Þetta er ekki besta saga sem ég hef skrifað, enda skrifuð í þónokkrum flýti og mikilli leynd.
Einu sinni var skúringarkona sem vann í Seðlabankanum. Hún var mjög einmana.
Fólkið í seðlabankanum lagði hana í einelti og kallaði hana ‘Rauðhettu’, vegna þess að hún gekk alltaf um í rauðum sokkum.
Rauðhetta var brúnhærð, bláeygð og afskaplega feimin.
Hún var fertug og fráskilin með 2 börn og saman bjuggu þau í lítilli kjallaraíbúð á Laugarveginum.
Alla virka daga vaknaði hún klukkan 7, fékk sér morgunmat, kom börnunum á fætur, fór með þau í skólann og fór svo í vinnuna.
Þegar hún var búin í vinnunni sótti hún börnin, fór heim, eldaði kvöldmat, svæfði börnin og fór svo sjálf að sofa.
Svona var þetta alla daga. Hring eftir hring. Hún hafði lítinn tíma fyrir sjálfa sig.
En einn daginn breyttist allt.
Rauðhetta var að skúra ganginn þar sem skrifstofa seðlabankastjórans var.
Hún var nokkuð leið vegna þess að gjaldkerinn hafði gert grín að nýju skónum hennar.
Allt í einu hrasaði hún og missti skúringarkústinn sinn á gólfið.
Hún beygði sig niður til að taka hann upp en stoppaði þegar hún heyrði mannamál inni í einni skrifstofunni sem átti að vera auð.
,,Ertu viss um að þetta sé góð hugmynd?” sagði hás rödd, sem Rauðhetta kannaðist ekki við.
,,Já, að sjálfsögðu.” Sagði önnur rödd. Rauðhetta fann kuldann hríslast um sig.
Þetta var Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, stundum kallaður Úlfurinn vegna þess hve slyngur hann var í viðskiptum.
,,Ef ég býð mig fram sem forseta,” hélt Davíð áfram,
,,Þá er 85% líkur á að ég verði kosinn og þá getum við losað okkur við Ólaf um leið!”
Rauðhetta heyrði fótatak og flýtti sér að standa á fætur.
Þegar hún sá að hurðin var að opnast dreif hún sig í burtu.
“Ég verð að gera eitthvað!” hugsaði hún.
Daginn eftir mætti hún í vinnuna eins og venjulega, en hún var með gest.
Hún hafði tekið gamla frænku sína með sér til að hjálpa sér að stöðva Davíð.
Þær fóru upp á efri hæðina og bönkuðu á skrifstofuhurð seðlabankastjórans.
,,Kom inn!” sagði Davíð.
Þær gengu inn í skrifstofuna.
Davíð sat við skrifborðið sitt og annar maður í stól í horninu.
,,Hvað get ég gert fyrir þig?” spurði Davíð og brosti.
Rauðhetta kyngdi stressuð, en opnaði svo munnin til að tala.
,,Ég veit hvað þú ætlar að gera. Þú mátt það ekki. Ólafur er miklu betri forseti en þú!” bunaði hún út úr sér.
Þegar Davíð heyrði hvað hún sagði stóð hann upp.
,,Svo þið þykist geta stöðvað mig! Ha ha!” Davíð hló geðveikishlátri.
,,Geir, læstu þær inni í skápnum!”
Maðurinn í horninu stóð upp. Þær reyndu að sýna mótþróa en hann var of sterkur.
Klikk. Þær voru læstar inni í skáp, með enga von um flótta.
“Hvað gerum við nú?” hugsaði Rauðhetta, alveg miður sín.
Allt í einu heyrðu þær hurðina opnast og rödd gamallar konu hrópa:
,,Davíð! Hvað er þetta? Ég frétti að þú ætlaðir að bjóða þig fram sem forseta. Eins og Ólafur sé ekki nógu góður fyrir?!”
Rauðhetta heyrði Davíð kveinka sér og sá fyrir sér gömlu konuna toga í eyrað á honum.
Allt í einu fékk hún hugdettu. Hún æpti og byrjaði að lemja á hurðina.
,,Hjálp, hjálp!” æpti hún.
,,Hvað er þetta?” spurði gamla konan.
,,Svona Davíð, opnaðu nú skápinn.”
,,Já, mamma.” Sagði Davíð með veikri röddu.
Klikk. Hurðin opnaðist.
,,Læstirðu þær inni í skáp vegna þess að þær ætluðu að stoppa þig? Jæja, núna skaltu biðjast afsökunar!”
,,Já, mamma. Fyrirgefið mér.” sagði Davíð.
Rauðhetta kinkaði kolli.
,,Ég fyrirgef þér.” sagði hún og brosti.
,,Jæja..” byrjaði Davíð. Öldruð mamma hans potaði í hann.
,,Þú verður að bæta henni þetta upp!” sagði hún móðguð.
,,Já, já. Jæja, hvað segirðu um kauphækkun?”
Rauðhetta tók glöð við kauphækkuninni.
Hún flutti úr litlu kjallaraíbúðinni og í einbýlishús á Laugarásveginum.
Á hverjum virkum degi vaknaði hún klukkan 7, fékk sér morgunmat, kom börnunum á fætur, fór með þau í skólann og fór svo í vinnuna. Þegar hún var búin í vinnunni sótti hún börnin, fór heim, eldaði kvöldmat, svæfði börnin og fór svo sjálf að sofa.
Svona var þetta alla daga. Hring eftir hring.
Eini munurinn var sá að hún bjó í einbýlishúsi og vinnufélagar hennar voru hættir að leggja hana í einelti.
Núna var hún bara alltaf kölluð Sólveig, enda mætti hún alltaf í gulum sokkum í vinnuna.
Köttur út í mýri, setti upp á stýri, úti er ævintýri!
Verði ykkur að góðu! Rauðhetta er Rauðhetta, Davíð er úlfurinn, frænka Rauðhettu er amman og mamma Davíðs er skógarhöggsmaðurinn.
Nothing will come from nothing, you know what they say!