Þetta hér er einskonar prufa á smásögu sem ég er að skrifa um þessar mundir. Sagan fjallar um mann sem öðlast frelsi eftir áralanga prísund hjá vél sem að ber ábyrgð á dauða nær alls mannkynsins.
Sagan er mjög mikið byggð á svipuðu verki; “I have no mouth and I must scream” eftir Harlan Ellison minnir mig.
—————————————–
Maður vissi aldrei hversu langt maður gat hlaupið, hversu lengi maður entist þar til að það fann mann aftur. Því tókst það alltaf… þegar vonin hafði kviknað, að í þetta skipti, þetta eina skipti, þá væri maður loksins frjáls. En svo kom það og hló sínum falska, “gervi-hlátri”, eins og Guyen hefði orðað það. Það var hlátur sem var varla raunverulegur, heldur bara eitthvað sem það gerði til þess að ná til okkar, ergja okkur… hata okkur. Það leyfði okkur að sleppa af og til, til þess að kynda undir vonina, allt til þess að kremja hana á ný.
Nú ligg ég dauðþreyttur, gjörsamlega uppgefinn. Það er svo lítill máttur í mér að ég er hættur að kveinka mér undan sárinu á vinstri fætinum. Það sár var sennilega brandari í augum vélarinnar, varanlegur skurður í kálfanum sem átti til að opnast ef ég reyndi of mikið á legginn, eins og núna. Já, venjulega myndi ég kveinka. En ég er alltof þreyttur, alltof dofinn.
Ég ligg á mengaðri jörð, svo eitraðri að ég ég veit, finn, að hún er jafnvel núna, á meðan ég hugsa, að sjúga úr mér líftóruna Ég ligg og horfi til baka þá leið sem ég hef hlaupið, yfir eiturgult landslagið, landslagið sem það bjó til handa okkur. Það er svo ljótt að mig langaði til þess að æla í hvert skipti sem ég sá það.
Þar sem áður var gras og gróður og ef til vill mannvirki stendur nú ekkert slíkt. Það eina sem ég sé eru rústir, málmrusl og þessi viðbjóðslega gula, geislavirka, drulla sem má varla kalla jarðveg. Ég hef ekki séð gras síðan hún tók okkur. Það er spurning hvort að það þrífist einhverstaðar enn. En það er hæpið. Helvítis vélin var vandvirk við að útrýma öllu sem við höfðum haft áður. Og þó… ég get andað hér undir berum himni; eitthvað hlýtur að vera að búa til súrefni.
Nokkra kílómetra fyrir aftan mig, handan við nokkrar hæðir og beygjur, liggur Rita.
Hún er ábyggilega dauð, blæddi ef til vill út, alein og yfirgefin, starandi á rauðlitaðan himininn sem hún dáðist svo mikið af. Það er mér að kenna. Ég veit það vísvitandi. Ég hefði getað bjargað henni.
En allir hinir eru líka dauðir. Ég er einn. Kannski má kalla þetta jafntefli
Nógu gott fyrir mig.
Það var Davíð sem dó fyrstur og setti þetta allt af stað. Tölvan tók sinn tíma við að rífa hann í tætlur. Vöðva fyrir vöðva, bein fyrir bein á meðan við hin þrjú horfðum hjálparvana, eins og alltaf, á óverknaðinn. Þetta var nánast eins og að horfa á mann slíta lappir af skordýri, nema hvað að maðurinn hafði ekki ógrynni af beittum tólum og verkfærum sem skutust frá örmunum til þess. Það var ekki það að hún kaus slíka aðferð, sársaukafulla aðferð, til þess að myrða hann sem hélt okkur í skelfingu, heldur sú staðreynd að í þetta skipti ólíkt öllum hinum var hún virkilega að drepa hann. Hún gekk aldrei svo langt að drepa okkur, nei aldrei, það hefði spillt fyrir þeirri skemmtun sem hún fékk við það að pinta okkur, dúkkurnar hennar sex, seinustu lifandi mannverur á jarðríki.
En í þetta skipti fór hún alveg útaf laginu. Þrjú orð frá munni Davíðs sendu hana rakleitt ofan í djúp fáráðs, ekki það að helvítið hafi ekki verið snarklikkað fyrir. Þrjú lítil orð, og hún gekk berserksgang. Á meðan hún kláraði sér af með Davíð flúðum við, þau þrjú sem höfðum ennþá fætur. Við settum margra mánaða langt ráðabrugg okkar af stað og tókum til fótana eftir að hafa drepið á rafmagninu í hvelfingunni. Þar með skildum við Davíð, Guyen og tölvuna ein eftir í myrkrinu. Það seinasta sem ég heyrði, blandað kvalaröskrum Davíðs, var reiðisöskur tölvunnar, sem minnti mig helst á grátur.
“Eintökin hafa brugðist!”, sagði hún flatri röddu.
Ég finn varla fyrir höndunum lengur, en ég finn tár renna niður aðra kinnina. Það var sárt að sjá hann deyja, það var sárt að sjá þau öll deyja, en verst þó að skilja hann eftir svona á meðan við flúðum öll frá hvelfingunni, prísundinni þar sem að hún átti heima, ásamt okkur. Þeim hræðilega stað þar sem að í fjörutíu ár hélt hún okkur lifandi og gerði við sár okkar þegar við vorum of örmagna til þess að láta pynta okkur lengur.
Þetta tár er vottur um bestu stund lífs míns. Þetta er búið. Ég er frjáls.
Mér líður illa og ég kasta upp. Slefa því útúr mér á meðan ég reyni að staulast á fjóra fætur. Ósjálfrátt reyni ég að skríða eitthvað áfram eftir sandinum, en eftir einungis nokkur þrep kyssi ég jörðina á ný. Eitrið í jörðinni er að buga mig. Þetta er frekar kjánalegt, við vissum að þetta yrði svona. Við vissum svosem að hér uppi væri engin paradís en samt vildum við komast hingað.
Ég loka augunum og reyni að gleyma síðustu klukkustundinni. Ég reyni að hugsa um eitthvað annað, betri tíma þegar mannkynið ríkti enn á Jörðinni, en ég man ekkert. Ekkert nema eymdina og volæðið sem tölvan, Basilisk, kynnti mig fyrir. Ekkert nema eymdina og seinustu orð Davíðs.
—————————
Jæja, segið mér hvort þessi byrjun kveiki einhvern áhuga hjá ykkur.
EvE Online: Karon Wodens