Ferðalagen Ferðalagen Gerð 1.9
smáSaga eftir Vigni Árnason



Athugið, notuð er stafsetning eins og orðið er borið fram í þessari sögu. Það hefur í för með sér að ankannaleg stafsetning er á þeim orðum. Þetta er einungis notað til að draga fram framburðinn á þeim.
Ég geng niður götuna, með Smiths í eyrunum og vindinn í fangið.
Ég geng fram á gamlan mann. Ég reyni að koma mér undan honum og halda áfram að labba en hann vill tala við mig:
„Þetta er allt í lagi“ segir hann og króar mig af. „Ég er bara Kalli“. „Ég er ekkert hættulegur“. Ég tek heyrnatólin úr eyrunum, ég sé að þetta gengur ekki hér.
Eftir að hafa ítrekað að mér stafi ekki hætta af honum segir gamli maðurinn: „Ég er frá Húsavík“. „Það er fyrir Norðan, er það ekki?“ spyr ég, ekki 100% viss um að það sé rétt. „Jú Húsavík er fyrir norðan“. „Hvernig er það?“ spyr ég. Kalli svarar: „Það er fallegt og skemmtilegt og þángað mun ég aftur snúa og fara kvergi“. „Já gangi þér vel með það“ segi ég. Kalli sýnir á sér fararsnið og segir að lokum: „Þetta er allt í lagi, ég er bara Kalli“.
Ég held ferð minni áfram og fer niður steinsteypustiga. Á steinsteypustiganum er skilti. Á skiltinu stendur: „Það er stranglega bannað að krota eða hengja veggspjöld á eigur borgarinnar. Við brot á þessu liggja refsingar samkvæmt hegningarlögum grein 9“. Ég krota ekkert á vegginn enda vil ég ekki verða fyrir barðinu á grein 9.
Ég geng áfram, ég labba yfir bílastæði sem er ekki fullt. Ég kem að íbúðarhúsum og labba fram hjá þeim á þröngri gangstéttinni. Ég geng fram á bíl sem er lagt upp á gangstéttina og hindrar ferð mína. Fyrir ofan bíllinn er skilti sem kveður á um það að það sé bannað að leggja beggja vegna skiltisins. Ég tek á mig krók og notast við götuna þennan spotta. Það er greinilegt að lögin eiga bara við um götu bílanna.
Nú þegar húsaröðin tekur enda beygi ég til hægri og labba fram á strætóstoppistöð, þar ákveð ég að bíða. Ég bíð. Ég bíð með öðrum manni, sem er á að giska tvítugur að aldri, ekki það að ég sé glöggur á aldur fólks. Hann er í úlpu og veðurtekinn og er nokkuð ræfilslegur í útliti. Þetta er maður sem hefur lifað tímana tvenna. Strætó kemur og hægir ferðina. Ég veifa til bílstjórans til að gefa til kynna að ég ætli með bílnum. Eitt andartak horfumst ég og strætóbílstjórinn í augu en síðan heldur vagninn áfram rétt fram hjá nefinu á mér. Samferðamaður minn segir þá: „Þegar þeir gera svona áttu ekki að vera hræddur við að gefa þeim puttann“ og gefur mér puttann, til að leggja áherzlu á mál sitt. Ég muldra eitthvað honum til samlætis, afar reiður & svekktur og held áfram að ganga. Það er lítið annað hægt að gera.
Ég geng áfram, er stórstígur. Sólin skín en er lágt á lofti, þannig að skuggarnir eru langir. Ég tek lítið eftir umhverfinu þegar einhver segir:
„Nice jacket“ (fallegur jakki). Ég snarstoppa og tek eftir lágvöxnum karlmanni með gráleitt hár sem er eigandi orðanna. Karlmaðurinn með gráleita hárið segir: „Nice jacket, it's different“ (hann er öðruvísi). Vandræðalegur spyr hann svo hvort ég kunni ensku, ég jánka því á þann hátt að hann sannfærist að ég kunni ensku og vel það. Hann tekur til við að snerta á kinn minni og spyr hversu gamall ég sé. Hann kemur með sínar eigin tilgátur um 16-17 ára aldur. Ég segist 17 ára sem er rétt. Þá fæ ég að vita að hann komi frá Hollandi og síðan spyr hann hvort ég viti um nokkurn stað þar sem við getum setzt niður og spjallað. Ég er nokkuð skelkaður út af þukli hans auk þess sem ég þarf að halda áfram. Ég streitist undan því og segist eiga fund annarsstaðar. Ég kveð karlmanninn með gráleita hárið og held áfram.
Ég labba götuna á enda og labba yfir götuna yfir á hinn gangstéttar helminginn. Ég eiginlega hleyp til að verða ekki undir jeppa sem æðir yfir miðjan veginn á leið sinni að beygja yfir aðalumferðargötuna til lítillar hliðargötunnar. Ég kemst þó yfir og held áfram ferð minni. Ég labba framhjá verzlun einni og verður litið á gulan vegginn. Þar er krotað: „Það rennur blóð, í útlendinga slóð“. Ég hraða ferð minni.
Þar sem ég geng eftir ójafnri gangstéttinni í rigningu sem er nýtekin við að falla, fer fram úr mér hjólreiðamaður einbeittur á svip. Með hjálminn knarreistur, hann hjólar áfram eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. Hann er hetja hvunndagsins, því hann á það engum að þakka nema sjálfum sér þegar hann rennur í hlaðið á áfangastað sínum. Ég hálfskammast mín fyrir að hafa reynt að svindla á sjálfum mér með því að reyna að nota vagninn gula áðan, en þessar hugsanir renna fljótt úr huga mér og ég held áfram því nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.
Það er tekið að myrkva og það kviknar á ljósastaurunum. Ég hef gengið með sjálfan mig á stað sem er nokkuð afvikinn og langt frá annarri mannabyggð. Ég geng nú á göngustíg einum í auknu myrkri og kem auga á bíl einn sem kveikt er á. Þar sitja tveir menn og eiga í heitum umræðum um hvítt efni. Ég heyri ekki tal þeirra en get mér til um umræðuefnið þar sem þeir eru að athuga hvítt efni í poka nokkuð gaumgæfilega. Það lýsir bara annað ljósið í bíl þeirra, þannig að það er satt sem þau segja að það sé ljós er aldrei slokknar. Ég held áfram ferðinni þar sem ég sé fram á bjartari slóðir.
Ég geng nú á upplýstu bílastæði. Þar er fátt markvert fyrir utan hóp unglinga sem stendur hjá einkabíl einum. Ég geng rakleitt þangað og lít inn í hópinn. Þar heilsar mér ein stúlkan með vandræðalegu „Halló“ og andartökum síðar sé ég hvar strákur einn situr inni í bílnum. Hann er að reykja pípu sem í er búið að leggja álpappír. Stúlkan vandræðalega segir yfir hópinn:
„Ótrúlega erum við miklir únglíngar, standandi hérna úti!“
Þau hyggja á að finna hús til að reykja í og fara þangað á bílnum sínum. Þau bjóða mér far, en ég afþakka og segist þurfa að halda áfram ferð minni sem ég og síðan geri.
Ég geng þar sem ég geng og allt í einu keyra nokkrir ungir menn upp götuna. Þeir eru með gluggana niðri og töffaraglott á vörunum, þeir hreyta út víti og keyra í burtu. Vítið springur í loft upp með ógnarkrafti rétt hjá mér en ég sé bara glottið á vörum þeirra. Ég geng áfram með örlitið ýl í eyrunum.
Ég ákveð að gera eina aðra tilraun til að taka strætó og staðnæmist hjá biðstöð einni. Það er tekið að birta af degi og því ætti strætó að ganga eins og venjulega, það er að segja sjaldan. Með mér bíða tvær útlendar konur sem ræða um daginn og veginn á máli sem ég ber ekki kennsl á og síðan er önnur kona sem stendur fyrir utan skýlið með stól. Konan með stólinn er lítil í vexti og nokkuð feitlagin og út úr andliti hennar skín einhver ákveðni sem skýrir það kannski hvers vegna hún setzt ekki á stólinn. Ég fylgist svolítið með konunni enda lítið annað að gera meðan beðið er eftir strætó. Allt í einu sprettur hún úr spori út á götuna á meðan engir bílar eru á veginum og hleypur út á miðja götuna. Þar tekur hún upp gauðryðgað járnstykki og flýtir sér til baka aftur því nú eru bílarnir að koma. Þegar hún kemur aftur upp á gangstéttina hendir hún stykkinu í ruslið. Hún væri fyrirmyndarefni í verkstjóra hjá Bæjarvinnunni. Hún má eiga það, litla konan með stólinn.
Strætó kemur og ég stíg upp í hann. Mér heilsar glaðlegi strætóbílstjórinn. Ég vel mér sæti þar sem maður situr hátt og horfir yfir farþegana. Farþegarnir eru þónokkrir og fjölbreyttir. Það kemur fleira fólk inn í strætóinn enda fallegur dagur og margir á ferðinni. Ég kannast samt ekki við neitt af fólkinu fyrr en Stebbi geit heiðrar strætóinn með nærveru sinni. Ég fer nú eiginlega hjá mér að sitja í sama vagni og þessi frægi maður.
Strætó kemur á biðstöðina mína og ég stíg út úr honum og geng af stað. Sólin er nú komin hátt á loft og ég er glaður í skapi þar sem ég geng yfir vatnssósa grasflöt. Ég er kominn aftur með Smiths í eyrun og hlýði á Sheila, hneigðu þig og geng í takt við tónlistina. Þegar laginu lýkur er ég kominn á leiðarenda. Þið spyrjið kannski hvert ég sé kominn? Ég spyr þá á móti: „Skiptir það máli?“
Það er ferðin en ekki áfangastaðurinn.
Vesturbær Kópavogs
26. maí 2007

________________________
Vignir Árnason