Þar sem ég gekk út úr húsi vinkonu minnar að verða eitt á miðvikudagskvöldi tók á móti mér tómleiki. Um vel upplýstar göturnar lá snjór en göturnar voru tómar og mannlausar. Ég setti heyrnartólin á mig og gekk um einmanna göturnar í takt við tónlistina, þar sem eina lífið var einstaka bíll og mannsála inn í tíu ellefu. Er ég gekk niður götuna fóru augu mín að leita til himins. Tunglið blikaði umkringt skýjum og stöku stjörnur mátti sá, en hvað var nú þetta? Svona bjart ský?
Ég fékk svarið þegar ég tók leiðina af aðalgötunni inn á lítinn stíg sem var algjörlega óupplýstur. Ég stoppaði og tók af mér heyrnartólin og starði upp í himininn og án þess að geta gert neitt í því læddist bros á varir mér. Við blasti björt birta tunglsins sem var hvítt en umkringt grænni birtu sem varð svo gul og loks rauð. Um himininn liðu græn norðurljós milli skýjanna ásamt stjörnunum, þar greindi ég meðal annars karlsvagninn. Með kjánalegt bros á vörunum ásamt hugsun um lagið ‘Betra Líf’ eftir Pál Óskar gekk ég áfram. Meðvituð um umhverfið heyrði ég marrið í snjónum sem hafði fallið í dag og var því enn skjannahvítur. Þunnt frostlag hafði þó sest á hann sem gaf honum meiri gljáa en ella. Marrið undan fótum mínum ásamt andardrætti mínum var það eina sem heyrðist. Líkt og dáleidd fylgdi ég norðurljósunum sem leiddu mig heim í blikandi dansi sem fór úr grænu yfir í fjólublátt. Trjágreinar trjáa í kringum mig, þungar af snjó, snertu jörðina líkt og í virðingarskini þar sem ég gekk framhjá þeim í draumalíkri veröld.
En þessi sýn hvarf fljótt þar sem götuljós tóku bráðlega við heiminum aftur. Samt sem áður glöð í bragði gekk ég áfram heim á leið út á miðri götu, því enginn var að keyra svona seint á miðvikudagskvöldi.
kveðja Ameza