VARÚÐ: Hér að neðan er dæmi um misnotkun eiturlyfja! Þessi saga er sönn frá A-Ö og skal taka sem reynslusögu-inngangur að því sem ég hef að segja um vald og eyðileggingu eiturlyfjanna. Ég er ekki enn búinn að losna undan þessum djöfli.

Ég horfði á símann og velti fyrir mér hvort ég ætti að svara. Nafnið blikkaði á skjánum og óhljóðin sem þessi gamli sími gaf frá sér fyllti herbergið og ég sá hvernig hljómurinn endurkastaðist frá vegg í vegg. Mér varð illt. Ég lagði símann niður og kæfði hann undir kodda á meðan samviskan fór að stigmagnast með hverri sekúndunni sem leið. Síminn þagði loksins og við tók nóttin.

Ég lá í sófanum og hlustaði á tónlistina streyma frá tölvunni. Ég kíkti á símann og horfði á skilaboðin: „1 Missed Call“.

„Djöfulsans, þetta mun ekki enda vel.“

Á þessum tíma bjó ég í litlum bæ ekki langt frá Höfuðborginni. Ég var í sambandi með stelpu úr bænum og höfðum við kynnst yfir sumartímann þar sem hún starfaði á sömu stofnun og ég. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá þessa ungu stúlku var einfaldlega þetta: „Þessa mun ég aldrei fá.“ Við hófum að mynda vinasamband og útfrá því tókum við eftir því að við ættum of vel saman, það var lygilegt. Ég trúði því ekki þegar við kysstumst í fyrsta skiptið og ég fann hversu mikil ástríða var bakvið hann og ég vissi einfaldlega að þetta væri sú eina sanna, hún var of góð til að vera sönn og of góð fyrir mig. Síðar varð það ljóst, hún var of góð.

Sjáðu til, ég á við vandamál að stríða. Ég er fíkill. Þetta sumarið hafði ég náð að vera edrú og ekkert bar á því að ég sneri aftur að eiturlyfjum, það var bara svo margt gott að gerast. Við tvö mynduðum samband þar sem við vorum fyrst og fremst vinir og skilningurinn á milli okkar var alger, þetta var líkt og að lifa drauma sína. Stelpan var svo góð, svo skilningsrík – ég get ekki sagt það nógu oft.

Þegar sumarinu lauk hófst skólagangan. Ég fór mína leið og hún sína, í Höfuðborgina, og sambandið var enn til staðar. Þegar þetta byrjar þá fer mitt gamla munstur að koma upp þar sem ég fór um helgar frá litla bæjarfélaginu í Höfuðborginna. Oft hitti ég vini mína og oft hitti ég stelpuna, ég var svo ánægður, svo glaður.
Eina helgina ákveð ég að fara til félaga míns sem ég þekkti frá síðari tímum og ætluðum við okkur að „skemmta“ okkur aðeins með tilheyrandi efnum. Fyrst fór ég að koma mér aftur í Amfetamínið þar sem vítahringurinn myndast hvað best. Þessi svokallaði vítahringur er svohljóðandi:

Þú ferð á fimmtudegi eða föstudegi í Höfuðborgina, þú reddar þér hraða – færð þér eina til tvær línur til að rífa þig upp. Allt gott og blessað. Þú viðheldur vímunni með einum og einum lykli á klukkutímafresti þar til klukkan er allt í einu orðin 5-6 um morguninn, þá er kominn tími á aðra línu eða svo. Þú helst uppi þar til um hádegi og þá þarftu að fara að redda þér öðru slagi (eitt slag er það sem eitt gramm af amfetamíni er t.d. kallað). Þá er komið að annarri línu og lyklaviðhaldi þar til síðar um kvöldið – þá er magnið sem þú tekur inn farið að aukast þar til það rennur fyrir þér að það sé kominn sunnudagur. Þú ákveður að þetta sé nóg og heimleið er þörf og svefn fyrir skólann daginn eftir. Þegar reynt er að sofna nærð þú því engan veginn án hjálpar hassreykinga, þú liggur andvaka eða horfandi á sjónvarpið þar til mánudagsmorgunn rennur í hlaðið. Nú er komið að skóla og þú hefur ekki sofið í 3-4 daga. Þar nýtir maður tækifærið og sefur allann þann dag í skólanum, ef þú nærð því, þar til þú vaknar til þess eins að fara heim að sofa – þetta helst út að öllum líkindum þar til á miðvikdag þegar þú ert kominn í gírinn fyrir næstu helgi, rinse and repeat.


Þegar nokkrar vikur voru liðnar fór að bera á áhuga- og viljaleysi til þess að hitta hina yndislegu stelpu því samviskan leyfir þér ekki að horfast í augu hennar, vitandi að þú hefur valið kvöld til eiturlyfjaneyslu framyfir hana. Þetta verður alltaf verra og verra þar til að þú ert hættur að geta hitt hana því þegar tækifæri gefst til þess þá ertu einfaldlega of dópaður til að gera það.

Það gerðist þetta kvöld – ég valdi frekar að fara á sýrutripp heldur en að hitta sálufélaga minn. Á þessari sýru lá ég svo í sófanum horfandi á tónlistina meðan Stelpan hringir og ég horfi þar til hún, og ég, fjarar út í tómið. Þetta er mín eftirsjá.

(eftir þetta kemur áframhaldandi hugleiðingar um fíkn og lífið yfir höfuð - þetta er það sem ég kýs sem inngang, how does it sound?)