Á fyrsta deginum á nýju ári geng ég niður ganginn í skólanum. Klukkan er rétt orðin 8 og það er enn dimmt úti. Ég ætti að vera þreyttur en ég er það ekki. Ég er spenntur, kvíðinn fyrir fyrsta tímanum. Að hluta til af því að ég veit að Anna verður þar. Eða það held ég allavega. Fyrsti tíminn er stærðfræði og við höfum alltaf verið í stærðfræði saman.
Ég geng inn í næstum auða stofuna. Ég er frekar snemma en kennarinn er mættur og þrír aðrir nemendur sem ég þekki ekki. Ég sest í autt sæti aftarlega með nóg af plássum báðum megin við mig. Ég sit og bíð, einn.
Bjallan hringir, klukkan er 8:20 og 6 eru mættir, fyrir utan mig. Ég þekki ekki þessa 6 nemendur. Þegar ég hugsa um það held ég ekki að ég hafi nokkurn tímann séð þá áður. Ég tek upp stundatöfluna mína og finn fyrsta tímann á mánudegi. Klukkan 8:20, stofa 34. Ég er í stofu 43. Ég tek töskuna mína og labba í áttina að hurðinni þegar hópur af krökkum kemur á móti mér. Ég þekki engan og enginn þekkir mig. Þeir labba allir framhjá mér án þess að líta á mig.
Ég kemst fyrst út þegar allir eru komnir inn í stofuna. Ég lít á klukkuna, 8:23.
Ég hata að vera seinn. Ég verð stressaður og vandræðalegur. Það er búið að loka hurðinni að stofu 34 þegar ég kem hlaupandi að henni. Ég misstíg mig og dett framfyrir mig. Ég lendi á hurðarhúninum sem ýtist niður og hurðin opnast. Ég dett inn í stofuna á gólfið og rennilásinn á töskunni minni gefur sig. Bækurnar flæða út á gólfið. Ég sest upp og byrja að tína þær aftur ofan í töskuna þegar ég tek eftir því að í stofunni er algjör þögn. Allir stara á mig, meira að segja kennarinn, sem hafði verið að lesa upp. Nokkrir flissa og brosa en enginn hlær upphátt. Ég finn blóðið streyma fram í andlitið og ég stend upp haldandi á töskunni með báðum höndum. Ég horfi yfir stofuna og finn laust sæti í miðjuröðinni, alveg við gluggann. Ég geng hægt að sætinu og virði fyrir mér hina krakkana, kennarinn heldur áfram lesa upp. Anna situr aftast með einhverjum vinkonum sínum. Hún starir á bókina sína, svipurinn tómur. Í röðinni fyrir framan hana sitja Rúnar og Ingvar. Ingvar segir eitthvað og Rúnar hlær. En þeir horfa ekki á mig.
Ég sest í auða sætið við gluggann. Ég segi: „já!“ þegar kennarinn segir nafnið mitt en læt svo hugann reika. Ég hverf langt út fyrir skólastofuna og langt út fyrir þennan veruleika.
Eftir tímann hringir bjallan aftur og allir standa upp og labba út. Nema ég. Það virðist enginn samt taka eftir því. Allir fara bara framhjá mér. Ég horfi syfjaður á eftir krökkunum. Spenningurinn er horfinn. Kennarinn slekkur ljósið, fer út, lokar hurðinni og læsir. Og ég sit eftir í myrkrinu. Einn.