Golan lék um vanga hans þegar hann steig út úr gulu Volkswagon bjöllunni fyrir framan Hovedbanegården lestarstöðina. Þetta var kannski ekki hraðskreiðasti bílinn sem skreið um götur Kaupmannahafnar, hinsvegar hafði hann þjónað eiganda sínum ágætlega í gegnum tíðina. Ætla ég virkilega að gera þetta? Hugsaði hann. Já, þetta er eina leiðin.
Þessi dagur hafði byrjað eins og hver annar dagur í tilveru hans. Hann fór á fætur, fékk sér tvær skálar af Cheerios eins og alla aðra daga. Þessi dagur yrði samt sem áður á engan hátt líkur öðrum dögum í lífi hans, það yrði einn stór munur á.
Þegar að hann nálgaðist inngang þessarar tignarlegu byggingar varð honum starsýnt á tvo drengi. Drengirnir höfðu sitthvora leikfangabyssuna og munduðu þær eins og þeir höfðu svo margoft áður séð í kvikmyndum. Þeir hafa engar áhyggjur enda vita þeir ekki hve miklum hörmungum slíkir gripir hafa valdið í gegnum tíðina, hugsaði hann og hristi hausinn.
Það var mannmergð inni á lestarstöðinni eins og venjulega. Fólk af öllum stærðum og gerðum gekk um í þungum þönkum án þess að svo mikið sem líta í kringum sig eitt augnablik. Hér var saman kominn þverskurður samfélagsins, fólk úr öllum stéttum. Hann fyrirleit hve ópersónuleg borgin var. Ekki til vottur af samkennd.
Við pósthúsafgreiðsluna stóðu tveir lögregluþjónar og reyndu að róa niður ógæfumann sem virtist vera í miklu uppnámi. Hann var í skyrtu sem á einhverjum tímapunkti tilveru sinnar hafði verið hvít en var nú greinilega búin að lifa eitt og annað eins og eigandinn.
Klukkuna vantað nú fimmtán mínútur í níu og lestin var væntanleg eftir augnablik. Hann forðaðist augnsamband við lögreglumennina og í raun alla sem áttu leið hjá. Hann greikkaði sporið, nú ríður á að vera stundvís. Þegar hann var kominn niður á brautarpallinn athugaði hann í vasann sinn, jú allt var á sínum stað. Hann fann fyrir því hvernig hjartslátturinn varð örari og örari með hverju andartakinu sem leið. Svitinn var farinn að gera vart við sig í lófum hans og kaldur sviti spratt fram á ennið.
Þegar lestin hafði loks staðnæmst og þeir sem komnir voru á leiðarenda höfðu yfirgefið vagninn gekk hann varfærnislega inn. Hann kannaðist við nokkur andlit inni í vagninum enda hafði hann tekið þennan vagn daglega í fimm ár. Þarna var gamla konan sem muldraði gjarnan eitthvað fyrir munni sér á bjagaðri dönsku þegar hún hélt að enginn veitti henni athygli. Feitlagni maðurinn í flanelskyrtunni sem virtist alla jafna vera hamingjusamasti maður jarðar vegna þess hve gleitt hann brosti alltaf var á sínum stað.
Lestin fór mjúklega af stað og jók stöðugt hraðann þar til að lestarstöðin virtist aðeins vera lítill blettur í fjarska. Hann horfði út um gluggann og hugsaði þess sem beið hans á leiðarenda, eilíf hamingja? Hann vonaði það en hafði þó sínar efasemdir. Það er of seint til að hætta við núna hugsaði hann.
Hann fann að einhver pikkaði í öxl hans. Hann kipptist við, “miðann”! Ha? Hvað sagðirðu? “Ég sagði get ég fengið að sjá miðann þinn” Ha, já svaraði hann titrandi röddu. Þú gerðir mér bylt við sagði hann þegar hann rétti fram lestarkortið sitt. Miðavörðurinn leit kæruleysislega á miðann og þakkaði svo fyrir sig. Hann fann hvernig hjartað barðist í brjósti sínu, guði sé lof.
Hann leit á klukkuna sína, það voru nú aðeins tvær mínútur til stefnu. Hann var orðinn rennandi blautur af svita og honum fannst allra augu hvíla á sér, þetta er bara ímyndun hugsaði hann. Það er enginn að spá í mér. Hann stóð upp og leit flóttalega í kringum sig. Nú er tíminn kominn hugsaði hann og þreifaði eftir litla hnappnum sem hann hafði vandlega komið fyrir í hægri frakkavasa sínum. Lofaður sé guð hugsaði hann þegar hann þrýsti á takkann sem sendi hann ásamt öllum farþegunum inn í eilífa sælu í guðsríki.
Höf. Hörður Stefánsson.