Heimurinn snýst í nokkra hringi en verður svo aftur stöðugur. Ég er dofin í andlitinu en ég finn púlsinn inni í hausnum á mér, ég finn heitt blóðið pumpast um æðarnar. Ég reyni að halda jafnvæginu en dett næstum því. Reynir grípur mig og ég missi vodkaflöskuna á dökkblátt teppið. Hún brotnar ekki en afgangurinn lekur úr henni þannig að blettur myndast á teppinu. Allt í einu fjarlægist ég teppið en ég stari ennþá á það. Reynir dregur mig inn í herbergið hennar Lindu og ýtir mér að rúminu. Ég sest í smástund en gefst svo upp og hendi mér í rúmið. Ég finn þreytuna hellast yfir mig og ég loka augunum. Allt í einu finn ég eitthvað kalt á maganum og ég hrekk upp. Reynir réttir mér ískaldan bjór og ég tek sopa.
„Takk,” segi ég, en mig langaði samt ekkert í bjór. Reynir svarar ekki en leggur höndina á öxlina á mér. Hann færir hana svo neðar og byrjar að nudda á mér bakið. Það er þægilegt en ég veit að það er rangt.
„Reynir?” Hann tekur af mér bjórinn og ýtir mér á bakið.
„Reynir? Hættu…”Röddin í mér fjarar út þegar hann leggst ofan á mig og hann kyssir mig.
-„Við verðum að gera eitthvað,” segir Linda rólega. Hún er yfirveguð og röddin huggandi. Ég ligg með hausinn í kjöltunni á henni og ég er búin að vera þannig í örugglega 10 mínútur, grátandi. Ég stari niður á gólfið sem er orðið rautt af blóðinu.
-„Er hann dáinn?” röddin mín er veikluleg. Ég ræski mig, sest upp og spyr aftur, ákveðnar, „drapstu hann nokkuð?”
Linda fer niður á hnén og tekur um úlnliðinn á honum.
-„Ég finn engan púls,” ég heyri á tóninum að hún er orðin áhyggjufull. hún leggur eyrað að munninum á honum, „hann andar… jú og ég finn púls.” Hún hlær aðeins og þurrkar sig um augun með erminni sinni. „Hann er lifandi.”
Ég finn fyrir miklum létti en það varir stutt. „Linda… hvað ef hann segir að við réðumst á hann, hvað ef hann kennir okkur um?”
Það verður löng þögn áður en Linda svarar. „Við erum tvær, hann er einn. Þau hljóta að trúa okkur frekar.” Ég heyri samt óöryggi í röddinni hennar. „Við skulum keyra hann á spítalann. Skiljum hann eftir þar og bílinn. Vonum bara að hann komi ekki aftur.”
-„Nei,” allt í einu verð ég reið. Reið út í Reyni og reið út í Lindu. „Ég get ekki bara látið eins og ekkert hafi gerst. Látið hann komast upp með þetta aftur.”
-„Aftur?” Linda horfir spyrjandi á mig. Ég hafði ekki ætlað að segja þetta. Ég hafi ekki einu sinni hugsað um það sjálf áður.
-„Þegar ég sagði þér að ég hafði sofið hjá honum… Ég er ekki viss… Hann gaf mér bjór og ég drakk hann og svo man ég eiginlega ekki meir nema… ég held að það hafi verið eitthvað í bjórnum.” Ég brest í grát eftir að ég segi þetta. Ég hafði ekki viljað viðurkenna það fyrir sjálfri mér áður, hvað ég hafði verið heimsk. Linda sest aftur hjá mér og tekur um mig.
Linda drepur aftur á bílnum. Bíllin fyrir aftan okkur flautar og Linda snýr lyklinum enn einu sinni og reynir að koma druslunni hans Reynis af stað. Hvorugt okkar er með bílpróf en Linda hefur farið í nokkra ökutíma. Hún á samt ennþá í erfiðleikum með að nota kúplinguna almennilega.
Reynir liggur í aftursætinu, ennþá meðvitundarlaus en ég hafði vafið um hann sárabindi til að stöðva blæðinguna. Linda keyrir hægt á meðan ég lít eftir löggubílum. Við mætum einum og sjáum annan lagðan við veginn. En hvorugur þeirra stoppar okkur. Við segjum ekki orð á leiðinni.
Reynir er lagður í færanlegt rúm í neyðarmóttöku landspítalans.
-„Ekki fara neitt,” segir læknirinn, eldri maður, með mjúkri röddu. „Ég þarf að fá nokkrar upplýsingar frá ykkur.”
Linda kinkar kolli og læknirinn fylgir rúminu hans Reynis sem hverfur fyrir horn. Um leið hröðum við Linda okkur út í strætóskýlið
Það er dimmt úti, en skýjað og hlýtt. Linda kemur með mér heim. Við liggjum saman uppi í rúmi. Ég lít á vekjaraklukkuna mína. Klukkan er rétt yfir 12. Ég held ekki að ég geti sofnað í nótt.
„Við förum á morgun,” hvíslar Linda í eyrað á mér, „og kærum þetta helvíti.”
Ég get ekki annað en brosið. Mér finnst ég heppin. Að eiga vinkonu eins og Lindu.