Mig verkjar í hendina.


Ég píri stundum augun, bara til þess að gera það, og sjá hvernig hlutirnir breytast. Ég veit ekki afhverju en mér líður oft eins og ég sé fjarsýnn. Eða nærsýnn, er ekki viss hvort það er. Þegar ég píri augun þá breytist fókusinn og sjónarsviðið minnkar. Minnkar og minnkar, en þá fókusa ég betur á einn tiltekinn hlut. Skondið, að svona virkar þjóðfélagið, en samt ekki. Þegar eitthvað kemur uppá pírir það augun og ætlar að fókusa á eitthvað, en allt er samt í móðu. Eina sem gerist er að sjónarsviðið minnkar. Það er oft þannig, það er reynt að fókusa á eitthvað eitt, oftast eitthvað neikvætt en þá hverfur allt annað af sjónarsviðinu. Ég hef stundum spáð í að leysa vandamálin eins og þau eru leyst í samfélaginu okkar, það er að segja þegar þau gleymast ekki. Það er reynt að eyða vandamálinu þegar það er hægt, stundum er reynt að koma á sáttum. En ekki alltaf. Stundum duga ekki sáttir. Stundum truflar vandamálið það mikið í samfélaginu að það verður að eyða því. Skera það í burtu. Brenna það og grafa. Eins og þegar svik verða eða eitthvað spillist og skemmist. Reynt að stöðva spillinguna áður en hún dreifist lengra, öðrum víti til varnaðar.

Þegar ég píri augun sé ég kannski bara eitthvað eitt, en ég veit af hinu. Ég veit að það verður að hugsa um hitt og hirða um það. Annars gæti það spillst af því sem að er fókusað á. Þetta er nokkuð góð rök fyrir því að eyða vandamáli. Passa að spilla ekki hinu. En hvað ef lífæðin er spillt? Verðum við þá ekki að lifa með því?


Stundum klæjar mig í góminn. Það er vonlaust að klóra sér í gómnum. Það bara gengur ekki. Hendurnar á mér eru of stórar til að passa upp í mig. Ég hef athugað það. Sumir geta sett hnefann á sér uppí sig, en ég get það ekki. Ekki það að ég vilji það sérstaklega, en það er samt eitthvað sem ég get ekki. Samfélagið okkar getur allt, eða svo er sagt. En enginn einstaklingur getur allt. Þar sem að samfélagið er skipað af einstaklingum þá hlýtur takmörkun einstaklinganna vera takmörkun samfélagsins. Þegar ég reyni að klóra mér í gómnum þá er gómurinn allt öðruvísi viðkomu með puttanum en með tungunni. Ætli snertiskynið sé þá mismunandi eftir því hvar það er? Fréttamenn takka oft púlsinn á samfélaginu. Afhverju ætli það sé komið mismunandi fram við fólk? Meira segja glæpamenn, ef að þeir eru í stjórnendastöðu og eru uppvísir að glæpsamlegu athæfi þá er komið fram við þá af meiri virðingu en smælingjans sem fremur svipað brot. Eru þeir ekki jafn brotlegir? Ef að stjórnandinn stelur milljón, og smælingjinn þúsund, og smælingjinn þarf að sitja inni í 5 ár fyrir þúsund, hversu lengi á þá stjórnandinn að vera í refsivist? Afhverju er ekki hlutfall á því hversu miklu menn stela? Því meira sem þú stelur, því lengi situr þú inni? Ekki eftir valdastöðu í samfélaginu. Síðan gleymir fólk þessu og ef einhver minnist á þetta þá er sagt að þetta sé liðin tíð og allir hafi fyrigefið manninum. Ekki ég. Ég gaf honum ekki fyrirgefningu mína.


Ég ætla að gera eins og samfélagið, því að samfélagið hefur rétt fyrir sér. Allir sem eru á annari skoðun eða haga sér ekki eins og æskilegt er eru annaðhvort settir á hæli eða í fangelsi. Þess vegna ætla ég að fjarlægja vandamálið. Ég ætla koma í veg fyrir frekari spillingu út frá þessu vandamáli. Þarna varð trúnaðarbrestur, það allra næsta manni er orðið spillt og verður að vera fjarlægt frá restinni. Nú er bara spurning um hvernig ég næ helvítis hendinni af mér.


(Skrifað undir áhrifum andvöku)