Ég og Linda göngum niður Laugarveginn á sólríkum sunnudegi í september. Klukkan er orðin hálf sex og við erum á leiðinni í strætóskýli.
-„Ætlarðu að kaupa peysuna?” spyr Linda.
-„Æ, nei, veistu, mig langar ekki lengur í hana,” svara ég. Ég er fegin að hafa ekki keypt hana.
Allt í einu skrækir Linda og hleypur niður eftir gangstéttinni. Hún hoppar upp í fangið á strák sem grípur hana. Hún heldur um hálsinn á honum, með fæturna vafðar um hann og kyssir hann. Hann heldur um rassinn á henni og heldur henni uppi. Eftir smá stund sleppur hún takinu og lendir fimlega á jörðinni. Hún tekur í höndina á stráknum og dregur hann valhoppandi til mín. Hann brosir til mín og ég reyni að brosa tilbaka en ég veit ekki hvort mér tekst það.
-„Sjáðu, Lára, þetta er Reynir,” segir Linda þegar hún nálgast. Hún er brosandi.
-„Ég sé það,” svara ég og reyni að hljóma ánægð. Ég reyni að brosa aftur og í þetta skiptið veit ég að mér tekst það.
-„Hann sendi mér sms fyrir svona viku og sagði að hann væri örugglega að fara að flytja í bæinn aftur en sagði svo ekki hvenær,” útskýrir Linda, í strætónum, „hann vildi hafa það svona surprise.”
-„Af hverju sagðirðu mér það ekki?” Mér finnst ég hljóma særð en ég er það ekki. Bara hissa. Og hrædd. Og reið.
-„Æ, ég var ekki viss um hvort hann meinti það eða ekki. En finnst þér hann ekki hafa breyst mikið. Þroskast svolítið.”
-„Bara af því að hann fékk sér vinnu? Ég veit ekki.”
-„Láttu ekki svona.”
-„Svona hvernig?” spyr ég en ég veit alveg hvernig ég er að láta.
-„Það er alveg augljóst að þér líkar ekki bið hann. Ég meina þú sagðir varla neitt við hann áðan.”
Ég svara henni ekki en horfi bara út um gluggann. Hún gerir það sama þangað til vagninn stoppar fyrir utan húsið hennar.
-„Við sjáumst á morgunn, bæ.” Hún reynir að hljóma eins og hún sé fúl en ég sé í gegnum það. Fyrir henni er rifrildið búið, eins og venjulega gerist hjá okkur og hún býst líklega við að á morgunn mætum við í skólann eins og ekkert hafi gerst. En ég veit að rifrildið er rétt að byrja.
Ég er fyrir utan skólann morguninn eftir þegar gamall, rauður bíll stoppar og Linda stígur út úr honum. Ég sé inn í hann, Reyni við stýrið. Hann vinkar og ég kinka kolli á móti.
-„Hæ,” segir Linda, skælbrosandi og við göngum saman inn í fyrsta tímann. Ég hugsa að ég bíði með að tala við hana þangað til eftir skóla.
-„Eigum við að koma heim til mín?” spyr Linda þegar við göngum niður ganginn í skólanum eftir síðasta tímann. „Reynir er að vinna.”
-„Já, endilega. Ég þarf einmitt að tala við þig.”
-„Um hvað vildirðu tala við mig?” spyr Linda þegar við erum komnar út undir bert loft. Dagurinn er kaldari en í gær og þó að sólin skíni er frost.
-„Reyni,” svara ég og bíð eftir viðbrögðum. Sem koma ekki. „Ég var bara hugsa… ertu viss um að þú viljir vera með honum? Ég meina hann segist ætla að flytja í bæinn en þú ert ekki viss um hann sé að segja satt. Og svo hætti hann í skóla til að fara að vinna á lager. Ég meina, hann er ekki neitt rosalega áreiðanlegur.” Undir lokin er ég farin að tala frekar hratt til að koma þessu öllu frá mér áður en hún grípur frammí fyrir mér.
Ég er mjög hissa á því hversu yfirveguð hún er þegar hún svarar.
-„Lára, ég veit að þér líkar ekki við hann en þú verður að skilja að ég elska hann. Og svo er ekki eins og ég sé að fara að giftast honum. Við erum nú bara 17 þannig að ég hlýt nú að mega eiga kærasta þó að hann sé ekki sá áreiðanlegasti.”
-„Það er samt meira en það,” ég finn að það verðu erfiðara að finna orðin, „ég held að hann hafi haldið framhjá þér.”
-„Ha? Af hverju heldurðu það,” það er efi í tóninum.
-„Ég hef bara heyrt það,” svara ég en sé samt strax eftir því. Það hljómar ekki mjög trúverðugt.
-„Ekki trúa öllu sem þú heyrir. Reynir elskar mig og nema ég fái einhverja sönnun ætla ég ekki að trúa einhverju sem einhver sagði einhvern tímann. Bara sorrý.”
-„Í alvörunni, Linda, hann er ekki góður gæi. Trúðu mér, hann hefur haldið framhjá þér. Allavega einu sinni.”
-„Hvernig veistu?” hún er farinn að hljóma áhyggjufull.
-„Af því að,” ég fæ tár í augunum þegar ég segi þetta, „af því að ég svaf hjá honum. Síðast þegar þið voruð saman. Þú verður samt að trúa að ég ætlaði ekki að gera það, ég var full og það bara gerðist. Ég hefði sagt þér það en þegar þið hættuð saman hélt ég að þetta væri bara búið mál.”
Linda nemur staðar og lítur á mig. Tár rennur niður kinnina á henni. Hún slær mig utan undir og hleypur af stað.
„Linda!” kalla ég og hleyp svo á eftir henni. Hún hleypur inn í garð og bak við hús og ég elti. Ég sé ekki frosinn poll sem hefur myndast undir þakrennunni á húsinu og renn. Ég lendi á mjöðminni og reyni að standa upp, en það er of vont. Linda hverfur á bak við runna.