar rauðhærðar sjoppukonur eiga að vera; 22 ára
gamlar, pirraðar og bílslausar. Nei, hún var um
fertugt, aldrei pirruð og hafði líklegast átt um sjö
bíla. Eins og fyrr segir þá varð hún ekki pirruð, ekki
einu sinni á laugardögum þegar lítil börn komu með 150
krónur og báðu um bland í poka og vildu velja sjálf.
Nei, hún sagði bara já og amen. Rauðhærða konan í
sjoppunni var fastur liður í lífi marga. Hún var eins
og myndir uppi á vegg eða bækur í bókahillu; enginn tók
eftir henni fyrr en hún hvarf eða skipti um útlit.
Rauðhærða konan í sjoppunni kunni utan að hvað allt
kostaði. Stundum fór ég í sjoppuna til hennar bara til
þess að spyrja og keypti mér og appelsín þegar hún
hafði gert allt rétt. Það fór, eins og allt annað,
ekkert í taugarnar á henni, hún svaraði mér bara og
raðaði snakki í hillur. Rauðhærða konan í sjoppunni
var lítil kannski svona 157 cm kannski 158, ég er ekki
viss hún átti svo mörg pör af skóm að stærð hennar var
mismundandi eftir dögum. Á þeim dögum sem hún var í
svörtu þykkbotna skónum var hún alveg örugglega um 162
cm, ég er viss um það, handviss. Rauðhærða konan í
sjoppunni vissi mikið hún var greind með afbrigðum.
Hún fór létt með það að fallbeygja orð eins og læknir,
bók og að sjálfsögðu kunni hún að fallbeygja sjoppu.
Það var líka skylda að kunna að fallbeygja það. Á
hverjum degi kom ég ásamt vinum mínum og keypti mér
appelsín, pylsu og tyggjó til þess að eyða
lauklyktinni. Hún vissi hvað við vildum, ég vildi með
öllu, Gunnar Páll með tómati og gúrkum sem hann kom með
sjálfur og hún setti á fyrir hann. Hún var best í
heima. Mig langaði oft að knúsa hana en hún var hinum
megin við búðarborð og það mátti hvorki klifra yfir það
eða fara þar inn innganginn, á innganginum stóð: aðeins
fyrir starfsfólk. Það var búið að taka essið, einhver
unglingurinn ábyggilega! En þótt essið væri ekki gaf
það mér ekki rétt til þess að knúsa hana.
Einn daginn hlupum við vinirnir í rigningu upp í
sjoppu eins og venjulega. Það var vont veður;
rokarassgat og þess vegna gat ég ekki litið inn um
gluggann áður en ég gekk inn. Ég þurrkaði vatnið af
mér með gömlum klút sem ég var alltaf með í
pollajakkanum mínum. Ég leit upp og beið þess að sjá
viturt, þreytt en gott andlit rauðhærðu konunnar í
sjoppunni. Hún var ekki þarna. Hvers vegna? Hvert
hafði hún farið?
Þann daginn keypti ég ekki pylsu, mig langaði ekki í
pylsu. Þann daginn hlustaði ég ekki á kennarann í
íslenskutíma. Þann daginn talaði ég lítið í
lífsleikni. Mér var þungt niðri. Hvar skyldi hún
vera? Það liðu nokkrir dagar og aldrei kom rauðhærða
konan í sjoppunni. Alltaf gekk ég upp í sjoppu með
vinum mínum, mig langaði í pyslu sem rauðhærða konan í
sjoppunni gerði fyrir mig en hún var aldrei í vinnunni.
Hún mætti ekki. Einn daginn spurði ég nýja
afgreiðslumanninn, sem reyndar mætti aldrei rakaður í
vinnuna; var subbulegur, hvar rauðhærða konan væri.
Hann svaraði mér: ,,hvernig á ég að vita það
drengskratti. Ég var bara látinn mæta hingað í vinnu
klukkan átta. En má ég spyrja ungi maður hvernig
dettur þér í hug að trufla mig í vinnunni með einhverri
spurningu eins og þessari? Er ég í þínum augum
einhvers konar gagnabanki sem þú sækir upplýsingar í
þegar þér hentar. Ha? Nei, keyptu eitthvað til
tilbreytingar eða farðu bara út. Já, svona snautaðu.”.
Mér var alveg sama hvað hann segði. Hann var ekki
einu sinni rakaður. Maður á ekki að taka mark á
ósnyrtilegu fólki, ósnyrtilegheit segja nefnilega svo
mikið hvernig manneskjan er og hann var greinilega ekki
mikil manneskja og það gaf mér leyfi til þess að taka
ekki mark á honum. En ég hafði áhyggjur af rauðhræðu
konunni í sjoppunni.
Það var laugardagur og við vorum að fara til
tannlæknis. Til tannlæknis á laugardegi vegna þess að
tannlæknirinn ruglaði saman dögunum í æsku, var alinn
upp þannig að hann hélt laugardaga þriðjudaga. Hefur
hann ekki enn þá breytt því. Þetta sagði pabbi mér.
Við keyrðum á corolunni okkar hægt í snjónum. Við
hlustuðum á gufuna.