Froðan frussaðist út úr honum. Í tuttugu ár hafði hann ekki vitað að hann væri flogaveikur. Allir þessir flugtímar, allt þetta nám, og hann hafði aldrei fibast. Alltaf flogið fumlaust og til fyrirmyndar. Hann hafði staðist læknisskoðun án nokkura vandkvæða. Útskrifast með glæsibrag.
En í fyrsta skiptið án kennara eða prófdómara og þá þarf endilega að koma í ljós einhver brenglun. Hann finnur limina kippast til og frá án þess að hann fengi rönd við reist. Það eru nú ekki margir farþegar. Bara mamma, pabbi, kærastan hans og eini sonur. Þau öskra. Maður öskrar þegar maður sér úfna hraunbreiðu beint fyrir framan nefið sitt, nálgast með símeiri hraða.
Vélin er glæný. TF WTF. Jómfrúarferðin. Hann hafði keypt hana í sameiningu með þremur félögum sínum. Tekið stórt lán. Fengið aðstoð frá föður sínum. Og vélin er flott. Vél sem hrapar ekki sé henni rétt stýrt. Jafnvel á þessari stundu gengur allt hnökralaust fyrir sig, henni er beint niður og hún hlýðir.
Út um gluggana sést engin himinn, bara endalaust landið sem er að hrapa á þau.
Hendurnar kippast til spastískt og það sveigist upp á búkinn. Í síðasta sinn.
Já það er óþægileg tilfinning að komast að því að maður er flogaveikur á stundu sem slíkri.
Svona nokkurn veginn eins og tilfinningin sem hríslaðist um líkamann á Andra allt annarsstaðar á allt öðrum tíma.
Það voru tíu mínútur þar til fresturinn rynni út og hann fylgdist skelfingu lostinn með tölvunni hrynja. Hver músasmellur gerði illt verra. Skjámyndin titraði og gluggarnir urðu skjannahvítir.
Skyndilegt æðruleysi greip hann. Héðan af gæti hann hvort eð ekkert gert. Hann hallaði sér aftur í stólnum og kyngdi ekkanum. Nei, hugsaði hann með sér, ekki hætta! Vonlítill drap hann á vélinni og ræsti hana á ný. Eitt augnablik bærði hún ekki á sér. Svo fór hún að suða.
Sekúndurnar sneyddust ein af annarri aftan af tímanum sem hann hafði. Með semingi kviknaði á stýrikerfinu. Andri reyndi hvað hann gat að láta hana í friði og leyfa henni að klára að ræsast.
Þolinmæðin var á þrotum. Hann hrifsaði músina og opnaði möppuna þar sem skjalið hans beið. Hinn heilagi kaleikur innan seilingar. Ekkert gerðist. Þetta var í þriðja skiptið sem hann hafði endurræst tölvuna. Nú virtist hún ætla að frjósa enn einu sinni.
En þá hrökklaðist forritið í gang og hann sá móta fyrir útlínum möppunnar. Feginn flýtti hann sér að opna textann sem hann hafði fyrr um kvöldið lagt svo mikla vinnu í. Hann var á síðasta snúningi. Hægt og rólega skrunaði hann niður blaðsíðurnar. Hann vildi ekki styggja hana.
Ánægjan hríslaðist um hann þegar hann sá að skjalið var ósnert. Hann þyrfti ekki að skrifa lokakaflann upp á nýtt eins og fyrr um kvöldið. Trylltur af hamingju áttaði hann sig á því að verkefnið var tilbúið og hann gæti skilað því. Og enn voru tvær mínútur til stefnu. Í sæluvímu fór hann niður í valrekkann til að tengjast netinu.
Þá fraus hún. Á augabragði bráðnaði skjámyndin. Hvítar öldur ráku hver á fætur annarri á land og máðu í burtu ritgerðina sem hann hafði skrifað í sandinn.
Samstundis fraus hann. Dáleiddur fylgdist hann með.
Innan úr stofu heyrði hann í klukkunni slá inn miðnætti. Hún var aðeins vitlaus. Hann vissi að enn voru tuttugu og tvær sekúndur eftir af frestinum. En eftir það biði hans engin miskunn. Ómannúðlegt tölvukerfið myndi hafna framlagi hans. Hann var fallinn í faginu.
Sorgin blossaði upp í brjósti hans. Þetta var svo sorglega vonlaust. Hraðar en nokkurt efnahvarf umbreyttist hún í ofsa. Viti sínu fjær lagði hann hendur á fartölvuna sína og þeytti henni af skrifborðinu. Hann heyrði hana smella í veggnum.
Nú var þessu lokið. Uppgefin hallaði hann sér fram á skrifborðið, hélt um höfuðið og grét. Smá saman seig hann niður þar til hakan nam borðbrúnina. Svo sofnaði hann.
Á sumum augnablikum virðist eins og lífið sé staðráðið að halda í aðra átt en maður ætlar. Erindi Andra í skóla var lokið í bili, það var ljóst. Ekkert lá fyrir annað en að snúa heim. En hvar átti hann heima nú?
Þegar hann vaknaði daginn eftir var langt liðið á skóladag. Hann kippti sér lítið upp við það; þangað færi hann aldrei aftur. Í sálinni ríkti friður. Hann hafði gert upp hug sinn. Héðan færi hann. Þessi íbúð var bara bráðarbirgðar skýli. Sæluhús á heiði unglingsáranna.
Hann tók til yfirhafnirnar sínar og örfáar flíkur og lét í tösku. Bækurnar skildi hann eftir. Þá var honum ekkert að vanbúnaði.
Úti var kóf og Andri þurfti að skafa bílrúðurnar. Verkið var seinunnið enda var skafan brotin. Þegar inn í bílinn var komið þurfti að leyfa honum að hitna dálítið og losna við móðu. Hann blés í lófana á sér og hlustaði á hádegisfréttir.
Í fréttum var varað við flensunni og fólk minnt á að nú færi að styttast í vorið. Áhugasömum var bent á að sérlega áhugavert yrði að fylgjast með himinhvolfin um kvöldið, ef fólk hafði á annað borð áhuga á slíku. Andri saug upp í nefið og bakkaði úr stæðinu.
Umferðin var þung í ófærðinni. Leiðina þekkti hann, enda keyrði hann Brautina suðureftir margoft mánuðum saman. Nú varð ljón á vegi hans. Hann gat ómögulega barist við ljón þá stundina og sneyddi því hjá því og fór aðra leið. En aragrúi vegaframkvæmda á báða bóga varnaði honum undankomu. Honum þótti órökréttar allar þessar vegaframkvæmdir um miðjan vetur.
Þetta var eins og í illa saminni skáldsögu. Andra leið undarlega. Fyrr en varir var hann á leiðinni norður eftir og fékk ekki rönd við reist. Hvergi var vænlegt að snúa við. Hann ákvað að keyra sem leið lá áhyggjulaus þar til þessu skrýtna ástandi linnti. Þá yrði varla erfitt að snúa við.
Þegar út úr bænum var komið slotaði veðrið smásaman og snjórinn skreið upp í fjöllin aftur. Hann keyrði inn í dali og sá hvar vorið beið þar í launsátri. Sólin reis hærra en í þéttbýlin en að sama skapi virtist hún ganga hraðar yfir himinhvolfin.
Bíll skreið eftir malbikinu og út á mölina. Andri hélt þéttingsfast um stýrið og hafði hemil á bensíngjöfinni. Engu að síður fannst honum eins og hann hefði minnst um það að segja hvert var haldið. Það fór að líða á síðdegið og sólin var farin að fleyta kerlingar á fjallsbrúninni. Hann vissi ekki hvar hann var staddur. Hann komst ekki lengra.
Hann lá límdur utan í snarbrattri fjallshlíðinni. Aðeins inn með veginum var útskot. Hér var svo sannarlega mikið af grjóti og nóg af landslagi en lítið annað. Jafnvel á þessa afvikna stað lét siðmenningin á sér kræla og þar mátti sjá borð og stóla. Andra var þvert um geð að reyna þessi mannanna verk og vildi frekar athuga helliskútana út í hraunbreiðunni.
Sá fyrsti sem hann skoðaði var víður og hlýr. Hann sá ekki handa sinna skil en skreið samt inn í hann eins og í felur. Þegar inn var komið andvarpaði hann og leyfði tímanum að líða.
Og þá fór tíminn að líða. Andri fann hvernig tíminn leið eins og honum þóknaðist og ómögulegt var að segja hvort það voru sekúndur eða aldir sem þutu hjá. Hann sá ljós og heyrði hljóð sem hann hafði aldrei áður heyrt.
Sumir þurfa ábyggilega að bíða fram að brún ævinnar áður en þeir finna það sem hann fann þarna. Engin deyr þó án þess að finna það.
En hvað hann var heppinn. Fundvís. Hann hafði allann sinn aldur verið að leita og leita. Að einhverju. Allt sem hann hafði gert var leit. Og hann hafði geta haldið áfram fram í rauðann dauðann. En hann þurfti þess ekki. Bara hálfur sólarhringur síðan hann hætti þessu bulli og þá kom þetta allt til hans.
Hellirinn glumdi. Himneskar drunur sem gerðust síháværri. Hann skreið úr um munninn og heyrði hljóðið greinilegar.
Og hjartað hans fylltist fögnuði þegar hann sá fallegustu sjón ævi sinnar úti við sjóndeildarhringinn. Mikilfengleg norðurljós.
Nú þyrfti hann ekki að lifa lengur.
Líkami hans leystist upp í frumeindir sínar í þeirri gríðarlegu sprengingu sem varð er TF WTF sameinaðist jörðinni á fremur tröllslegan hátt. Á þessum stað. Á þessum tíma.