Ónefnd smásaga eftir mig
Ég sit við gluggann og horfi á regnið. Þvotturinn er að verða gegnumblautur. Ég glotti. Fuglinn í búrinu tístir. Eða hann tístir reyndar ekki. Hann meira svona galar. Það er frekar pirrandi. Mig langar stundum að taka búrið og henda því út í vegg. En ég elska fuglinn minn. Ég elska Arnúlf.
Ég nenni ekki að ná í þvottinn. Andskotans þvottur alltaf hreint. Hvað þarf maður að vera að þvo þennan þvott? Til þess að hengja hann upp? Láta rigna á hann.
Hann Dósóþeus nennir aldrei að ná í þvottinn. Nei. Kemur ekki til mála. Hann er of þreyttur þegar hann kemur heim úr vinnunni. Ég er líka þreytt þegar hann kemur heim. Ég þarf að þrífa, elda, baka, sauma, skipta um rúmföt, ljósaperur og bensín og svo þarf ég að þvo þennan argvítans þvott.
Svo í dag ætla ég ekki að gera neitt. Sitja og hlusta á galið í Arnúlfi og horfa útum gluggann. Skoppa fram í eldhús og næla mér í konfektmola. Glugga í bók og glápa á sjónvarp. Hafa það bara huggulegt.
Þegar Dósi kemur heim getur hann líka sjálfur lagað sitt kaffi. Endilega. Það þýðir ekkert að kvarta.
Af hverju þarf hann samt að vera svona yndislegur? Af hverju þarf ég að elska hann? Almáttugur hvað ég myndi hata hann ef ég elskaði hann ekki svona.
Hann er líka fallegur. Þessi augu. Þessar axlir og þessar hendur.
Og hann segist elska mig. Ég veit hann gerir það. En kannski er það ekki nóg.
Þú skellir útidyrahurðinni upp.
Þvotturinn er rennandi, bendirðu mér á.
Ég veit.
Ætlar þú ekki að ná í hann?
Ætlar þú ekki að ná í hann?
Fyrst fæ ég mér nú allavega kaffi. Er ekki á brúsanum?
Nei. Búðu til þitt kaffi sjálfur.
Þú finnur ekki sykurkarið. Ekki mjólkina heldur. Mig dauðlangar að spyrja þig hvort þú vitir ekki að mjólkin sé í ískápnum og sykurinn í langa skápnum, hvað þú sért að pæla? Á hvaða heimili er mjólkin ekki geymd í ísskáp?
En þú drekkur kaffifjandann svartan. Þrjóskan í þér.
Ég þarf að tala við þig.
Þú lítur upp.
Ég held.
Hvað?
Að við höfum farið of hratt í þetta síðustu mánuðina. Eigum við ekki aðeins að staldra við?
Hvað meinarðu? Staldra við?
Eða öllu heldur, stoppa alveg.
Þú skilur fyrr en skellur í tönnum. Þungum skrefum gengurðu inn í herbergi og nærð í nærföt og gallabuxur í poka.
Það er svona sem þú vilt hafa það?
Ég lít undan. Þurrka tárin.
Já.
Arnúlfur lætur í sér heyra. Þú ert ekki eins þolinmóður og ég og skellir búrinu í gólfið. Æðir svo út.
Ég og Arnúlfur gölum í kór.